Svissnesk lögregluyfirvöld handtóku sex stjórnendur Alþjóðaknattspyrnusambandsins (FIFA) snemma í morgun á Baur au Lac hótelinu í Zürich. Mennirnir eru grunaðir um aðild að spillingarmálum. Aðgerðin er hluti af rannsókn bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) á spillingu og fjársvikum innan FIFA og verða mennirnir sex allir framseldir til Bandaríkjanna. Á meðal brota sem mennirnir eru sakaðir um eru peningaþvætti, fjárglæfrastarfsemi og rafræn fjársvik. Brotin eru talin hafa átt sér stað á síðastliðnum tuttugu árum. Brotin tengjast meðal annars beiðnum ríkja um að halda heimsmeistarkeppnina í knattspyrnu. Sepp Blatter, hinn umdeildi forseti FIFA, var ekki einn hinna handteknu. Frá þessu er greint í New York Times.
Hótelið sem mennirnir voru handteknir á í morgun. MYND:EPA
Ársfundur FIFA á að fara fram á hótelinu sem mennirnir voru handteknir næstkomandi föstudag. Þar verður meðal annars kosinn nýr forseti sambandsins en Blatter er í framboði til endurkjörs. Sigri hinn 79 ára gamli Blatter mun hann leiða FIFA fimmta kjörtímabilið í röð. Einn annar er í framboði. Ljóst er að handtökurnar munu hins vegar skaða Blatter.
Jack Warner, fyrrum varaforseti FIFA.
Samkvæmt frétt New York Times verður ákæra gefin út á hendur alls átta stjórnendum og stjórnarmönnum FIFA til viðbótar við þá sex sem voru handteknir í Sviss. Á meðal þeirra sem einnig verða ákærðir, en voru handteknir í morgun, eru Jack Warner, fyrrum varaforseti FIFA frá Trinidad og Tobago, Jeffrey Webb frá Cayman Islands, varaforseti framkvæmdastjórnar FIFA, og Eugenio Figueredo frá Úrúgvæ. Búist er við að nokkrir stjórnendur íþróttamarkaðsfyrirtækja frá Bandaríkjunum og Suður-Ameríku verði líka ákærðir en þeir eru grunaðir um að hafa greitt meira en 150 milljónir dala, um 20,2 milljarða króna, í mútur og greiðslur undir borðið og fengið í staðinn arðvæna fjölmiðlasamninga í tengslum við stórar knattspyrnukeppnir á vegum FIFA.
FIFA hefur ekki viljað tjá sig um málið en búist er við því að tilkynning verði gefin út í dag. Bandarísk yfirvöld sem stýra rannsókn málsins munu halda blaðamannafund í dag.