Ramses II, félag í eigu Eyþórs Arnalds, fyrrverandi oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurborg, hagnaðist um 388,4 milljónir króna í fyrra. Um var að ræða mikinn viðsnúning frá fyrra ári þegar félagið tapaði 15,6 milljónum króna.
Hagnaðurinn er nánast allur kominn til vegna þess að seljendalán sem félagið Kattarnef veitti af afskrifuð í fyrra, en hún stóð í 386,8 milljónum króna í lok árs 2020. Í ársreikningi Ramses II kemur fram að „aðrir fjármagnsliðir“ hafi verið jákvæðir upp á tæplega 382 milljónir króna í fyrra.
Hlutdeild í hagnaði móðurfélags Árvakurs, Þórsmerkur, gerir það að verkum að Ramses II bókfærði 17,3 milljón króna jákvæða innkomu.
Vegna lækkaði skuldastaða Ramses II úr 387 milljónum króna í 15,8 milljónir króna milli ára og eiginfjárstaða félagsins fór úr því að vera neikvætt um 305 milljónir króna í að vera jákvæð um 83,9 milljónir króna.
Lánið var upphaflega veitt svo Eyþór gæti orðið stærsti eigandi Árvakur, útgáfufélags Morgunblaðsins.
Þrjár útgerðir seldu hluti sína til Eyþórs
Samherji, Síldarvinnslan og Vísir seldu sína hluti í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, árið 2017 til Eyþórs. Alls var um að ræða 26,62 prósent eignarhlut. Stærsti bitinn var 18,43 prósent hlutur sem Eyþór keypti af félagi Samherja, sem ber nafnið Kattanef ehf. Eyþór lagði ekkert út fyrir kaupunum heldur veitti seljandinn honum seljendalán. Stærsti eigandi Síldarvinnslunnar er Samherji og hún keypti nýverið allt hlutafé í Vísi.
Í fyrra náðist svo samkomulag á milli félagsins Ramses II, sem er í fullri eigu Eyþórs, og félagsins Kattarnefs um að Ramses, líka í fullri eigu Eyþórs, keypti kröfuna sem Kattarnef átti á Ramses II. Virði hennar var, líkt og áður sagði, krónur núll í bókum Kattanefs.
Hlutur Eyþórs í Árvakri hefur rýrnað vegna ítrekaðra hlutafjárinnspýtinga annarra hluthafa og Ramses II á nú 12,08 prósent hlut í útgáfufélaginu. Sá eignarhlutur var metinn á 82,4 milljónir króna í lok árs 2020 en hafði verið bókfærður á 325 milljónir króna árið 2017.
Mikið rekstrartap
Rekstrartap Árvakurs á síðasta ári var 113 milljónir króna. Það er lægra rekstrartap en árið áður, þegar útgáfufélagið tapaði 210 milljónum króna. Í fyrra fékk Árvakur þó 81 milljónir króna í rekstrarstyrk úr ríkissjóði auk þess sem félagið frestaði greiðslu á staðgreiðslu launa starfsmanna og tryggingagjaldi í fyrra upp á alls 122 milljónir króna. Um er að ræða vaxtalaust lán úr ríkissjóði sem þarf að endurgreiðast fyrir mitt ár 2026. Greiðslur eiga að hefjast á þessu ári.
Í frétt sem birtist í Morgunblaðinu í byrjun maí var greint frá því að hefði skilað 110 milljóna króna hagnaði í fyrra. Í þeirri frétt var ekki minnst á vaxtalausa lántöku hjá ríkissjóði.
Í ársreikningi Árvakur sést hvernig sá hagnaður myndast, en hann er ekki tilkominn vegna reglulegs reksturs, af honum er áfram sem áður tap.
Hlutdeild í afkomu dóttur- og hlutdeildarfélaga, sem tengist ekki grunnrekstri Árvakurs, útskýrir þann mun sem er á endanlegri afkomu og rekstrarafkomu, en hún er jákvæð um 243 milljónir króna. Þar skiptir mestu hlutdeild í Landsprenti, sem rekur prentsmiðju sem prentar þorra þeirra prentmiðla sem gefnir eru út á Íslandi, en hún var 196 milljónir króna í fyrra. Rekstrartekjur drógust þó saman.
Hlutdeild í afkomu dóttur- og hlutdeildarfélaga, sem tengist ekki grunnrekstri Árvakurs, útskýrir þann mun sem er á endanlegri afkomu og rekstrarafkomu, en hún er jákvæð um 243 milljónir króna. Þar skiptir mestu hlutdeild í Landsprenti, sem rekur prentsmiðju sem prentar þorra þeirra prentmiðla sem gefnir eru út á Íslandi, en hún var 196 milljónir króna í fyrra. Rekstrartekjur drógust þó saman.
Morgunblaðið hefur hrunið í lestri
Frá því að nýir eigendur tóku við rekstri Árvakurs í febrúar 2009 undir hatti Þórsmerkur og til loka árs 2020 hefur útgáfufélagið tapað yfir 2,5 milljörðum króna. Eigendahópurinn, sem hefur tekið einhverjum breytingum á tímabilinu, hefur nú lagt Árvakri til samtals tvo milljarða króna í nýtt hlutafé.
Þegar nýju eigendurnir tóku við rekstrinum var Morgunblaðið, flaggskip útgáfunnar, lesið af rúmlega 40 prósent þjóðarinnar. Í síðustu birtu mælingu Gallup á lestri prentmiðla var sá lestur kominn niður í 16,9 prósent og hefur aldrei mælst lægri. Lestur blaðsins hjá 18-49 ára mælist 7,8 prósent.
Vefur útgáfunnar, Mbl.is, var lengi vel mest lesni vefur landsins en síðustu misseri hefur Vísir.is, vefur í eigu Sýnar, oftar mælst með fleiri notendur. Mbl.is hefur þó enn vinninginn þegar kemur að fjölda flettinga en miðlarnir tveir hafa undanfarið verið með nánast sama fjölda innlita á viku.