„Í gær skilaði ég af mér mánudagsgrein samkvæmt venju. Í blaði dagsins reyndist hins vegar köttur í bóli bjarnar.“ Þetta skrifar Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur sem skrifað hefur fasta pistla í Fréttablaðið á mánudögum um margra ára skeið, á Facebook-síðu sína í morgun. Á þeim stað sem pistill Guðmundar Andra birtast vanalega er þess í stað grein eftir Jón Ásgeir Jóhannesson, eiginmann stærsta eiganda Fréttablaðsins, með fyrirsögninni „Að ljúga með blessun Hæstaréttar“.
Í grein sinni fjallar Jón Ásgeir um niðurstöðu Hæstaréttar að ómerkja dóm héraðsdóms í svokölluðu Aurum-málinu svokallaða, en hann er einn sakborninga í málinu. Í henni segir Jón Ásgeir meðal annars halda hlífiskildi yfir óheiðarlegum embættismann, Ólafi Þór Haukssyni sérstökum saksóknara, en láti réttindi sakborninga lönd og leið. Tilgangur málareksturs gegn honum er, að mati Jóns Ásgeirs , sá að koma honum í fangelsi sama hvað sem það kosti.
Hæstiréttur ómerkti dóminn á grundvelli ummæla sem Sverrir Ólafsson, einn þriggja dómara í málinu, lét falla í fjölmiðlum í kjölfar dómsins. Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að hann telji „óhjákvæmilegt að virtum atvikum málsins að líta svo á að ummæli meðdómsmannsins gæfu tilefni til að draga með réttu í efa að hann hefði verið óhlutdrægur í garð ákæruvaldsins fyrir uppkvaðningu héraðsdómsins.“