Þær auglýsingar sem Reykjavíkurborg kaupir af fyrirtækinu H. Pálsson ehf. eru nánast einvörðungu birtar í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu. Borgin keypti birtingar í gegnum fyrirtækið fyrir um 11,5 milljónir króna á árinu 2013 og fyrstu átta mánuðum ársins í ár. Þetta kemur fram í sundurliðuðu svari fjármálastjóra borgarinnar við fyrirspurn um málið.
Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, lagði fram fyrirspurn nýverið um auglýsingakostnað Reykjavíkur á árinu 2013 og það sem af er árinu 2014. Henni var svarað á síðasta borgarráðsfundi. Kjarninn greindi frá svarinu á þriðjudag.
H. Pálsson kaupir nánast bara af Fréttablaðinu og Morgunblaðinu
Það vakti athygli í svarinu að fyrirtæki sem heitir H. Pálsson ehf. fékk samtals 11,5 milljónir króna greiddar frá borginni á tímabilinu vegna birtinga auglýsinga.
Kjarninn hefur nú fengið sundurgreiningu á hvar auglýsingar sem Reykjavíkurborg kaupir af H. Pálsson eru birtar. Í þeirri sundurgreiningu kemur fram að þær birtast nánast einvörðungu hjá Fréttablaðinu og Morgunblaðinu. Rúmlega ellefu milljónir króna af þeim 11,5 milljónum sem borgin greiddi til H. Pálssonar vegna birtinga fór til Fréttablaðsins eða Morgunblaðsins.
Reykjavíkurborg keypti til viðbótar beint auglýsingar af 365 prentmiðlum, sem er Fréttablaðið, fyrir 38,2 milljónir króna á árinu 2013 og fyrstu átta mánuðum ársins 2014. Borgin keypti auglýsingar af Morgunblaðinu fyrir 10,2 milljónir króna á sama tíma.
Samtals fengu þessir tveir miðlar, að meðtöldum því fé sem rataði til þeirra í gegnum H. Pálsson, um 60 milljónir króna frá Reykjavíkurborg vegna birtinga auglýsinga á ofangreindu tímabili. Til viðbótar keypti borgin birtingar í gegnum birtingarhús og auglýsingastofur fyrir umtalsvert fé. Hlutverk birtingarhúsa er að kaupa birtingar í hinum ýmsu miðlum fyrir viðskiptavini sína. Þorri þeirra birtinga rataði einnig til Fréttablaðsins og Morgunblaðsins. Heildareyðsla borgarinnar í birtingar á tímabilinu var um 200 milljónir króna.
Auglýsingar sem borgin birtir eru margskonar. Þær geta verið atvinnuauglýsingar, vegna deiliskipulagsbreytinga, styrkja, hugmyndasamkeppna, viðburða osfr.