Hinn 23 ára gamli Dylann Storm Roof, sem er ákærður fyrir að hafa myrt níu svarta kirkjugesti í Charleston þann 17. júní síðastliðinn, hefði ekki átt að geta keypt sér byssu sem hann notaði við ódæðið, ef glæpur sem hann framdi skömmu fyrir morðin hefði verið rétt skráður í bakgrunnsgagnabanka. Þetta sagði James Comey yfirmaður bandarísku alríkislögreglunnar (FBI), en BBC greinir frá málinu.
Seljendum skotvopna er skylt samkvæmt lögum að fletta hverjum þeim upp í gagnabankanum sem hefur áhuga á að kaupa sér skotvopn, til að kanna hvort þeir séu til þess bærir að kaupa byssu.
Comey fullyrti í samtali við blaðamenn í dag að Dylann Roof hefði aldrei átt að geta keypt sér byssu eftir að hann var gripinn með fíkniefni í fórum sínum nokkrum vikum fyrir voðaverkið í kirkjunni í Charleston. Roof játaði sekt sína í fíkniefnamálinu.
Yfirmaður FBI sagði að játning Roof hefði ein og sér átt að nægja til að koma í veg fyrir að hann gæti keypt sér skotvopn, en málið hefði verið vitlaust fært inn á sakaskrá hans. Það þýddi að greinandi hjá FBI, sem kannaði bakgrunn Roof sá ekki fíkniefnamálið. „Ef hún hefði séð þetta lögreglumál, þá hefðu þessi byssukaup aldrei átt sér stað,“ sagði Comey á blaðamannafundinum í dag.