Þær ferðaskrifstofur sem alls fengu 3,2 milljarða króna lánaða frá sérstökum Ferðaábyrgðarsjóði hins opinbera, til þess að endurgreiða neytendum pakkaferðir sem ekki voru farnar í upphafi kórónuveirufaraldursins, munu fá allt að tíu ár til þess að endurgreiða lánin en ekki sex ár eins og áður hafði verið lagt upp með.
Frumvarp þessa efnis er nú á greiðri leið í gegnum þingið, en atvinnuveganefnd er samstíga um að samþykkja skuli frumvarpið, sem lagt var fram af Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og viðskiptaráðherra í byrjun apríl, en ferðamál heyra undir ráðuneyti hennar.
Rúmlega fimmtíu lán veitt
Fyrsti gjalddagi þeirra 54 lána sem Ferðaábyrgðarsjóður hefur veitt er 1. desember 2022, en á seinasta ári var ákveðið að seinka þessum fyrsta gjalddaga um eitt ár sökum þess að rekstur ferðaskrifstofa væri ekki orðinn nægilega burðugur til þess að þær gætu staðið straum af afborgunum þessara lána, sem verða fjórar á ári.
Fyrstu afborgun lánanna hefur raunar verið frestað tvisvar, en þegar lögin voru sett árið 2020 var lagt upp með að fyrsta afborgun yrði innt af hendi 1. mars 2021, en því síðar frestað til 1. desember sama ár.
Nú er svo lengt í þessum lánum um fjögur ár, með stöðu greinarinnar huga, en í greinargerð með frumvarpi ráðherra segir að viðspyrna ferðaþjónustunnar hafi „ekki orðið jafn hröð og vonast var til“ og að fjárhagsstaða flestra ferðaskrifstofa sé um þessar mundir „verulega slæm og ljóst að flestum lántakendum mun reynast erfitt að standa í skilum með endurgreiðslur af lánum sínum á sex árum frá lánveitingu.“
„Í ljósi mikilvægis ferðaþjónustunnar fyrir hagkerfið leiðir heildarmat á hagsmunum til þess að rétt sé að veita heimild til að lengja lánin til allt að tíu ára og styrkja þannig rekstrarstöðu ferðaskrifstofa,“ segir sömuleiðis í greinargerð með frumvarpi ráðherra.
Í nefndaráliti atvinnuveganefndar segir að ljóst sé að verði ekki lengt í lánunum verði greiðslubyrði lántakenda mjög mikil á fyrsta gjalddaga lánanna. Fram kemur að við meðferð málsins í nefndinni hafi verið rætt um að eitt af markmiðum með stofnsetningu Ferðaábyrgðarsjóðs hafi verið að aðstoða ferðaskrifstofur í því erfiða rekstarumhverfi sem leiddi af heimsfaraldrinum. Nefndin telur því nauðsynlegt að lengt verði í lánstíma þeirra lána sem Ferðaábyrgðarsjóður veitti.
Kom í veg fyrir fjöldagjaldþrot ferðaskrifstofa
Stofnun Ferðaábyrgðarsjóðs átti sér nokkurn aðdraganda, en við upphaf kórónuveirufaraldursins í vetrarlok 2020 kom upp bráðavandi hjá ferðaskrifstofum, bæði þeim sem gera út á ferðir ferðamanna hingað til lands og þeirra sem selja Íslendingum ferðir út í heim.
Ferðatakmarkanir leiddu til þess að nær öllum ferðalögum var aflýst og því reyndist ómögulegt að koma pakkaferðum sem neytendur höfðu greitt fyrir í framkvæmd. Samkvæmt lögum eiga neytendur rétt á fullri endurgreiðslu innan 14 daga frá því að tilkynnt er um aflýsingu ferðar eða hún afpöntuð vegna óviðráðanlegra aðstæðna.
Hjá fyrri ráðherra ferðamála, Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, voru til að byrja með uppi áform um að heimila ferðaskrifstofum að fresta endurgreiðslum pakkaferða sem féllu niður um allt að tólf mánuði með því að gefa út inneignarnótur fyrir andvirði ferðarinnar.
Þetta frumvarp var afar umdeilt og sögðu Neytendasamtökin til dæmis að það fæli í sér að ferðaskrifstofur fengju vaxtalaus lán hjá neytendum án þess að þeir hefðu nokkuð um það að segja.
Að endingu varð niðurstaðan sú að Þórdís Kolbrún játaði að frumvarp hennar nyti ekki stuðnings á þingi og hafist var handa við að teikna upp Ferðaábyrgðasjóðinn, sem ríkið svo fjármagnaði til þess að leysa bráðavanda ferðaskrifstofa og forða fjöldagjaldþrotum í greininni. Ferðamálastofa hefur umsjón með sjóðnum.