Áframhaldandi tilfærsla á peningum úr ríkissjóði til þeirra sem hafa það best

Auglýsing

Stjórn­ar­lið­ar, lobbí­istar og klapp­stýrur þeirra í fjöl­miðlum kepp­ast við að selja nýaf­staðið hluta­fjár­út­boð Íslands­banka sem mikla sig­ur­för. Það er rök­stutt með ýmsum hætti. Verðið hafi verið í efri mörk­um, nýi hlut­hafa­hóp­ur­inn sé breiður og að tek­ist hafi að laða erlenda fjár­festa að íslenskum hluta­bréf­um. 

For­sæt­is­ráð­herra lét meira að segja í það skína í við­tali við RÚV að áhugi á útboð­inu sjálfu hafi hækkað verð­mið­ann á Íslands­banka. Hún taldi „að­gerð­ina vera vel heppn­aða“.

Það velk­ist lík­ast til eng­inn í vafa um það lengur að hluta­bréf í Íslands­banka voru seld á und­ir­verði. Það að níföld eft­ir­spurn hafi verið eftir bréf­unum í stærsta frumút­boði Íslands­sög­unnar gaf það strax til kynna. En auð­veld­ara hefði ein­fald­lega verið að lesa upp­gjör bank­ans og bera hann saman við eina skráða kerf­is­lega mik­il­væga bank­ann sem var fyrir á mark­aði, Arion banka. 

Báðir eru byggðir á bruna­rústum fyr­ir­renn­ara sinna sem féllu í banka­hrun­inu. Báðir hafa verið „þrifn­ir“ af vand­ræða­eign­um, með miklum sam­fé­lags­legum kostn­aði. Báðir starfa nær ein­vörð­ungu á Íslandi og þjón­usta nær ein­vörð­ungu íslensk fyr­ir­tæki og báðir njóta þeirrar sér­stöðu að vera einu við­skipta­bankar í heimi sem eru skráðir á markað en not­ast við íslenska krónu sem gjald­mið­il. 

Svip­aðir bankar, afar ólíkt verð

Það er hægt að fara dýpra í þennan sam­an­burð.

Arion banki setti sér það mark­mið sum­arið 2019, eftir skrán­ingu á mark­að, að ná arð­semi eig­in­fjár yfir tíu pró­sent og að rekstr­ar­kostn­aður yrði undir 50 pró­sent af rekstr­ar­tekj­um. Bank­inn náði arð­sem­is­mark­mið­inu á síð­asta árs­fjórð­ungi í fyrra og kostn­að­ar­hlut­fallið er komið undir 50 pró­sent, meðal ann­ars vegna umfangs­mik­illa upp­sagna á fólki. Arion banki greiddi út 14,8 millj­arða króna út til hlut­hafa í arð­greiðslur og í end­ur­kaup á bréfum á fyrstu þremur mán­uðum árs­ins 2021. Í lok mars var umfram eigið fé bank­ans enn 41 millj­arðar króna og yfir­lýstur vilji er til staðar að tappa því af til hlut­hafa sem allra fyrst. 

Eignir Arion banka voru metnar á 1.181 millj­arð króna í lok fyrsta árs­fjórð­ungs og eigið fé bank­ans var 189,5 millj­arðar króna. Mark­aðsvirði Arion banka er nú 244 millj­arðar króna. Það þýðir að fyrir hverja krónu af eigin fé eru fjár­festar til­búnir að borga 1,29 krón­ur.

Auglýsing
Íslandsbanki hefur sett sér það mark­mið að ná átta til tíu pró­sent arð­semi á eigið fé fyrir lok næsta árs og að til lengri tíma verði arð­semin yfir tíu pró­sent. Fyrra mark­miðið er nán­ast í höfn, arð­semin var 7,7 pró­sent á fyrsta árs­fjórð­ung­i. 

Þá stefnir Íslands­banki að því að lækka kostn­að­ar­hlut­fall sitt niður í 45 pró­sent áður en árið 2023 gengur í garð. Það verður vænt­an­lega aðal­lega gert með fækkun starfs­fólks. Yfir­lýst mark­mið bank­ans er svo að greiða út 50 pró­sent af hagn­aði hvers árs í formi hefð­bund­inna arð­greiðslna. Þá ætlar hann auk þess að nýta umfram eigið fé bank­ans til frek­ari arð­greiðslna eða kaupa á eigin bréf­um. Umfram eigið fé Íslands­banka var 58 millj­arðar króna í lok sept­em­ber síð­ast­lið­ins. Útgreið­an­legt umfram eigið fé var metið á rúm­lega 30 millj­arða króna af grein­endum í aðdrag­anda útboðs. 

Íslands­banki er stærri banki en Arion banki, eignir hans í lok mars voru 1.385 millj­arðar króna og heildar eigið fé var nán­ast það sama, eða 185 millj­arðar króna. Mark­aðsvirði Íslands­banka við skrán­ingu var 158 millj­arðar króna. Það þýddi að þeir sem tóku þátt í útboð­inu voru að greiða 0,85 krónur fyrir hverja krónu af eigin fé. 

Sem­sagt: 35 pró­sent hlutur í Íslands­banka, sem er að uppi­stöðu nán­ast eins og Arion banki nema aðeins stærri, var seldur á verði sem er 34 pró­sent undir mark­aðsvirði Arion banka. Engar vit­rænar skýr­ingar hafa verið gefnar á þessu. Ein­hverjir hafa bent á að víða um hinn vest­ræna heim sé ekki óeðli­legt að félög séu skráð á markað á verði sem er lík­legt til að hækka jafn­vel um ein­hver pró­sent skömmu eftir skrán­ingu. Afslátt­ur­inn er til að auka áhug­ann. En þar er að uppi­stöðu um að ræða félög sem eru að sækja sér fé til vaxt­ar, ekki nýþrif­inn rík­is­banka sem er ekki að fara að stækka neitt að óbreyttu, né í fyr­ir­sjá­an­legri fram­tíð. Það er því bein­línis hlægi­legt að bera skrán­ingu þjón­ustu­fyr­ir­tækis á Íslandi saman við til dæmis skrán­ingu hug­vits­fyr­ir­tækis í Banda­ríkj­un­um. Og eig­in­lega ekki hægt að draga aðra ályktun en að slíkt sé sett fram í ein­hverri til­raun til afvega­leið­ing­ar. 

Fáið ykkur 250 þús­und krónur

Þegar þetta lá ljóst fyr­ir, að hlutur í bank­anum yrði seldur á miklu und­ir­verði, gátu flestir reiknað sig niður á að það væri hægt að taka út skjót­feng­inn gróða með þátt­töku. Þeim skjót­fengna gróða var meðal ann­ars beint gegn ein­stak­lingum sem áttu sparnað þar sem það skil­yrði var sett að þeir sem keyptu fyrir milljón eða undir myndu ekki skerð­ast. Fyrir vikið keyptu alls um 24 þús­und aðilar í bank­an­um, að uppi­stöðu ein­stak­lingar sem keyptu fyrir lágar fjár­hæð­ir. Þarna er um að ræða um 6,5 pró­sent þjóð­ar­innar eða 12 pró­sent þeirra sem eru á vinnu­mark­að­i. 

Sá sem keypti fyrir milljón krónur gat selt þann hlut með 250 þús­und króna hagn­aði viku síð­ar. Miðað við fjölda við­skipta fyrstu tvo dag­anna eftir skrán­ingu Íslands­banka á markað þá seldu margir úr þessum hópi strax. Þeir keyptu eign af rík­inu, héldu á henni í viku, og tóku svo út 20-25 pró­sent ávöxt­un. 

Fyrir þessa upp­still­ingu greiddi rík­is­sjóður og rík­is­bank­inn nokkrum erlendum fjár­fest­inga­bönk­um, íslenskum bönkum og fjár­mála­sjoppum rúma tvo millj­arða króna í þókn­an­ir. 

Til­færsla á fjár­munum til þeirra sem betur hafa það

Leiða verður líkur að því að þarna sé um fólk sem á sparnað eða umfram eignir að ræða. Þ.e. sem er annað hvort með tekjur sem skilja eftir afgang þegar búið er að greiða fram­færslu og húsa­skjól í hverjum mán­uði eða á eign­ir. Þegar tölur um hlut­falls­dreif­ingu eigna eru skoð­aðar þá kemur í ljós að þau 20 pró­sent lands­manna sem eru með hæstu tekj­urnar eiga 67 pró­sent inn­lána. Sú tíund lands­manna sem er tekju­hæst á svo 86 pró­sent allra verð­bréfa í eigu ein­stak­linga. Það þarf ekki að vera með dokt­ors­gráðu í hag­fræði til að sjá að þessi hópur er lang­lík­leg­astur til að hafa myndað uppi­stöð­una í kaup­enda­hópnum sem keypti í Íslands­banka. Sá hluti sem við bætt­ist er senni­leg­ast úr því mengi sem fór efna­hags­lega vel út úr kór­ónu­veiru­far­aldr­in­um, meðal ann­ars vegna aðgerða stjórn­valda sem juku kaup­mátt þeirra. Og er lík­leg­astur til að hafa fengið 21 millj­arð króna skatta­af­slátt á und­an­förnum árum fyrir að nota sér­eign til að borga niður hús­næð­is­lánið sitt. 

Þetta er líka fólkið sem fékk mest úr rík­is­sjóði síð­ast þegar ákveðið var að gefa vel stæðu fólki pen­inga úr honum undir hatti „Leið­rétt­ing­ar­inn­ar“. Í þeirri aðgerð fóru 30 pró­sent þeirra 72,2 millj­arða króna sem greiddir voru til hóps sem hafði verið með verð­tryggð lán á árunum 2008 og 2009 til tekju­hæstu tíundar lands­manna, alls 21,6 millj­arð króna. Til sam­an­burðar fékk tekju­lægri helm­ingur þjóð­ar­innar 14 pró­sent heild­ar­upp­hæð­ar­inn­ar. 

Auglýsing
Hér getur ekki verið um til­vilj­anir að ræða. Stjórn­völd á Íslandi virð­ast hafa þá skýru efna­hags­stefnu að færa reglu­lega pen­inga úr rík­is­sjóði til þeirra sem hafa það best. Fyrst það er ekki hægt í gegnum flatt skatt­kerfi, sem eng­inn meiri­hluti er fyrir á þingi eða í sam­fé­lag­inu, er það gert með reglu­legum pen­inga­gjöf­um. 

Í könnun sem Gallup gerði fyrr á árinu fyrir ASÍ kom fram að kjós­endur eins flokks, Sjálf­stæð­is­flokks, væru fylgj­andi sölu Íslands­banka á þessu ári. Kjós­endur allra ann­arra flokka voru að meiri­hluta á móti henni. Um 56 pró­sent lands­manna voru á móti henni og 23 pró­sent þeirra fylgj­andi. Það kemur kannski ekki á óvart að Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn er lang­vin­sæl­asti stjórn­mála­flokkur lands­ins hjá tekju­hæstu ein­stak­ling­unum á Íslandi. Heilt yfir mælist þessi flokk­ur, sem kom sölu á Íslands­banka inn í stjórn­ar­sátt­mála og hefur allan veg og vanda að sölu hans, með stuðn­ing 23,5 pró­sent þjóð­ar­innar í síð­ustu könnun Gallup á fylgi flokka. 

Útlend­ingar sem fóru inn og út

Mikið var látið með það að erlendir fjár­festar hafi keypt um ell­efu pró­sent af heild­ar­hlutafé Íslands­banka. Fyrir utan tvo sjóði, sem gerð­ust svo­kall­aðir horn­steins­fjár­fest­ar, þá þurftu þessir erlendu aðilar ekki að binda sig til neins tíma. 

Í ljósi þess að þarna er um fjár­fest­ing­ar­sjóði sem hafa það eina mark­mið að græða mikið af pen­ingum þá ætti það ekki að koma neinum á óvart að þeir hafi hoppað á að kaupa í banka á útsölu­verði. Við­skipta­blaðið greindi svo frá því í gær að nokkrir stórir erlendir sjóðir sem tóku þátt í útboð­inu hafi þegar selt megnið af bréfum sínum í Íslands­banka og leyst út 20-25 pró­sent hagnað sinn. Þeir voru því í eig­enda­hópnum í viku. Til mála­mynda skulum við gefa okkur að þessir sjóðir hafi keypt fyrir einn millj­arð króna og selt með 250 milljón króna hagn­aði. Þá hefur tek­ist að auka útflæði úr íslensku efna­hags­kerfi um þá upp­hæð á einni viku. Án sýni­lega vit­rænnar ástæð­u. 

Í frétt Við­skipta­blaðs­ins kom einnig fram að íslenskir líf­eyr­is­sjóðir hafi verið áber­andi á kaup­hlið­inni fyrstu dag­anna eftir að bréfin voru tekin til við­skipta. Flestir þeirra voru skertir veru­lega í útboð­inu, fengu að kaupa minna á tombólu­verði en þeir vildu. Það þýðir að almenn­ing­ur, eig­andi líf­eyr­is­sjóð­anna, hefur verið að kaupa bréf sem voru fyrir rúmri viku síðan í eigu almenn­ings í gegnum rík­is­sjóð aftur af erlendum fjár­fest­ing­ar­sjóðum og vel stæðu fólki á Íslandi með 20-25 pró­sent álag­i. 

Frétta­blaðið greindi svo frá því að sjóðir í stýr­ingu hjá Íslands­sjóð­um, sjóðs­stýr­ing­ar­fyr­ir­tæki Íslands­banka, hafi verið skertir miklu minna en sam­keppn­is­að­ilar þeirra. Á meðal þeirra sem fjár­festa í sjóðum Íslands­sjóða eru helstu einka­bankakúnnar Íslands­banka. Þeir, ásamt öðrum hlut­deild­ar­skír­tein­is­höf­um, fengu því óbeint að græða mun meira en aðrir í sam­bæri­legri stöðu. Og Íslands­sjóð­irnir sem keyptu bréfin í Íslands­banka munu skila ægi­lega fínum ávöxt­un­ar­tölum eftir árið. 

En útboðið heppn­að­ist vel segja stjórn­völd. 

Af hverju þarf að selja hlut í rík­is­banka?

Við allt þetta vaknar enn og aftur upp spurn­ingin um af hverju það þurfti að selja hlut í rík­is­banka? Rökin um að það sé svo mikil áhætta fyrir ríkið að eiga í banka halda auð­vitað ekki, enda liggur fyrir að það er óform­leg rík­is­á­byrgð á öllum þessum bönkum sem gera upp í íslenskum krón­um. Hrunið sýndi það svart á hvít­u. 

Í ljósi þess að það tók ein­ungis fimm ár frá fullri einka­væð­ingu rík­is­banka síð­ast, ferli sem hófst að mörgu leyti á svip­aðan hátt og það sem nú stendur yfir, þangað til að þeir féllu yfir þjóð­ina, má færa sterk rök fyrir því að meiri áhætta sé fólgin í að einka­væða banka en að gera það ekki. Einka­væð­ingin hvetur til frek­ari áhættu­sækni vegna þess að kaup­rétt­irnir og bónus­arnir sem starfs­menn og stjórn­endur fá eru bundnir við frek­ari gróða

Búið er að hrekja full­kom­lega þá fjar­stæðu­kenndu skýr­ingu að það þurfi að selja til að eiga fyrir COVID-19 reikn­ingn­um. Vextir á skuldum rík­is­sjóðs hafa verið að lækka hratt og mjög senni­legt er að arð­greiðslur sem ríkið verður af við að selja banka og greiða upp skuldir séu hærri en sá vaxta­kostn­aður sem spar­ast. Það er ekki skortur á fjár­magns­eig­endum sem vilja lána Íslandi á skap­legum kjör­um. Það sást vel í jan­úar þegar ríkið sótti sér 117 millj­arða króna erlenda fjár­mögnun á núll pró­sent vöxt­um. Eft­ir­spurn var fjór­föld. 

Svo hefur rík­is­stjórnin ráð­ist í umfangs­miklar skatta­lækk­an­ir, sem draga úr tekjum rík­is­sjóðs. Varla væri hún það gera að ef tekju­sam­drátt­ur­inn sem af hlýst leiðir til þess að ríkið þurfi að ráð­ast í eigna­sölu til að láta enda ná sam­an. 

Hverjir eru heppi­legir eig­end­ur?

Í Hvít­bók sem unnin var fyrir rík­is­stjórn­ina um fram­tíð fjár­mála­kerf­is­ins fyrr á kjör­tíma­bil­inu sagði að heil­brigt eign­ar­hald væri mik­il­væg for­­senda þess að banka­­kerfi hald­ist traust um langa fram­­tíð. „Í því felst að eig­endur banka séu traust­ir, hafi umfangs­­mikla reynslu og þekk­ingu á starf­­semi banka og fjár­­hags­­lega burði til að standa á bak við bank­ann þegar á móti blæs. Mik­il­vægt er að eig­endur hafi lang­­tíma­­sjón­­ar­mið að leið­­ar­­ljósi.“

Til­raunir voru gerðar til að fá erlenda banka til að kaupa í Íslands­banka. Það hefur þótt heil­brigð­asta leiðin til að selja rík­is­banka. Þar var að venju mest horft til Nor­egs og sumir stærstu bank­arnir þar skoð­uðu útboðs­gögn­in. Eng­inn þeirra ákvað að vera með. Alveg eins og í aðdrag­anda einka­væð­ing­ar­innar sem hófst 2002. 

Erfitt er að sjá hvaða eig­endur sem komu inn í eig­enda­hóp­inn núna hafa lang­tíma­sjón­ar­mið að leið­ar­ljósi, að minnsta kosti sem virkir eig­end­ur. Ein­stak­ling­arnir sem keyptu og hafa ekki selt geta ekki haft nein áhrif með sína litlu hluti. Erlendu fjár­fest­arnir sem löð­uð­ust að útboð­inu gerðu það að hluta til með það fyrir augum að leysa út lottó­vinn­ing á viku. Íslenskir líf­eyr­is­sjóðir eru ekki virkir eig­endur í neinum félögum sem þeir eiga í, enda eiga þeir í þeim flest­u­m. 

Það er ljóst að ef næsta rík­is­stjórn ákveður að selja stóran hlut í Íslands­banka til við­bót­ar, líkt og til dæmis for­maður Sjálf­stæð­is­flokks­ins hefur boð­að, þá munu skap­ast aðstæður fyrir hóp íslenskra einka­fjár­festa að mynda kjarna sem getur orðið stefnu­mót­andi fyrir bank­ann. Á sama hátt og gerð­ist með Lands­bank­ann og Bún­að­ar­bank­ann á árunum 2002 og 2003, með vel þekktum afleið­ing­um. Við blasir að þeir sem eru í bestri stöðu til að mynda þann hóp tengj­ast íslenskum sjáv­ar­út­vegi.

Það virð­ist því vera að stjórn­völd hafi yfir­gefið það mark­mið að fá eig­endur með lang­tíma­sjón­ar­mið að leið­ar­ljósi sem séu „traust­ir, hafi umfangs­­mikla reynslu og þekk­ingu á starf­­semi banka og fjár­­hags­­lega burði til að standa á bak við bank­ann þegar á móti blæs.“

Nú er mark­miðið eitt­hvað allt ann­að.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiLeiðari