Yfirdráttarheimild íslenskra heimila er að meðaltali 720 þúsund krónur. Sé miðað við algenga 12% yfirdráttarvexti þá greiðir meðalfjölskylda 86.400 krónur í yfirdráttarvexti á ári.
Þetta kom fram í stuttu innslagi í síðasta þætti af Ferð til fjár. Yfirdráttarlán eru einhver dýrustu lán sem hægt er að taka og hár, viðvarandi yfirdráttur getur verið vísbending um að pottur sé brotinn í fjármálum einstaklinga og heimila. Rúmlega 86 þúsund króna árlegur kostnaður vegna yfirdráttarlána gerir yfir 7.000 krónur á mánuði. Hafa ber í huga að hér er um meðaltal að ræða, margar fjölskyldur og einstaklingar hafa enga yfirdráttarheimild eða nýta ekki á meðan aðrir glíma við háan kostnað vegna yfirdrátts.
Bankarnir bjóða viðskiptavinum sínum aðstoð við að greiða niður yfirdráttinn, meðal annars með því að gera áætlun til lengri tíma þar sem yfirdrátturinn er lækkaður í þrepum. Er það eitthvað sem þú gætir skoðað?
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir verða á RÚV næstu vikur. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Næsti þáttur er á dagskrá fimmtudaginn 5. febrúar. Fylgstu með á Facebook-síðu Ferðar til fjár.