Meðalfermetraverð leiguíbúða á stúdentagörðum nam 2.545 krónum í september og var hærra en á nokkrum öðrum leigumarkaði hérlendis á sama tíma. Þetta kemur fram í nýlegri leigumarkaðskönnun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS).
Greint var frá niðurstöðum könnunarinnar í frétt á vef HMS, en samkvæmt þeim greiða leigjendur sem eru búsettir í stúdentagörðum 17 prósent meiri leigu fyrir hvern fermetra heldur en þeir sem leigja af einstaklingi á almennum leigumarkaði. Verðmunurinn er 18 prósent ef leigt er af einkareknu leigufélagi, en 37 prósent ef leigt er af óhagnaðardrifnu leigufélagi.
Þeir sem leigja af ættingjum og vinum greiða svo 38 prósent minna fyrir fermetrann heldur en leigjendur á stúdentagörðum, á meðan þeir sem leigja af sveitarfélagi greiða rúmlega helmingi minna.
Borga þó lægstu leiguna
Þrátt fyrir hátt fermetraverð greiða leigjendur á stúdentagörðum lægstu upphæðina í leigu, sökum þess hversu litlar íbúðir þeirra eru. Meðalstærð íbúða á stúdentagörðunum er 48 fermetrar, á meðan stærð íbúða á öðrum leigumörkuðum er vanalega í kringum 80 fermetra.
Heildarupphæðin er mest hjá þeim sem leigja hjá einkareknu leigufélagi, en þeir greiddu að meðaltali tæpar 200 þúsund krónur í leigu í september. Leigjendur á almennum leigumarkaði greiddu aftur á móti að meðaltali 178 þúsund krónur í leigu og þeir sem leigðu hjá óhagnaðardrifnum leigufélögum eða hjá ættingjum og vinum gátu vænst þess að greiða um 140 þúsund krónur í leigu. Leigjendur á stúdentagörðunum greiddu hins vegar að meðaltali 122 þúsund krónur í leigu í september.