Mynd: Anton Brink

Af hverju græða íslensku bankarnir svona mikið af peningum?

Samanlagður hagnaður þeirra þriggja banka sem voru endurreistir eftir bankahrunið frá byrjun og til dagsins í dag er tæplega 706 milljarðar króna. Fyrstu árin var mikið um einskiptishagnað, vegna sölu fyrirtækja eftir endurskipulagningu eða vegna þess að lán sem höfðu verið dæmd verðlaus reyndust verðmætari en lagt var upp með. Á síðustu árum hefur þetta breyst. Undirliggjandi starfsemi stendur undir hagnaðinum. Og hann stefnir í að verða svakalegur í ár.

Í fyrrasumar birti Seðlabanki Íslands nýja útgáfu af Fjármálastöðugleikariti sínu. Um var að ræða fyrsta slíka ritið sem kom út frá þvi að kórónuveirufaraldurinn skall á. Í því birtist sviðsmyndagreining á áhrifum faraldursins á stöðu kerfislega mikilvægu bankana þriggja: Landsbankans, Íslandsbanka og Arion banka. 

Í jákvæðustu sviðsmyndinni var gert ráð fyrir því að áhrifin á hagnað bankanna yrðu þau að hann yrði í kringum núllið frá miðju ári 2020 og fram á mitt ár 2021. Svo myndi hagnaðurinn fara að aukast, þegar liði á árið 2021. Vert er að taka fram að þarna voru ekki komin fram nein bóluefni við kórónuveirunni, sem breyttu ekki einvörðungu hinum heilbrigðislega veruleika heldur einnig þeim efnahagslega.

Í miðsviðmyndinni var gert ráð fyrir að bankarnir myndu skila taprekstri í fyrra og í ár, einkum vegna virðisrýrnunar útlána upp á 140 milljarða króna. Hagnaður átti svo að fara að myndast á árinu 2022 þegar virðisrýrnun hefði færst í eðlilegt horf og hreinar vaxtatekjur gætu vaxið á ný með batnandi gæðum lánasafns og auknum útlánavexti.

Í þriðju, og svörtustu, sviðsmyndinni var gert ráð fyrir að bankarnir þrír yrðu reknir í umtalsverðu tapi fram á mitt ár 2022 og að virði útlána þeirra myndi rýrna um 210 milljarða króna.

Auglýsing

Þegar þessi spá var sett fram lá fyrir að bankarnir þrír hefðu tapað samtals 7,2 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins 2020, sem var neikvæður viðsnúningur upp á 17,6 milljarða króna frá árinu áður. Stjórnvöld og Seðlabanki Íslands höfðu gripið til ýmissa aðgerða til að efla viðnámsþrótt bankanna vegna ástandsins. Þar má nefna ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að lækka bankaskatt, sem skilaði ríkissjóði á milli sjö til átta milljörðum krónum minna í tekjur í fyrra, og ákvörðun Seðlabankans um að afnema sveiflujöfnunarauka, sem losaði verulega um það fé sem bankarnir þurftu að halda á. Þá voru stýrivextir lækkaðir úr 4,5 prósent niður undir eitt prósent á rúmu ári, sem átti að skila sér í betri kjörum fyrir viðskiptavini bankanna, jafnt heimila sem fyrirtækja. 

Nú, rúmu ári síðar, hafa bankarnir birt uppgjör sín fyrir árið 2020 og fyrri hluta ársins 2021. Og þau sýna allt annan veruleika en þann sem Seðlabankinn spáði.

Stóraukinn hagnaður í heimsfaraldri

Í fyrra reyndust bankarnir fljótir að snúa við erfiðri stöðu og á endanum var sameiginlegur hagnaður þeirra 29,8 milljarðar króna á árinu öllu. Sá hagnaður varð til á síðari hluta þess árs, þegar samanlagður hagnaður bankanna var um 30 milljarðar króna. Það er meiri hagnaður á hálfu ári en þeir skiluðu allt árið 2019, þegar kórónuveiran var ekki komin til sögunnar á Íslandi. 

Á fyrstu sex mánuðum ársins 2021 hagnaðist Landsbankinn um 14,1 milljarð króna, Arion banki hagnaðist um 13,9 milljarða króna og Íslandsbanki um níu milljarða króna. Samanlagður hagnaður þeirra var því um 37 milljarðar króna. Það er meiri hagnaður en bankarnir þrír skiluðu samtals allt árið í fyrra. Það er líka meiri hagnaður en bankarnir skiluðu allt árið 2019. Og 2018. 

Aðgerðir Seðlabanka Íslands í heimsfaraldrinum hafa gert bönkum kleift að stórauka útlánagetu sína, sem hefur aðallega skilað mikilli aukningu í lána til húsnæðiskaupa. Ásgeir Jónsson er seðlabankastjóri.
Mynd: Bára Huld Beck

Það þarf að fara aftur til ársins 2017 til að finna heilt ár þar sem bankarnir græddu meira en þeir gerðu á sex mánuðum í ár, en þá var sameiginlegur hagnaður þeirra rúmlega 47 milljarðar króna. Borðleggjandi er að hagnaður yfirstandandi árs mun verða meiri, og að það muni líklega gerast strax við uppgjör á þriðja ársfjórðungi. Ef bankarnir þrír hagnast saman jafn mikið á seinni hluta árs og þeir gerðu á fyrri hlutanum mun hagnaður ársins 2021 verða 74 milljarðar króna. Hagnaður bankanna á fyrstu tólf árunum eftir að þeir voru búnir til var að meðaltali tæplega 55,8 milljarðar króna á ári, og eru þá talin með öll árin þar sem einskiptishagnaður, vegna betri heimta af lánum fyrirtækja eftir bankahrunið sem búið var að færa mikið niður í virði og sölu eigna sem bankarnir sátu uppi með vegna þess, spiluðu stóra rullu í uppgjöri banka.

Því gæti hagnaðurinn í ár orðið þriðjungi meiri en meðaltalshagnaður síðustu ára. 

Aðgerðir stjórnvalda skipta miklu

Af hverju er þessi skekkja? Við blasir að hana má rekja til þess að virðisrýrnun útlána til ferðaþjónustufyrirtækja hefur verið miklu minni í bókum bankanna en reiknað var með, hvað svo sem síðar verður. 

Stjórnvöld hafa kynnt margvíslega aðgerðarpakka til að mæta efnahagslegum áhrifum kórónuveirufaraldursins. Flestar aðgerðirnar hafa aðallega nýst ferðaþjónustufyrirtækjum.
Mynd: Bára Huld Beck

Þar skiptir máli að stjórnvöld hafa dælt peningum inn í geirann til að halda honum við í gegnum kórónuveirufaraldurinn í þeirri von að hann muni leiða efnahagslega endurreisn hagkerfisins. Í nýlega birtri skýrslu sem Rannsóknarmiðstöð ferðamála gerði kom fram að ferðaþjónustusfyrirtæki hafi fengið úthlutað 65 prósent af þeim stuðningi sem ætlaður var rekstraraðilum, utan sjálfkrafa frestunar á skattgreiðslum, úr ríkissjóði á árinu 2020. Í sömu skýrslu sagði að heildarumfang þeirra fjármuna sem fór í aðgerðir ætlaðar rekstraraðilum hafi verið 35 milljarðar króna frá mars til desember 2020, og 22,7 milljarðar króna af þeim fóru þar af leiðandi til ferðaþjónustufyrirtækja. 

Heimilin hafa fundið viljann til að skuldsetja sig á ný

Þar skiptir líka máli að bankarnir hafa stóraukið húsnæðislán sín, með því að bjóða upp á betri kjör. Þar er nær allur vöxtur í útlánum þeirra frá því að kórónuveirufaraldurinn hófst. Það hafa bankarnir gert án þess að vaxtamunur þeirra – munurinn á þeim vöxtum sem bankarnir greiða fólki og fyrirtækjum fyrir innlán sem þau geyma hjá þeim og vöxtunum sem þeir leggja á útlán – hefur haldist svipaður og hann var. 

Auglýsing

Vaxtamunur bankanna þriggja var á bilinu 2,4-2,7 prósent á fyrri helmingi yfirstandandi árs, sem er mjög svipað og hann var á árinu 2020, þegar hann var 2,7 prósent að meðaltali. Til samanburðar þá var vaxtamunur norræna banka sem eru svipaðir að stærð og þeir íslensku 1,68 prósent í fyrra. Hjá stórum norrænum bönkum er hann undir einu prósenti, samkvæmt því sem fram kemur í ársriti Samtaka fjármálafyrirtækja.

Vaxtatekjur meginuppistaðan í tekjum banka

Vaxtamunurinn myndar hreinar vaxtatekjur. Í dag borgar Landsbankinn t.d. 0,05 prósent vexti fyrir þá sem geyma peningana sína á óbundnum óverðtryggðum veltureikningum, eins og launareikningum þorra þjóðarinnar. Ef fólk er tilbúið að binda sparnaðinn sinn í t.d. tvö ár er hægt að fá allt að 1,6 prósent ávöxtun. 

Vilja auka arðsemi eigin fjár og vera dæmdir af henni

Bankar halda á miklu magni af eigin fé. Það magn sem þeir þurfa að halda á, til að geta til dæmis tekist á við áföll og virðisrýrnun lána, var aukið verulega eftir bankahrunið til að koma í veg fyrir að sama staða kæmi upp á ný. Eigið fé viðskiptabankanna þriggja var samanlagt 651,5 milljarðar króna í lok júní síðastliðins.

Sá mælikvarði sem stjórnendur banka nota til að mæla árangur sinn er ekki endilega hversu mikill hagnaður er í krónum talið, heldur hver hlutfallsleg arðsemi þessa eigin fjár er.

Stjórnir viðskiptabanka á Íslandi gera kröfu um að arðsemi eigin fjár sé að minnsta kosti tíu prósent. Sögulega þá náði hún að vera sameiginlega rúmlega ellefu prósent að meðaltali hjá bönkunum þremur á árunum 2009 til 2018, en þar vigtar inn í að einskiptistekjur vegna t.d. sölu eigna voru umtalsverðar á fyrri hluta þess tímabils. Sem dæmi um slíkar tekjur má nefna það þegar Arion banki seldi 18,8 prósent hlut sinn í HB Granda á árinu 2014 þá nam hagnaður af aflagðri starfsemi það árið 6,8 milljörðum króna. Auk þess var restin af eignarhlut bankans í fyrirtækinu flutt undir verðbréfaeign og virðisbreyting á eignarhlutnum vegna þessa nam 6,5 milljörðum króna. Þessir tveir óreglulegu liðir útskýrðu næstum helminginn af hagnaði Arion banka það árið.

Síðustu ár hefur arðsemi eigin fjár dalað umtalsvert og verið undir markmiðum. Þ.e. þangað til á síðustu ársfjórðungum þegar hún hefur rokið upp á ný. Á öðrum ársfjórðungi 2021, þriggja mánaða tímabili frá byrjun apríl og til loka júní, var arðsemi eigin fjár Arion banka 16,3 prósent. Hjá Íslandsbanka var hún 11,6 prósent og hjá Landsbankanum 10,8 prósent.

Það eru fleiri leiðir til að auka arðsemi eigin fjár en bara að græða meiri peninga með vaxta- eða þóknanatekjum. Ein skilvirkasta leiðin er að minnka einfaldlega eigið féð með því að greiða það eigið fé sem þeir halda á umfram kröfur eftirlitsaðila út til hluthafa. Bæði Arion banki og Íslandsbanki hafa það sem yfirlýst markmið að gera það, í gegnum arðgreiðslur og endurkaup á bréfum. Minna eigið fé þýðir að hlutfallsleg arðsemi eiginfjár í annars óbreyttum rekstri eykst.

Önnur leið er að spara í kostnaði. Þar snýst allt um að ná niður hinu svokallaða kostnaðarhlutfalli, sem mælir hvað kostnaðurinn er stórt hlutfall af tekjum. Yfirlýst markmið íslensku bankanna er að ná því hlutfalli niður fyrir 45-50 prósent og þeir eru að ná þeim markmiðum.

Einfaldasta leiðin til að ná þessu er að fækka einfaldlega starfsfólki. Bankarnir eiga líka auðvelt með að réttlæta það í ljósi þess að launakostnaður þeirra var um mitt ár í fyrra um 1,2 prósent af heildareignum bankakerfisins á meðal að meðaltalið hjá öðrum bönkum á Norðurlöndum var 0,4 til 0,5 prósent. Heildarkostnaður íslensku bankanna var á sama tíma um 2,2 prósent af heildareignum en 0,7 til 0,9 prósent að meðaltali á hinum Norðurlöndunum.

Bankarnir hafa því allir verið að fækka starfsfólki jafnt og þétt á undanförnum árum og sú þróun hélt áfram á fyrri hluta árs, þegar þeim sem unnu í viðskiptabönkunum þremur fækkaði um rúmlega 80. Enn starfa þó 2.187 manns hjá bönkunum þremur. Það nemur rúmlega einu prósenti af öllum þeim sem eru starfandi á íslenskum vinnumarkaði.

Á sama tíma lánar sami banki út óverðtryggð húsnæðislán á 3,45 prósent breytilegum vöxtum. Samandregið þá borgar bankinn lægri upphæð fyrir að fá peninga á láni og rukkar álag fyrir að taka þá peninga og endurlána á hærri vöxtum. Það álag stendur undir rekstrarkostnaði bankans og myndar stærstan hluta hagnaðar hans, en almennt hafa um 70 prósent tekna kerfislega mikilvægu bankanna á Íslandi verið hreinar vaxtatekjur. 

Vert er að taka fram að bankar fjármagna sig líka með skuldabréfaútgáfu sem fagfjárfestar kaupa, ekki einungis með innlánum almennings, lífeyrissjóða og fyrirtækja. 

Mikil aukning í þóknanatekjum

Hinn stóri pósturinn í tekjumódeli banka eru þóknanatekjur, stundum líka kallaðar þjónustutekjur. Þar er um að ræða þóknanir fyrir t.d. eignastýringu og fyrirtækjaráðgjöf. Þessar tekjur hafa vaxið gríðarlega það sem af er ári. Í tilfelli Landsbankans hafa þær vaxið um 40 prósent það sem af er ári miðað við sama tímabil í fyrra. Hjá Arion banka og Íslandsbanka jukust þær um tæp 19 prósent. 

Í ljósi þess að íslensku bankarnir starfa nánast einvörðungu í íslensku hagkerfi þá verður að álykta að stór hluti viðskiptavina þeirra séu stærstu fagfjárfestarnir innan þess, íslenskir lífeyrissjóðir. Þeir eiga þorra verðbréfa – hlutabréfa og skuldabréfa – sem sýslað er með hérlendis og þurfa að koma á milli 80 til 90 milljörðum króna af iðgjöldum sem almenningur greiðir inn í þá árlega umfram útgreiðslur í vinnu fyrir sig. Lífeyrissjóðir eru því nær örugglega að greiða umtalsverðan hluta af áðurnefndum þóknanatekjum. 

Auglýsing

Ástæða þess að þessi tekjupóstur hefur vaxið svona hratt á undanförnu ári má líka rekja til þess að peningar hafa orðið ódýrari með vaxtalækkunum og því að neikvæðir raunvextir á innlánsreikningum hafa þrýst sparnaði fólks frekar í áhættusamari ávöxtun á borð við hlutabréfakaup. Úrvalsvísitala íslensku kauphallarinnar, sem mælir gengi bréfa þeirra tíu skráðu félaga sem eru með mestan seljanleika, hefur enda rúmlega tvöfaldast frá því í fyrravor. Virði bréfa í Arion banka hefur á sama tíma næstum þrefaldast í verði. Frá því að Íslandsbanki var skráður á markað í sumar hefur hlutabréfaverð í honum hækkað um 45 prósent. 

Hvert fer hagnaðurinn?

Það er eðlilegt að velta fyrir sér hvað kerfislega mikilvægu viðskiptabankarnir þrír gera við þennan hagnað. Í tilfelli Landsbankans, sem er nánast að öllu leyti í ríkiseigu, þá skilar hagnaðurinn sér aftur til ríkissjóðs í formi hækkandi eignarvirðis, arðgreiðslna eða eftir atvikum endurkaupum á hlutabréfum. 

Arion banki, eini bankinn af stóru bönkunum þremur sem er ekki að neinu leyti í eigu ríkisins, hefur þá yfirlýstu stefnu að greiða sem mest af umfram eigin fé sínu út til hluthafa. Á fyrri hluta yfirstandandi árs greiddi bankinn næstum 18 milljarða króna til hluthafa sinna í formi arðs eða endurkaupa á bréfum þeirra. Stefnan er að greiða út yfir 50 milljarða króna til viðbótar á allra næstu árum með sama hætti. Stór hluti þeirra upphæðar mun fara til lífeyrissjóða, sem eiga nálægt helmingshlut í bankanum. En fjölmargir einkafjárfestar munu einnig fá háar fjárhæðir í sinn hlut, til viðbótar við hækkunina sem orðið hefur á virði hlutabréfa bankans. 

Íslandsbanki, sem er nú í 65 prósent eigu ríkisins eftir að 35 prósent hlutur var seldur í sumar, á útgreiðanlegt umfram eigið fé upp á rúmlega 30 milljarða króna. Yfirlýst markmið bankans er svo að greiða út 50 prósent af hagnaði hvers árs í formi hefðbundinna arðgreiðslna. Þá ætlar hann auk þess að nýta umfram eigið fé bankans til frekari arðgreiðslna eða kaupa á eigin bréfum. 

Þær greiðslur fara að óbreyttu að mestu til íslenskra ríkisins og íslenskra lífeyrissjóða, sem eru saman stærstu eigendur bankans fyrir utan hið opinbera. Í eigendahópnum eru þó einnig nokkrir erlendir fagfjárfestar, íslenskir einkafjárfestar og nokkur þúsund einstaklingar sem keyptu í bankanum fyrir lægri fjárhæðir í útboðinu í sumar.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar