„Hvort á ég að taka af þér peninginn úr buxnavasanum hægra megin eða vinstra megin? Þetta eru kostirnir sem hæstvirtur fjármálaráðherra stillir upp líkt og um sé að ræða sérstaka sparnaðaraðgerð fyrir almenning. Ég er að sjálfsögðu að tala um það fjármálalestarslys sem hangir ennþá yfir okkur tæplega 20 árum eftir að Framsóknarflokkurinn breytti Íbúðalánasjóði (ÍLS) í spilavíti.“
Þetta sagði Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag undir liðnum störfum þingsins, þegar hann ræddi þá stöðu sem upp er komin vegna ÍL-sjóðs, sem fyrir liggur að muni að óbreyttu tapa 200 milljörðum króna.
Tapið er tilkomið vegna skuldabréfaflokka sem gefnir voru út af Íbúðalánasjóði árið 2004 en voru ekki uppgreiðanlegir. Lántakendur flúðu síðar sjóðinn og nú eru útlán einungis um 20 prósent af eignum hans. Ávöxtun eigna stendur því ekki undir skuldum og sjóðurinn verður tómur löngu áður en síðustu skuldabréfin, sem eru með gjalddaga 2044, eiga að koma til greiðslu.
Hvort á höggið að koma á ríkissjóð eða lífeyrissjóði?
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, tilkynnti á blaðamannafundi fyrir helgi að reynt verði að ná samkomulagi við eigendur skuldabréfa sem ÍL-sjóður gaf út um að þeir gefi eftir hluta eigna sinna.
Það tap þyrftu þá aðrir að axla. Þessir aðrir eru að uppistöðu sami hópur og sá sem á að verja, almenningur í landinu. Lífeyrissjóðir landsins áttu íbúðabréf útgefin af Íbúðalánasjóði fyrir 643 milljarða króna í ágúst síðastliðnum. Það var um 75 prósent af öllum slíkum bréfum um mitt þetta ár.
Jóhann Páll sagði í ræðu sinni í dag að heiðarlegast hefði verið af Bjarna að spyrja landsmenn á blaðamannafundinum: „Hvort viljið þið krakkar mínir taka á ykkur höggið í gegnum ríkissjóð eða í gegnum lífeyrissjóðina ykkar?“
„Hvaða merkingu hefur ríkisábyrgð héðan í frá“
Talsmenn lífeyrissjóða landsins hafa gagnrýnt þá leið sem ráðherrann boðar harðlega og meðal annars kallað hana tilraun til að ganga í sparnað almennings. Már Wolfgang Mixa, lektor í fjármálum við HÍ og stjórnarmaður í Almenna lífeyrissjóðunum, sagði í Kastljósi í gær að það að slíta ÍL-sjóði jafngildi greiðslufalli ríkissjóðs og að það gæti haft neikvæð áhrif á lánshæfi ríkissjóðs. Bjarni hefur mótmælt þessari gagnrýni og í hádegisfréttum Bylgjunnar líkti hann henni við þá orðræðu sem var uppi þegar verið að var að gera upp gömlu bankana, og ríkið átti í erjum við að mestu erlenda kröfuhafa.
Þegar umrædd skuldabréf voru gefin út árið 2004 var skýrt í útgáfulýsingu þeirra að þau nutu ríkisábyrgðar. Fyrir vikið fengu útgáfurnar sömu lánshæfiseinkunn og íslenska ríkið hafði á þessum tíma, AAA hjá Moody´s. Það er hæsta einkunn sem hægt er að fá hjá því lánshæfismatsfyrirtæki.
Jóhann Páll sagði stóru spurninguna í málinu einfalda. „Hvaða merkingu hefur ríkisábyrgð héðan í frá ef löggjafinn telur sig þess umkominn að gjörbreyta leikreglunum eftir á? Og hvaða afleiðingar hefur það að umgangast ríkistryggð skuldabréf og þá skilmála sem liggja þeim til grundvallar með þessum hætti? Hvað þýðir þetta fyrir lánshæfi ríkissjóðs til lengri tíma? Hvað þýðir þetta fyrir samvinnuverkefnin sem ráðist verður í hér á næstu árum og samstarf ríkissjóðs við stofnanafjárfesta? Þetta eru stóru spurningarnar sem við þurfum að ræða hér í þingsal á næstu dögum.“