Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands tekur almennt ekki til skoðunar hvort blaðamenn sem fjalla um skráð félög eigi eignarhluti í sömu félögum nema tilefni sér til. Slíkt tilefni gæti til dæmis verið vegna þess að umfjöllun í fjölmiðlum væri með einhverjum hætti röng eða misvísandi.
Þetta kemur fram í svari Fjármálaeftirlitsins við fyrirspurn Kjarnans um hvort það skoði með einhverjum hætti það að blaðamenn fjalli um félög sem þeir eigi hlutabréf í án þess að það sé tilgreint opinberlega.
Eftirlitið tekur einnig fram að það tjáir sig ekki um hvort ákveðin mál hafi verið tekin til skoðunar eða ekki.
Viðskiptaritstjóri á í 13 félögum
Kjarninn greindi frá því á mánudag að Hörður Ægisson, ritstjóri Markaðarins á Fréttablaðinu, var skráður hluthafi í 13 félögum í Kauphöllinni í lok síðasta árs. Þar af á hann fimm milljóna króna hlut í Arion banka og eins milljóna króna hlut í Marel.
Það sem af er ári hefur Hörður skrifað að minnsta kosti 19 fréttir um Arion banka og eina frétt um Marel.
]Þar að auki hefur hann tekið viðtal við við sérfræðing hjá Arion banka í sjónvarpsþætti Markaðarins, sem sýndur er á Hringbraut, og skrifað fjölda annarra frétta um hin félögin sem hann á hlutabréf í.
Á hluthafalistum skráðra félaga í Kauphöllinni má einnig finna blaðamenn á öðrum fjölmiðlum en Kjarninn fann engin tilvik um að þeir sem ættu meira en milljón krónur í hlutabréf hefðu flutt fréttir af félögum sem þeir áttu aðild að.
Í fimmtu grein siðareglna Blaðamannafélagsins stendur: „Blaðamaður varast að lenda í hagsmunaágreiningi, til dæmis með því að flytja fréttir eða frásagnir af fyrirtækjum eða hagsmunasamtökum þar sem hann á sjálfur aðild.“
Í svari við fyrirspurn Kjarnans sagði Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður félagsins, þessa reglu eiga við um hlutabréfaeign blaðamanna og að engu máli skipti hversu stóran hlut þeir ættu.
Segist hafa fylgt gildandi siðareglur í hvívetna
Í svari við fyrirspurn Kjarnans sagði Hörður að hlutabréfaeign sín væri óveruleg og að ekkert í siðareglum Fréttablaðsins kveði á um að starfsmönnum bæri að upplýsa um slíka eign.
Aðspurður hvort hann hafi þurft að meta hæfi sitt til að fjalla um félögin sem hann er hluthafi að vegna fjárhagslegra hagsmuna sagði hann: „Ég, ásamt samstarfsfélögum mínum á Markaðinum, metum reglulega hæfi okkar til að fjalla um margvísleg fréttamál hverju sinni, rétt eins og væntanlega er gert á ritstjórnum allra fjölmiðla.“
Í stöðuuppfærslu sem Hörður birti á Facebook í gær eftir að fréttaskýring Kjarnans birtist sagði hann tilgang frétta Kjarnans vera að gera hann tortryggilegan. Hann sagðist í hvívetna hafa fylgt öllu þeim gildandi siðareglum sem séu um hagsmunaárekstra í starfi blaðamanna og sagðist undrast þá túlkun formanns Blaðamannafélags Íslands á siðareglum félagsins, þar sem segir að blaðamaður skuli varast að lenda í hagsmunaágreiningi, til dæmis með því að flytja fréttir af fyrirtækjum sem hann eigi sjálfur aðild, að engu máli skipti hversu stóran hlut þeir eigi. Hann skrifaði að standi vilji einhverra til þess að endurskoða siðareglur Blaðamannafélagsins, meðal annars hvort blaðamönnum verði gert að halda úti hagsmunaskráningu líkt og á við um kjörna fulltrúa í þeim tilgangi að auka gegnsæi, sé það „sjálfsagt mál“ sem kalli þá á meiri og almennari umræðu innan Blaðamannafélagsins.