Innkaupa- og framkvæmdaráð Reykjavíkurborgar hefur, að fenginni leiðsögn frá embætti borgarlögmanns, hafnað því að endurskoða fyrri ákvörðun sína um að hafna tilboði frá verktakafyrirtækinu Vörðuberg ehf. í 100 milljóna króna gangstéttaviðgerðir á vegum borgarinnar.
Málið var tekið fyrir á fundi ráðsins í síðustu viku.
Ástæðan fyrir því að tilboðinu frá Vörðubergi var hafnað er sú að eini hluthafi þess, samkvæmt síðasta birta ársreikningi, hlaut árið 2018 fjögurra mánaða skilorðsbundinn dóm og margmilljóna króna sekt fyrir að skila ekki inn virðisaukaskattskýrslum og virðisaukaskatti nokkurra fyrirtækja þar sem hann var stjórnarmaður og framkvæmdastjóri. Einnig var hann dæmdur fyrir að færa bókhald fyrirtækjanna ekki með réttum hætti.
Vegna þessara brota telur borgin sig hafa lagalega skyldu til þess að útiloka Vörðuberg frá útboðinu, en samkvæmt lögum um opinber innkaup skal útiloka þá hafa gerst sekir um sviksemi, með því að brjóta gegn skyldum um greiðslu opinberra gjalda, lífeyrissjóðsgjalda eða annarra lögákveðinna gjalda, frá þátttöku í útboðum hjá hinu opinbera.
Mjög sjaldgæft er að til þessa komi, samkvæmt svörum frá Reykjavíkurborg, en þaðan gat Kjarninn ekki fengið dæmi um nein mál sem væru sambærilega vaxin, þegar eftir því var leitað.
Segja nýjan eiganda kominn að borðinu
Verktakafyrirtækið vill þó meina að ákvörðun borgarinnar standist ekki skoðun, þar sem sá einstaklingur sem um ræðir komi ekki lengur nærri rekstrinum og fyrirtækið hafi verið selt til nýs eiganda í desember í fyrra. Sá einstaklingur hafi ekki hlotið neinn dóm og ekki fyrirtækið heldur.
Vörðuberg fór því fram á að borgin endurskoðaði ákvörðun sína um að hafna tilboði fyrirtækisins og sagðist sömuleiðis áskilja sér rétt til þess að fara fram á skaðabætur ef þeirri kröfu yrði hafnað, sem nú er búið að gera.
Það var gert eftir að borgarlögmaður fjallaði um málið, en í umsögn borgarlögmanns kemur fram að þrátt fyrir að annar einstaklingur sé nú skráður raunverulegu eigandi félagsins í fyrirtækjaskrá skáki það ekki upplýsingum sem fram komi í ársreikningi eða sannleiksgildi þeirra um hver sé hluthafi félags.
Borgarlögmaður nefnir í umfjöllun sinni um málið að eina sönnunin sem Vörðuberg hafi fært fram um meint eigendaskipti fyrirtækisins sé fullyrðing bókara fyrirtækisins, en sú fylgdi bréfi sem lögmannssþjónustan Draupnir sendi borginni eftir að búið var að hafna tilboði fyrirtækisins af áðurnefndum ástæðum.
Buðu um 45 milljónum lægra en næsta fyrirtæki
Þegar tilboð í gangstéttarviðgerðirnar voru opnuð í byrjun maí kom í ljós að Vörðuberg var með langlægsta tilboðið. Fyrirtækið bauð rúmar 92 milljónir króna í verkið, sem var með kostnaðaráætlun upp á 100 milljónir króna. Sumargarðar ehf., sem áttu nægstlægsta tilboðið og hlutu verkið, buðu tæpar 137 milljónir króna í viðgerðirnar. Einnig bárust tilboð frá Garðasmíði ehf. og Lóðaþjónustunni ehf.
Auk þess sem áður hefur verið rakið veitti embætti borgarlögmanns kjörnum fulltrúum innkaupa- og framkvæmdaráðs þá leiðsögn að ekki væri hægt að fallast á kröfur Vörðubergs um að fá ákvörðun ráðsins endurskoðaða, þar sem engin heimild væri fyrir því að ógilda samning borgarinnar við Sumargarða ehf., sem komst á 26. maí.