Reykjavíkurborg vinnur nú að leiðbeiningum um birtuskilyrði til að bæta samræmi milli rýmis og birtu á uppbyggingarsvæðum borgarinnar. Skilgreind eru viðmið og leiðir til útfærslu dvalarsvæða sem eiga þátt í að móta umgjörð daglegs lífs með nákvæmari hætti en áður. Tilgangurinn er að auðvelda uppbyggingaraðilum að gæta að gæðum bæði íbúða sem og rýmisins milli húsanna.
Fjallað er um málið í Torginu, fréttabréfi Skipulagsstofnunar. Þar segir að tilgangur verkefnisins rími vel við markmið Aðalskipulags Reykjavíkur um að stuðla að vellíðan íbúa, efla virkni og félagslegt samneyti íbúa og virkja og styrkja grænar tengingar borgarinnar.
Ásta Logadóttir, verkfræðingur, og Anna María Bogadóttir, arkitekt, hafa unnið að leiðbeiningunum. Leiðarljósið er að draga fram skýra mynd af kröfum um skuggavarp og lágmark birtu á dvalarsvæðum. Þannig á hinn almenni borgari að hafa betri tilfinningu fyrir því hvernig rýmið milli húsa verður og hönnuðir hvar er heppilegast að hafa leiksvæði fyrir börn og svalir á byggingum, svo eitthvað sé nefnt.
Ásta sagði í samtali við RÚV í maí að hún hefði áhyggjur af byggingarmagni á svokölluðum Heklureit en þar á að reisa allt að 463 íbúðir. Húsin yrðu hæst sjö hæðir. Þröngar götur yrðu á milli sumra háhýsanna.
„Ég er alveg með áhyggjur af byggingamagninu. Og við erum að sjá að það er að þéttast og hækka. Þannig að þetta er eitthvað sem við þurfum að taka alvarlega og við þurfum að finna okkur aðferðir til þess að passa upp á gæðin í umhverfinu okkar,“ sagði Ásta við RÚV. Doktorsverkefni hennar fjallaði um lýsingu og hefur hún veitt ráðgjöf í þeim efnum.
Byggt til langrar framtíðar
Borghildur Sturludóttir, deildarstjóri deiliskipulags hjá Reykjavíkurborg, hefur haft umsjón með birtuverkefninu sem nú er í vinnslu. „Við þurfum að finna jafnvægið eða gæðin saman, sem ríki og borg og sem borgarar og uppbyggingaraðilar,“ segir hún í Torginu. „Jafnvægi í birtu og rými á milli húsa svo eitthvað sé nefnt. Því við erum að byggja til 100 ára, mögulega lengur og því þurfum við að vanda til verka. Annað væri óábyrgt gagnvart umhverfinu, borginni okkar og komandi kynslóðum.“