Fimm létust í Würenlingen í Sviss í gær þegar 36 ára gamall Svisslendingur skaut foreldra sína, bróður, nágranna þeirra og loks sjálfan sig. Lögreglan þekkti til byssumannsins sem var giftur og átti þrjú börn. Hann skaut fólkið, og sjálfan sig, með skammbyssu. Þetta kom fram á blaðamannafundi með lögreglunni í kantónunni Aargau, en Würenlingen tilheyrir henni, fyrir skemmstu. Ástæða morðanna er talin vera fjölskylduerjur.
Kjarninn greindi frá skotárásinni í morgun.
Um 4.500 manns búa í litla bænum Würenlingen, sem er skammt frá Zurich. Maðurinn skaut fyrst foreldra sína, sem voru 57 og 58 ára gamlir, og síðan 32 ára gamlan bróður sinn á heimili þeirra. Hann skaut síðan 46 ára gamlan nágranna þeirra áður en hann tók eigin líf.
Hverfið þar sem morðin voru framin þykir fjölskylduvænt hverfi. Nágranni, sem svissneska dagblaðið Blick ræddi við, sagðist hafa heyrt fjórum skotum hleypt af á mjög skömmum tíma, og svo tveimur í viðbót stutt seinna. Vitnið sagðist ekki hafa heyrt nein öskur frá fórnarlömbunum samkvæmt Blick.
http://www.news.com.au/video/id-FrMjMwdToUott8CHWIleapeionH-wtvM/Several-people-killed-in-Swiss-shooting
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem skotárás er framin í Würenlingen . Árið 1985 skaut Alfredo Lardelli eiginmann fyrrum elskuhuga síns og tvær vændiskonur. Sá verknaður átti sér stað um 100 metrum frá voðaverkum gærdagsins. Lardelli hlaut 20 ára fangelsisdóm. Eftir að honum var sleppt úr fangelsi hefur hann starfað við fjölmiðla.