Gert er ráð fyrir 15,3 milljarða króna afgangi í fjárlögum næsta árs. Tollar verða afnumdir á fatnaði og skóm um næstu áramót, tekjuskattur verður lækkaður, gert er ráð fyrir 2,6 milljarða króna framlagi til húsnæðismála og framlög til heilbrigðismála, menntamála og almannatrygginga.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í kynningu fjármálaráðuneytisins á fjárlögum fyrir árið 2016. Áætlað er að útgjöld ríkisins á árinu 2016 verði 681 milljarður króna, samanborið við 659 milljarða í ár miðað við áætlun stjórnvalda. Búist er við að tekjur aukist og verði 693,3 milljarðar króna samanborið við 680,1 milljarðar í ár.
Tekjuskattur lækkar um áramót
Lækka á tekjuskatt einstaklingar í tveimur áföngum. Seinna skrefið fækkar skattþrepum úr þremur í tvö. Skattprósentan í lægra þrepi verður lækkuð úr 22,86 prósent í 22,68 prósent, eða um 0,18 prósentur, þann 1. janúar næstkomandi. Í ársbyrjun 2017 verður þrepið lækkað í 22,5 prósent. Álag í milliþrepi verður lækkað um helming frá ársbyrjun 2016 og munu falla saman við neðsta þrepið um áramótin 2016/2017.
Gert er ráð fyrir 3 prósent hækkun bótafjárhæða í fjárlagafrumvarpi næsta árs auk þess sem gert er ráð fyrir 9,4 prósenta hækkun á bótum elli- og örorkulífeyrisþega.
Skuldastaðan batnar
Stefnt er að áframhaldandi lækkun skulda og á skuldahlutfallið, sem hlutfall af landsframleiðslu, að vera 62 prósent um næstu áramót og 50 prósent í lok árs 2016. Þetta hlutfall fór hæst í 85 prósent í lok árs 2011. Vaxtagjöld ríkissjóðs eiga að lækka um 8,1 milljarð á næsta ári miðað við fjárlög. Þar munar estu um uppgreiðslu skuldabréfs vegna endurfjármögnunar Seðlabanka Íslands eftir fjármálahrunið.
„Ennfremur er ljóst að áætlun um losun fjármagnshafta gefur möguleika á að lækka skuldir og skuldbindingar ríkissjóðs umtalsvert á næstu misserum. Áætlun um losun hafta hefur þegar stuðlað að bættu lánshæfismati ríkissjóðs og þar með betri vaxtakjörum á fjármálamörkuðum,“ segir í kynningu ráðuneytisins.
Engar aðhaldsaðgerðir
Tekið er fram að engar aðhaldsráðstafanir séu gerðar vegna almanna- og atvinnuleysistrygginga, menntamála og heilbrigðisstofnana. Framlög til heilbrigðismála aukast um 1,6 milljarða og stutt verður við nýsköpun umg vísindi með auknum framlögum upp á tvo milljarða króna. Þá er tekið fram að sérstök framlög verði veitt til að stofna embætti héraðssaksóknara, sem miðar að því að skjóta styrkari stoðum undir ákæruvald í landinu og auka málshraða.
Kynning á vef fjármálaráðuneytisins.