Carly Fiorina tilkynnti fyrr í dag að hún hygðist sækjast eftir útnefningu Repúblikanaflokksins til forseta. Fiorina tilkynnti framboðið í þættinum Good Morning America í morgun. „Ég held að ég sé besta manneskjan í starfið vegna þess að ég skil hvernig hagkerfið raunverulega virkar. Ég skil heiminn, hverjir eru í honum, hvernig heimurinn virkar.“
Fiorina er fyrrverandi forstjóri Hewlett-Packard og varð fyrsta konan til að stýra einu af tuttugu stærstu fyrirtækjum Bandaríkjanna. Hún starfaði sem ráðgjafi John McCain í forsetaframboði hans árið 2008 og var frambjóðandi Repúblikanaflokksins í Kaliforníu til öldungadeildar þingsins árið 2010 en tapaði fyrir Barböru Boxer.
Hún hefur meðal annars komist í fréttir nýlega fyrir það að kenna umhverfisverndarsinnum um mikla þurrka í Kaliforníu-ríki. „Kalifornía er klassískt dæmi um að frjálslyndir eru tilbúnir að fórna lífum og lifibrauði annarra manneskja á altari þeirra eigin hugmyndafræði. Þetta er harmleikur.“
Þá tilkynnti fyrrverandi skurðlæknirinn Ben Carson einnig um framboð sitt til að verða frambjóðandi repúblikana í forsetakosningunum. Carson, líkt og Fiorina, hefur aldrei setið í pólitísku embætti, en er mjög vinsæll meðal sumra íhaldsmanna í Bandaríkjunum. Hann tilkynnti um framboð sitt á fundi í heimaborg sinni Detroit með orðunum „Ég er Ben Carson og ég er forsetaframbjóðandi“. Hann var þó búinn að segja sjónvarpsstöð í Flórída í gærkvöldi að hann hygðist bjóða sig fram. Carson fór um víðan völl og talaði um allt frá efnahagsástandi Bandaríkjanna til vantrúar sinnar á þróunarkenninguna.
Carson hefur áður vakið athygli fyrir ummæli sín um samkynhneigð. Í fyrra líkti hann hinsegin fólki við barna- og dýraníðinga, en hann baðst afsökunar á því. Í mars á þessu ári sagði hann svo við CNN að samkynhneigð væri val, vegna þess að margir fangar færu inn í fangelsi gagnkynhneigðir en kæmu út samkynhneigðir. Hann baðst líka afsökunar á þessu, en notaði tækifærið og áréttaði að hann væri á móti hjónaböndum samkynhneigðra.
Þá sagði hann í byrjun þessa árs að Bandaríkjamenn gætu lært af liðsmönnum Íslamska ríkisins, sem væru mjög viljugir til þess að deyja fyrir málstað sinn. Þeir hefðu vondan málstað, en þeir tryðu á það sem þeir gerðu, ólíkt Bandaríkjamönnum sem væru að gefa frá sér alla sannfæringu og trú vegna pólitísks rétttrúnaðar.