Kaldbakur, fjárfestingafélag sem heldur utan um eignir útgerðarfélagsins Samherja, hefur keypt Landsbankahúsið á Akureyri, sem bankinn auglýsti til sölu fyrir um mánuði síðan. Frá þessu er sagt í tilkynningu á vef Samherja, en þar kemur fram að Kaldbakur hafi átt hæsta boð í húsið – eða 685 milljónir króna.
Í tilkynningu á vef Samherja er haft eftir Eiríki S. Jóhannssyni framkvæmdastjóra Kaldbaks, sem einnig er stjórnarformaður Samherja, að Kaldbakur vilji leggja sitt af mörkum til að varðveita Landsbankahúsið, sem tekið var í notkun árið 1954, og glæða það frekara lífi í framtíðinni. Húsið er um 2.400 fermetrar og voru fyrstu tillöguuppdrættir að byggingunni gerðar af Guðjóni Samúelssyni, fyrrverandi húsameistara ríkisins, en að honum látnum tók Bárður Ísleifsson við verkinu og kláraði hönnun hússins.
„Við erum vel meðvituð um upphaflega tillöguuppdrætti Guðjóns Samúelssonar sem sýna húsið bæði hærra og stærra. Við munum skoða þessi mál í framhaldinu, þannig að nýting hússins verði sem best og sómi þess og bæjarprýði verði sem mest. Okkar sannfæring er að Akureyri komi til með að vaxa og dafna á komandi árum sem miðstöð búsetu, menningar og atvinnulífs á Norðurlandi og sem helsta þéttbýli utan höfuðborgarsvæðisins. Kaupin á Landsbankahúsinu veitir Kaldbaki kærkomið tækifæri til að taka þátt í uppbyggingu miðbæjarins og styrkja þannig mikilvægt hlutverk Akureyrar. Þess vegna er um að ræða góða fjárfestingu sem er jú megin ástæða þessara kaupa,“ er haft eftir Eiríki í tilkynningunni á vef Samherja.
Þar er einnig haft eftir Lilju Björk Einarsdóttur bankastjóra Landsbankans að húsið sé mikil bæjarprýði og hafi reynst bankanum vel, en að talsvert sé síðan að það var orðið of stórt fyrir starfsemi bankans í Akureyrarbæ.
„Okkur líst því vel á áform nýrra eigenda um að glæða húsið nýju lífi og möguleikarnir eru svo sannarlega til staðar,“ er haft eftir Lilju Björk í tilkynningunni. Starfsemi bankans verður áfram í húsinu um tíma, en Landsbankinn er svo byrjaður að líta í kringum sig eftir nýju framtíðarhúsnæði á Akureyri.
Kristján Vilhelmsson á bak við kaup Landsbankahússins á Selfossi
Ekki er langt um liðið frá því að annað hús sem áður var í eigu Landsbankans var selt til aðila með tengsl við norðlenska útgerðarfélagið, en árið 2020 var húseign bankans við Austurveg á Selfossi auglýst til sölu.
Kaupandinn var Sigtún þróunarfélag, sem einnig hefur staðið á bak við uppbyggingu nýs miðbæjar á Selfossi. Annar tveggja stærstu eigenda þess félags er Kristján Vilhelmsson, einn af tveimur fyrrverandi aðaleigendum Samherja.