Tékkinn Jaroslav Hasék (1883–1923) skrifaði uppáhaldsbók mína, Góða dátann Svejk. Karl Ísfeld þýddi snilldarlega. Í bókinni ræðst Hasék gegn stórum og djúpum siðferðilegum spurningum þegar kemur að stríði með hnífbeittan húmor og náttúrulega frásagnargáfu að vopni. Hann lést, aðeins fertugur að aldri, áður en hann náði að klára öll bindi sögunnar; fjórum af sex var lokið. En útgáfa þess efnis sem hann hafði lokið hefur fengið heilu kynslóðirnar til þess að veltast um af hlátri og hugsa til hörmunga stríðstímans í Evrópu, ekki síst Austur-Evrópu. Frásagnargáfa Haséks var mögnuð og afköstin á stuttum ferli með ólíkindum. Hann skrifaði ríflega 1.200 smásögur, margar hverjar fullur við barborð á öldurhúsum í Prag.
Hugsað til Svejk
Að undanförnu hefur mér verið hugsað til þessarar bókar. Einkum upphafs hennar, þegar Svejk er að láta raka sig. Þá fær hann upplýsingar um það þegar erkihertoginn Franz Ferdinand var drepinn í Sarajevo hinn 28. júní 1914. Í kjölfarið hefst sagan óborganlega af Svejk, dátanum seinheppna. Hann gengur í herdeild Austurrísk-ungverska keisaradæmisins og hefur síðan göngu sína í gegnum hörmungar fyrri heimsstyrjaldarinnar.
Á mánudaginn fékk ég stutt skilaboð í símann minn frá fréttaþjónustu Wall Street Journal, þar sem sagði orðrétt: Tugþúsundir rússneskra hermanna eru við landamæri Úkraínu. Raðir skriðdreka sömuleiðis. Spennan magnast.
Í Úkraínu, alveg eins og Sarajevo á sumarmánuðum 1914, er uppi ógnvænleg staða. Landið er, að því er virðist, að liðast í sundur innan frá. Þannig var staðan einnig þegar bílaröð Franz Ferdinands og fylgisveina hans varð fyrir skotárásinni í heimsókninni til Oskars Potiorek hershöfðingja sem hafði boðið erkihertoganum að vera viðstaddur hersýningu. Innanmein, efnahagslegir erfiðleikar, sundurlyndi og sífellt vaxandi samfélags ólga breytti samfélagsgerðinni í púðurtunnu sem sprakk.
Getur svipað gerst núna? Geta stríðsátök brotist út í Austur-Evrópu þar sem Rússar eru helsta ógnin við nágrannaríkið Úkraínu? Er hættan á þessu ofmetin?
Spurningarnar eru komnar fram
Þessar spurningar eru farnar að sjást víða í fjölmiðlaumræðu á erlendum vettvangi og ýmsir stjórnmálamenn virðast telja að Vladimír Pútín, forseti Rússlands, sé hættulegur og veruleikafirrtur. Angela Merkel sagði það berum orðum og Carl Bildt sagði að Pútín myndi ekki linna látum fyrr en hann væri búinn að ná algjörum yfirtökum í Kíev, höfuðborg Úkraínu.
Enginn getur sagt til um það með vissu hvort stríð getur brotist út en spor sögunnar hræða. Ólíkt því sem var þegar morðið á Franz Ferdinand ýtti fyrri heimsstyrjöldinni af stað, þó að slíkt sé vitaskuld einföldun á flóknari atburðarás, er sterkt friðarhvetjandi fyrirkomulag fyrir hendi sem birtist í alþjóðapólítískum stofnunum. Þar eru Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið áberandi, en einnig vettvangur þar sem helstu iðnríki heimsins eiga með sér samstarf á pólitískum forsendum. Stundum þarf að minna á það hversu stutt er síðan þessi stóru og miklu framfaraskref voru stigin með stofnun Sameinuðu þjóðanna árið 1945 og Kola- og stálbandalags Evrópu árið 1952, sem síðar varð vísir að Evrópusambandinu. Veigamesta ástæðan fyrir stofnun SÞ og ESB var viðleitni til þess að koma í veg fyrir stríð. Það hefur ekki alltaf tekist en það eru meiri líkur á að svo verði á meðan þessar mikilvægu stofnanir eru virkur vettvangur um hvernig skuli taka á vandamálum eins og því sem nú blasir við í Úkraínu.
Saga hörmunga stríðsátaka í Austur-Evrópu, sem Hasék hjálpar kynslóðunum að gleyma ekki í gegnum dátann Svejk, er víti til að varast. Það er huggun harmi gegn að búa við alþjóðapólitíska samvinnu þegar samfélagslegar púðurtunnur verða til, en alveg eins og þegar Franz Ferdinand var skotinn geta hlutirnir breyst leiftursnöggt til hins verra.