Fimm prósent aðspurðra telja að forystumenn ríkisstjórnarinnar, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson, séu í tengslum við almenning. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR, sem spurði fólk um ýmsa persónueiginleika stjórnmálaleiðtoga.
Flestir aðspurðra töldu að Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, væri í tengslum við almenning, eða 34 prósent. 32 prósent telja Birgittu Jónsdóttur, kaftein Pírata, í tengslum við almenning og 29 prósent telja borgarstjórann Dag B. Eggertsson vera í tengslum. 25 prósent telja forsetann Ólaf Ragnar Grímsson vera í tengslum við almenning í landinu. Tuttugu prósent segja Guðmund Steingrímsson, formann Bjartrar framtíðar, tengjast almenningi og 11 prósent Árna Pál Árnason, formann Samfylkingarinnar. Bjarni og Sigmundur reka lestina.
MMR spurði 1060 einstaklinga 18 ára og eldri dagana 30. mars til 8. apríl síðastliðinn. Hafa ber í huga við kannanir af þessari stærð að vikmörk geta verið allt að 3,1 prósent, sem þýðir að raunverulegt fylgi er líklega á bilinu 3,1 hærra eða lægra en könnunin gefur til kynna.
Einn af hverjum tíu telja forystumenn ríkisstjórnar heiðarlega
Aðeins 9 prósent aðspurðra telja Sigmund Davíð vera heiðarlegan, og 10 prósent telja Bjarna heiðarlegan. Þá segja 8 prósent að Bjarni standi vörð um hagsmuni almennings, og 11 prósent telja að Sigmundur Davíð geri það. Fimm prósent telja að Sigmundur virði skoðanir annarra og 8 prósent telja að það geri Bjarni.
Helmingur aðspurðra sagði að Sigmundur Davíð væri ekki gæddur neinum þeim persónueiginleikum sem spurt var um. 40 prósent sögðu það sama um Bjarna.
Einum af hverjum fimm þykir Bjarni Benediktsson vera gæddur persónutöfrum, en 5 prósent segja það sama um Sigmund Davíð. Sigmundur mælist hærri en Bjarni þegar kemur að því hvort fólk telji þá standa við eigin sannfæringu - 21 prósent telja það gilda um Sigmund og 19 prósent um Bjarna.
18 prósent telja Bjarna vera sterkan og 11 prósent Sigmund. Þá telja 13 prósent að Bjarni sé fæddur leiðtogi en fimm prósent telja að forsætisráðherrann sé fæddur leiðtogi. 27 prósent sögðu Bjarna vera ákveðinn, 15 prósent telja hann vinna vel undir álagi og 16 prósent segja hann skila árangri. Rétt rúmlega fimmtungur (22%) segja Sigmund vera ákveðinn, átta prósent að hann vinni vel undir álagi og 15 prósent telja hann skila árangri.
Katrín og Ólafur Ragnar alltaf á toppnum
Flestir telja sem fyrr segir að Katrín Jakobsdóttir sé í tengslum við almenning. Hún er líka efst á blaði þegar spurt er um heiðarleika, en tæplega helmingur (47%) telja hana heiðarlega og standa við eigin sannfæringu (48%). 36 prósent segja hana gædda persónutöfrum, 42 prósent segja hana ákveðna og 31 prósent telja að hún virði skoðanir annarra. Þá telur rúmur þriðjungur (35%) að hún standi vörð um hagsmuni almennings. Í öllum þessum flokkum er hún efst á blaði. Í öðrum flokkum var hún í öðru sæti, en í þeim flokkum var það Ólafur Ragnar Grímsson sem var á toppnum.
23 prósent telja að Ólafur Ragnar skili árangri í störfum sínum og sama hlutfall segir hann vinna vel undir álagi. 30 prósentum þykir hann vera fæddur leiðtogi og 33 prósent segja hann sterkan.
Dagur kemur mun betur út en Árni Páll
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og samfylkingarmaður er nú mældur í fyrsta sinn. Hann kemur mun betur út úr þessum mælingum en formaður flokksins, Árni Páll Árnason. Þriðjungur aðspurðra (34%) telja Dag gæddan persónutöfrum en 17 prósent segja það sama um Árna Pál. 22 prósent telja Dag heiðarlegan en 16 prósent Árna. 28 prósent telja Dag standa við sannfæringu sína en 19 prósent Árna Pál. Fimmtungur (21%) telur Dag vera sterkan en í þeirri mælingu rekur Árni Páll lestina af öllum, með 9 prósent.
29 prósent telja Dag vera í tengslum við almenning á meðan ellefu prósent segja það sama um Árna Pál. Dagur er fæddur leiðtogi að mati 14 prósenta aðspurðra á meðan aðeins þrjú prósent segja það sama um Árna Pál. Tæplega 20 prósent (18%) segja borgarstjórann vinna vel undir álagi og vera ákveðinn á meðan sömu eiginleikar hjá formanninum mælast í 9 og 13 prósentum.
Hér að neðan má sjá niðurstöður könnunar MMR - en hún er einnig í fréttatilkynningu fyrirtækisins sem sjá má hér.