Stefán Pétursson, sem stýrt hefur fjármálasviði Arion banka frá árinu 2010, hefur látið af störfum. Stefán tók tímabundið við starfi bankastjóra Arion banka árið 2019 eftir að Höskuldur Ólafsson lét af störfum.
Í tilkynningu til Kauphallar Íslands kemur fram að Ólafur Hrafn Höskuldsson taki við starfi hans. Ólafur er sonur Höskuldar, fyrrverandi bankastjóra Arion banka, en hann hefur stýrt stýrt stefnumótun og þróun á skrifstofu bankastjóra frá árinu 2019.
Stefán mun láta af störfum á næstu dögum en mun áfram sinna ráðgjafarverkefnum fyrir Arion banka. Í tilkynningunni þakkar Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, Stefáni fyrir gott samstarf og segir Ólaf, eftirmann hans, þekkja bankann, stefnu hans og markmið afar vel.
Mikill hagnaður
Arion banki hagnaðist um 13,9 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2021. Virði hlutabréfa í bankanum hefur nær þrefaldast frá því í fyrravor.
Arion banki hefur þá yfirlýstu stefnu að greiða sem mest af umfram eigin fé sínu út til hluthafa. Á fyrri hluta yfirstandandi árs greiddi bankinn næstum 18 milljarða króna til hluthafa sinna í formi arðs eða endurkaupa á bréfum þeirra.
Stefnan er að greiða út yfir 50 milljarða króna til viðbótar á allra næstu árum með sama hætti.
Stór hluti þeirra upphæðar mun fara til lífeyrissjóða, sem eiga nálægt helmingshlut í bankanum. En fjölmargir einkafjárfestar munu einnig fá háar fjárhæðir í sinn hlut, til viðbótar við hækkunina sem orðið hefur á virði hlutabréfa bankans.