Staða efnahagsmála er í augnablikinu flókin á Íslandi. En það er hún líka erlendis og stærsta málið er hvað gerist í Bandaríkjunum í sumar og haust, segir Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði, en hann var gestur í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Vestanhafs hafi verið farið í gríðarlega aukningu ríkisútgjalda samhliða fjöldabólusetningum. „Samfélagið þar mun væntanlega fara í eðlilegt horf þegar líður á sumar,“ segir Gylfi en með mikill örvun og lágum vöxtum. „Ef verðbólgan fer vaxandi í Bandaríkjunum fara vextir í heiminum upp. Við erum auðvitað örlítið peð í því dæmi.“ En þá megi búast við að vaxtastig hér og annars staðar hækki með alls kyns afleiðingum fyrir þau lönd sem tekið hafa lán í dollurum síðustu árin. „Svo það er gríðarleg óvissa í heimshagkerfinu,“ segir hann. Hér á landi sé staðan svipuð, hér séu vextir mjög lágir, örvun frá ríkinu sé mikil sem og verið sé að bólusetja þjóðina. Og kannski síðsumars muni ferðaþjónusta hefjast á ný. „Þá er vandi okkar sambærilegur og stóru landanna.“
Hér á landi hafi atvinnuleysi verið mikið síðustu mánuði en hins vegar hefur samsetning eftirspurnar breyst. Gylfi hefur stundum talað um „90 prósent hagkerfið“ annars vegar og „10 prósent hagkerfið“, sem er ferðaþjónustan, hins vegar. Á næstu mánuðum mun ferðaþjónustan komast aftur til lífs og atvinnuleysi sem henni tengist mun minnka. Í hinum hluta hagkerfisins mun afkoma sjávarútvegs væntanlega batna en hins vegar munu aðrir þættir þess gefa eftir, t.d. verslun og þjónusta, „þegar Íslendingarnir fara aftur til útlanda að versla“.
Hækkun verðbólgu að undanförnu stafar að sögn Gylfa fyrst og fremst af hækkun fasteignaverðs og því sé ekki hægt að segja að um „almenna verðbólgu“ sé að ræða, en af henni myndi hann hafa meiri áhyggjur. Til að bregðast við þurfi að hafa áætlun; með bólusetningu, hversu mörgum erlendum ferðamönnum og með hvaða skilyrðum verði hleypt inn í landið og hvenær. Einnig þarf að huga að því hvernig peningastefnan og ríkisfjármálin geti stutt við það. „Það þarf að hafa alla aðila í takt. Svo að ég vona að það muni heppnast.“
Hann segir ljóst að verðbólgunni verði ekki leyft að fara á skrið. Í veg fyrir það verði komið með einum eða öðrum hætti. Hægt sé að taka á fasteignaverðbólgu með ýmsum tækjum. Seðlabankinn hafi t.d. nú tæki til að draga úr útlánum bankanna. „Það er líka hægt að nota vaxtatækið,“ bendir hann á.
Þegar gjaldeyrir fer að koma inn í landið með erlendum ferðamönnum þá megi búast við því að gengi krónunnar hækki sem myndi lækka verðbólgu. Þá þurfi að ákveða hvort að leyfa eigi þeirri hækkun að fara í gegn eða huga að inngripi á gjaldeyrismarkaði og tempra hana. „Ef við erum með 4,6 prósent verðbólgu og 0,75 prósent stýrivexti og atvinnuleysi hverfur í sumar þá samkvæmt öllum reglum í peningastefnu eru vextirnir of lágir.“
Komið í veg fyrir sprengingu
Spurður hvort að við þessar aðstæður megi búast við „sprengingu“ sagði Gylfi að farið yrði þá í hækkun vaxta í mörgum „ábyrgum“ og „varfærnum“ skrefum „til þess að það verði ekki sprenging, svo að það verði ekki verðbólga“.
Óverðtryggð lán hafa á síðustu misserum verið að taka yfir á húsnæðislánamarkaði. Séu vextir þeirra breytilegir mun hækkun stýrivaxta hafa áhrif á þau. Gylfi segir enga ástæðu til að óttast þetta mikið, verði vextir hækkaðir verði það gert eftir „kúnstarinnar reglum“.
Breyting varð á aðferðafræði Seðlabankans til að taka á sveiflum í hagkerfinu eftir hrun. „Í staðinn fyrir að nota bara vexti, eins og áður var lenskan, eru komin mörg stjórntæki með hægt er að beita til þess að ná þessum markmiðum; að halda verðbólgu í skefjum og hafa fjármálastöðugleikann í lagi. Og það hefur gengið vel“ og með þessum aðferðum hefur verið hægt að bregðast við þeirri dýfu sem orðið hefur í hagkerfinu.
Spurður hvað muni gerast ef vextir taka að hækka, í heiminum öllum og hér á landi svarar Gylfi að líta megi á þann halla á ríkissjóði sem nú hefur orðið vegna örvunaraðgerða sem fjárfestingu til framtíðar þar sem lífi var haldið í fyrirtækjum í ferðaþjónustu. „Svo ef túrisminn byrjar í sumar þá verður miklu öflugri viðsnúningur vegna þess að fyrirtækin eru náttúrlega til.“
Hann segir skuldahlutfall ríkissjóðs sé lágt í alþjóðlegum samanburði og ekki að nálgast nein hættumörk.
„Það sem tókst síðustu tólf mánuði með þessum aðgerðum var að verja restina af hagkerfinu, 90 prósent hagkerfið, fyrir því að hrun ferðaþjónustu hefði smitandi áhrif inn í allt annað. En það er erfitt að útrýma atvinnuleysi í ferðaþjónustu því hún mun ekki fara í gang fyrr en ferðamennirnir fara að koma. En um leið og heimurinn verður eðlilegur mun það atvinnuleysi hverfa og það þarf engar ríkisfjármálaaðgerðir til þess. Svo við verðum bara að bíða eftir að þetta tíu prósent hagkerfi lifni við aftur í sumar og haust.“
Gylfi bendir á ferðaþjónustan hafi verið „orðin löskuð“ fyrir COVID-faraldurinn og atvinnuleysi þar tekið að aukast. Hlutdeild launa í heildartekjum hafði ekki verið hærri í fleiri ár. Hann skýrir þetta með hinni snöggu og miklu aukningu sem varð í fjölda ferðamanna hingað til lands. Hún hafði í för með sér hækkun á gengi krónunnar á sama tíma og laun í krónum voru að hækka innanlands svo að kostnaður í evrum „var að verða óþolandi fyrir þessar greinar,“ segir hann. „Þetta sýnir manni að það þarf að passa upp á allt kerfið. Þessi grein gerir sjálfri sér engan greiða með því að fjölga ferðamönnum svona hratt og svona mikið. Þetta var svona sjálfsmark hjá þeim.“
Þess vegna þarf í ferðaþjónustu, alveg eins og í sjávarútvegi, að koma á kerfi svo nýting auðlinda, í þessu tilviki íslensk náttúra, verði hagkvæm. Slíkt hafi verið reynt fyrir nokkrum árum þegar fyrirhugað var að setja gjöld á ferðamenn. Hægt væri að setja á lendingargjöld, gistináttagjöld og fleira í þá veru „til að koma í veg fyrir það sem gerðist hjá okkur í sjávarútvegi áður en kvótakerfið kom, þegar einn bátur skemmdi fyrir hinum. En þetta hefur ekki tekist og ég held að það hafi ekki tekist vegna þess að sérhagsmunir, misskildir sérhagsmunir, hafa barist á móti því að aðgangsstjórnun sé tekin upp í þessari grein eins og í sjávarútvegi.“ Þar sem að var ekki gert varð fjölgun ferðamanna alltof snögg með ýmsum afleiðingum fyrir greinina og hún komin „í þröng fyrir COVID.“