K&B ehf., félag sem er að mestu í eigu systkinanna Baldvins og Kötlu Þorsteinsbarna, hagnaðist um 20,8 milljónir evra, um 3,2 milljarða króna, á síðasta ári. Hrein eign félagsins nam um 44,7 milljónum evra, um 6,9 milljörðum króna, um síðustu áramót. Eignir félagsins voru bókfærðar á tæplega 40 milljarða króna en á móti þeim eignum eru skuldir upp á tæpa 33 milljarða króna.
Þetta kemur fram í ársreikningi K&B ehf. sem sendur var inn til ársreikningaskrár í síðustu viku en birtur í gær.
K&B ehf. er stærsti einstaki eigandi Samherja hf., þess hluta Samherjasamstæðunnar sem heldur á starfsemi hennar á Íslandi og Færeyjum, með 43 prósent eignarhlut. Hluturinn í Samherja er eina eign félagsins og hagnaður félagsins hlutdeild í hagnaði útgerðarrisans. Baldvin á 49 prósent hlut í K&B ehf. en Katla systir hans 48,9 prósent. Faðir þeirra, Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja, á 2,1 prósent hlut.
Tilkynnt var um það um miðjan maí í fyrra að eigendaskipti væru að eiga sér stað hjá Samherja. Þá birtist tilkynning á heimasíðu Samherjasamstæðunnar um að Þorsteinn Már, fyrrverandi eiginkona hans Helga S. Guðmundsdóttir og útgerðarstjórinn Kristján Vilhelmsson væru að færa stóran hluta af eignarhaldi á Samherja hf. til barna sinna.
Halldór Örn, Kristján Bjarni og Katrín Kristjánsbörn, eiga samanlagt með um 41,5 prósent hlutafjár en ekkert þeirra meira en 8,5 prósent hlut hvert. Þar á eftir kemur félagið Bliki ehf. með 11,9 prósent hlut. FramInvest Sp/f er skráð fyrir 27,5 prósenta hlut í Blika. Það félag er skráð í Færeyjum. Þorsteinn Már er helsti skráði stjórnandi þess félags.
Þorsteinn Már, Kristján og Helga halda hins vegar áfram að vera eigendur að erlendu starfseminni, og á stórum hlut í Eimskip, sem hefur frá 2018 verið vistað inni í öðru eignarhaldsfélagi, Samherja Holding ehf., frá árinu 2018 þegar samstæðunni var skipt upp.
Fyrirframgreiddur arfur og sala
Í maí, þegar Kjarninn leitaði eftir upplýsingum um með hvaða hætti framsal hlutabréfa foreldra til barna hefði átt sér stað, fengust þau svör hjá Björgólfi Jóhannssyni, þá annars forstjóra Samherja, að annars vegar hefðu börnin fengið fyrirframgreiddan arf, og hins vegar væri um sölu milli félaga að ræða.
Í ársreikningi K&B ehf. kemur fram að félagið hafi skuldað 212,5 milljónir evra, um 32,7 milljarða króna, í lok síðasta árs. Uppistaðan er langtímalán sem félagið borgar 8,4 milljónir evra, um 1,3 milljarða króna, af á ári.
Tilkynnt um eigendatilfærslu skömmu fyrir Kveiksþáttinn
Baldvin er með lögheimili í Hollandi, þar sem hann býr og leiðir alþjóðlega starfsemi Samherja. Þar af leiðandi er hann skilgreindur sem erlendur samkvæmt íslenskum lögum og því ber að tilkynna hana til stjórnvalda. Kjarninn greindi frá því í fyrrasumar að fjárfesting K&B ehf. í Samherja hafi verið tilkynnt til atvinnuvegaráðuneytisins átta dögum áður en að Kveikur, Stundin, Wikileaks og Al Jazeera opinberuðu margra mánaða rannsóknarvinnu sem sýndi fram á meintar mútugreiðslur, peningaþvætti og skattasniðgöngu Samherjasamstæðunnar í tengslum við veiðar hennar í Namibíu.
Starfsmaður atvinnuvegaráðuneytisins hringdi tvívegis í Ólaf Þór Hauksson héraðssaksóknara, annars vegar 18. desember og hins vegar 20. desember 2019, til að gera honum viðvart um að ráðuneytinu hefði borist tilkynning um að erlendur aðili, Baldvin, hefði keypt hlutinn í Samherja.
Í skjali um samskiptin kom fram að ástæða þess að haft var samband við við héraðssaksóknara var að ráðuneytinu væri „kunnugt um að það félag sem tilkynningin viðkemur og aðaleigandi þess og forstjóri eru til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara.“
Í tilkynningu Samherja um að stofnendur fyrirtækisins væru að láta eignarhluti renna til barna sinna kom fram að stjórn Samherja hefði fyrst verið tilkynnt um áformin sumarið 2019.
Fyrirtækið hefur hafnað því að tengsl væru á milli þess að tilkynnt væri um eigendabreytingarnar og umfjöllunar um athæfi Samherja í Namibíu.
Eigið fé samstæðunnar á annað hundrað milljarðar
Félög í samstæðu Samherja hf. eru í hópi umsvifamestu sjávarútvegsfyrirtækja landsins og byggist rekstur samstæðunnar fyrst og fremst á veiðum á bolfiski og uppsjávarfiski, landvinnslu á bolfiski, fiskeldi auk markaðs- og sölustarfsemi. Auk þess eiga þau ýmsar aðrar eignir, til dæmis hlut í smásölurisanum Högum.
Í ársreikningi Samherja hf. sem birtur var í síðustu viku kemur fram að hagnaður félagsins var 7,8 milljarðar króna á árinu 2020. Eigið fé félagsins var 78,8 milljarðar króna í lok síðasta árs.
Samherji Holding, hinn helmingur samstæðunnar, hefur ekki skilað inn ársreikningi fyrir árin 2019 og 2020. Samherja-samstæðan átti eigið fé upp á 110,7 milljarða króna í lok árs 2018. Hagnaður Samherja, þegar bæði Samherji hf. og Samherji Holding voru talin saman, vegna ársins 2018 nam samtals um 11,9 milljörðum króna.
Hagnaður Samherjasamstæðunnar hafði numið yfir 112 milljörðum króna á átta árum, frá árinu 2011 og fram til loka árs 2018. Síðan þá hafa að minnsta kosti 17 milljarðar króna bæst við vegna afkomu Samherja hf., en óljóst er hversu miklum hagnaði Samherji Holding hefur skilað.
Samherji lítur á samfélagslega ábyrgð sem skyldu
Í nýjasta ársreikningi Samherja er líka gerð grein fyrir þeim ásökunum sem bornar eru á Samherja og starfsmenn samstæðunnar um alvarleg lögbrot, meðal annars spillingu og mútur sem eru til rannsóknar hjá yfirvöldum í Namibíu og á Íslandi.
Í ófjárhagslegri upplýsingagjöf sem birt er aftast í ársreikningunum er sérstakur kafli um mannréttindi þar sem segir að virðing fyrir starfsfólki og mannréttindum séu grundvallaratriði í rekstri Samherja. „Skulu allir vera jafnir fyrir lögum og njóti mannréttinda án tillits til kynferðis, kynhneigðar, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Um þessar mundir er unnið að gerð sérstakrar mannréttindastefnu fyrir samstæðu Samherja. Engum skal haldið í nauðungarvinnu eða barnaþrælkun og hafnar Samherji hvers kyns þrældómi, nauðungarvinnu og mansali.“
Á sama stað er sérstakur kafli um samfélagsábyrgð og -þátttöku samstæðunnar þar sem segir meðal annars að Samherji lítur „ekki einungis á samfélagslega ábyrgð sem skyldu heldur einnig sem tækifæri til að bæta velferð þess samfélags sem rekstur samstæðunnar er á hverjum stað. Felur samfélagsþátttaka Samherja meðal annars í sér að styðja við samfélögin á hverjum stað, hvort sem er í formi styrkja, atvinnusköpun eða samvinnu við aðra atvinnurekendur á viðkomandi svæði [ ... ] Samherji hefur undirritað samfélagsstefnu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og vinnur nú að gerð samfélagsskýrslu Samherja þar sem samfélagsábyrgð og -þátttöku Samherja verður frekar lýst.“