Tekjur tæknirisans Apple á síðasta ársfjórðungi 2014, slógu öll met. Fyrirtækið rakaði saman rúmum átján milljörðum bandaríkjadölum í hagnað á tímabilinu, af tæplega 75 milljarða dala tekjum Apple. Hagnaðurinn var sá mesti sem nokkurt fyrirtæki hefur skilað í sögunni. Eins og kunnugt er er sala í jólamánuðinum inn í uppgjöri fyrir fjórða ársfjórðung, en vörur Apple seldust ævnitýralega í desember.
Tekjur Apple á fjórða ársfjórðungi voru hærri en tekjur Google yfir allt árið 2014, og meira en það því tekjur Apple síðustu þrjá mánuði ársins voru meiri en Amazon, Google og Microsoft öfluðu á heilu ári.
Þrátt fyrir þessa frábæru frammistöðu Apple, telja margir fjárfestar og greiningaraðilar að tæknirisinn sé í raun í ákveðnum vanda. Fréttamiðillinn Business Insider greinir frá málinu.
Flestir eru á þeirri skoðun að Apple hafi staðið sig of vel á fjórða ársfjórðungi og fyrirtækið muni aldrei toppa niðurstöðu ársfjórðungsins. Enda þegar öllu er á botninn hvolft þá eru tekjur upp á tæpa 75 milljarða bandaríkjadali mikill peningur, og ljóst að það verður erfitt fyrir Apple að bæta þá niðurstöðu á næsta ári.
Því skal þó ekki gleyma að Apple hefur ítrekað farið fram úr væntingum efasemdamanna, enda tæknirisinn verðmætasta fyrirtæki heims.
Þá má færa rök fyrir því að Apple sé verðlagt sé of lágt, að minnsta kosti miðað við Google. Sér í lagi þar sem vöxtur Apple er hraðari en Google, sölutölur Apple hækkuðu um 30 prósent á síðasta ársfjórðungi á meðan tekjur Google jukust aðeins um 15 prósent á tímabilinu.