Tæplega átta af hverjum tíu öryrkjum hérlendis eiga erfitt með að ná endum saman og hefur svipað hlutfall þeirra neitað sér um heilbrigðisþjónustu. Fjárhagsstaða fatlaðs fólks er töluvert verri en fjárhagsstaða atvinnulausra, en tæplega fjórir af hverjum tíu fötluðum búa við skort á efnislegum gæðum.
Þetta er á meðal niðurstaðna nýrrar spurningakönnunar sem Varða – rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins vann fyrir Öryrkjabandalag Íslands. Könnunin var lögð fyrir byrjun sumars og er byggð á svörum 1.453 af þeim sem eru á örorkulífeyri, örorkustyrk og endurhæfingarlífeyri.
Tvöfalt líklegri en atvinnulausir til að eiga í erfiðleikum
Markmið könnunarinnar var að varpa ljósi á fjárhagslegri, andlegri og félagslegri stöðu öryrkja, auk þess sem skoða átti heilsufar þeirra og viðhorf þeirra til þjónustustofnana og breytinga á almannatryggingakerfinu.
Niðurstöðurnar leiddu í ljós að fjárhagsleg staða fatlaðs fólks er töluvert slæm, þar sem stór hluti þeirra á erfitt með að ná endum saman. Ef þessar niðurstöður eru bornar saman við sambærilega könnun sem atvinnulausir félagsmenn BSRB og ASÍ svöruðu á síðasta ári fæst að fatlað fólk sé tvöfalt líklegra til að eiga erfitt með að ná endum saman heldur en atvinnulausir.
Slæm heilsa og mikil einangrun
Könnunin sýndi einnig að 75% fatlaðra kvenna og 65% fatlaðra karla búa við slæma andlega heilsu. Svipað hlutfall svarenda segist vera við slæma líkamlega heilsu.
Þrátt fyrir heilsuleysið hefur stór hluti fatlaðs fólks neitað sér um heilbrigðisþjónustu á síðustu sex mánuðum, í langflestum tilvikum þar sem þeir réðu ekki við kostnaðinn sem þjónustunni fylgdi. Þá hafa sex af hverjum tíu neitað sér um tannlæknaþjónustu og ríflega helmingur um sálfræðiþjónustu.
Til viðbótar við bága fjárhagslega stöðu og slæma heilsu stendur fatlað fólk einnig illa félagslega samkvæmt könnuninni. Mikill meirihluti þeirra segist finna fyrir félagslegri einangrun, en rúmur fjórðungur þeirra segir að einangrunin sé mjög mikil. Könnunin leiðir einnig í ljós að meirihluti þeirra segir einangrunina hafa aukist í COVID-19 faraldrinum.