Tilraun til að kúga fé af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra er ein ótrúlegasta frétt sem komið hefur fram í Íslandssögunni. Hún minnir mun fremur á bíómynd eftir Coen-bræður en nokkurn tímann íslenskan veruleika. Forsætisráðherrann brást hárrétt við með að tilkynna verknaðinn samstundis til lögreglu sem handtók gerendurna. Þeir játuðu í kjölfarið.
Fjölmiðlar skýrðu frá því í gær að upplýsingarnar sem áttu að nota til að reyna að kúga forsætisráðherra snérust um meint fjárhagsleg tengsl hans við fjölmiðlaeigandann Björn Inga Hrafnsson og að þær tengist með einhverjum hætti kaupum Björn Inga á DV haustið 2014. Björn Ingi sagði í stöðuuppfærslu á Facebook í gær að Sigmundur Davíð ætti ekki hlut í DV. Sigmundur Davíð sendi síðan frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagðist ekki vera í fjárhagslegum tengslum við Björn Inga.
Eftir standa samt sem áður tvær ósvaraðar spurningar. Í fyrsta lagi, hvert var tæmandi innihald þeirrar hótunar sem sett var fram í kúgunarbréfinu og í öðru lagi, hverjir fjármögnuðu kaup Björns Inga á DV í fyrrahaust? Á meðan að þessum spurningum er ósvarað verður þessu einkennilega, og um margt sorglega, máli ekki lokið.