Greiningaraðilar spá því að Englandsbanki muni hækka stýrivexti sína um 0,25 prósentustig á fimmtudaginn, þar sem verðbólgan þar í landi hefur reynst þrálát . Sömuleiðis er búist við vaxtahækkunum í Bandaríkjunum á þessu ári, en þessar væntingar hafa nú þegar skapað óróa á hlutabréfamarkaði.
Minna tillit tekið til fyrirtækja
The Guardian greindi frá vaxtahækkunarspám greiningaraðila í Bretlandi í morgun, en verðbólgan þar í landi nam 5,4 prósentum í síðasta mánuði. Englandsbanki hefur varað við því að verðhækkanirnar verði enn meiri á næstu mánuðum og að verðbólgan gæti náð hámarki í um sex prósentum í apríl.
Sérfræðingar hjá EY og Goldman Sachs telja að peningastefnunefnd Englandsbanka muni mæta þessum verðhækkunum með vaxtahækkunum á næstu fundum sínum. Einn þeirra bjóst við að stýrivextirnir verða nálægt 1,25 prósentum þar í landi í lok árs.
Þrátt fyrir að vaxtahækkanirnar geti aukið á vandamál fyrirtækjanna sem hafa orðið illa úti í faraldrinum telja greiningaraðilarnir að peningastefnunefnd Englandsbanka muni taka minna tillit til þeirra á næstunni, þar sem efnahagsleg áhrif kórónuveirunnar hafa minnkað.
Gustar um markaði
Fjárfestar vestanhafs búast einnig við að Seðlabanki Bandaríkjanna muni hækka vexti á næstu mánuðum, en verðbólgan þar í landi náði sjö prósentum í síðasta mánuði og hefur ekki verið hærri í 39 ár. Líkt og Financial Times greinir frá hafa væntingarnar um vaxtahækkanir nú þegar haft áhrif á verðbréfamarkaði þar í landi, þar sem fjármögnunarkostnaður fyrirtækja hefur hækkað.
Gustað hefur um bandaríska hlutabréfamarkaði á síðustu vikum, en S&P 500 hlutabréfavísitalan er nú átta prósentum lægri en hún var fyrir mánuði síðan. Samkvæmt Financial Times er virði hlutabréfa hjá tæknifyrirtækjum sem fóru í hlutafjárútboð í fyrra nú að meðaltali þriðjungi minna en útboðsverð þeirra.
Þrátt fyrir þessar vendingar er ekki búist við að Seðlabanki Bandaríkjanna hverfi frá áformum um vaxtahækkanir, en markaðsaðilar gera nú ráð fyrir allt að fimm vaxtahækkunum vestanhafs á árinu.
Olíusjóðurinn segir fjárfestum að halda
Hlutabréfamarkaðurinn í Noregi hefur einnig verið á niðurleið síðustu vikurnar, en Nicolai Tangen, forstjóri norska olíusjóðsins, varaði við stormasömum tímum á verðbréfamörkuðum með verðsveiflum og verðlækkunum í viðtali við norska miðilinn E24. Sömuleiðis er búist við vaxtahækkunum þar í landi, en Seðlabanki Noregs hefur varað við 0,25 prósenta hækkun í mars.
Tangen sagði að norski hlutabréfamarkaðurinn hafi fengið marga nýja einkafjárfesta til sín á síðustu misserum. „Margir þeirra hafa ekki upplifað stórar niðursveiflur í markaðnum og geta verið óöruggir um hvað þeir ættu að gera þegar það gustar um kauphallirnar,“ bætti hann við.
Trond Grande, aðstoðarforstjóri olíusjóðsins, sagði að meginráðið til þessara fjárfesta væri að halda kyrru fyrir ef þeir geta það, þar sem verðið gæti sveiflast upp aftur.
Olíusjóðurinn á hlutabréf í þúsundir fyrirtækja um allan heim, sér í lagi í Bandaríkjunum og í Evrópu. Samkvæmt Tangen gætu verðhækkanir sem hafa átt sér stað á þessum mörkuðum á síðustu árum gengið til baka ef verðbólgan heldur áfram að aukast og seðlabankar bregðast við með vaxtahækkunum. „Þá er það lítið sem sjóðurinn getur gert,“ segir hann.