Fjármálaráðherrar Þýskalands, Frakklands, Ítalíu og Spánar hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir hvetja til þess að alþjóðlegur skattur verði settur á fyrirtæki svo að koma megi í veg fyrir skattaundanskot.
Yfirlýsingin var birt á vef Guardian fyrr í dag, en samkvæmt henni hefur þörfin fyrir slíka skattlagningu aukist til muna þar sem ýmis alþjóðleg tæknifyrirtæki hafa hagnast töluvert á núverandi efnahagsþrengingum.
Ráðherrarnir sögðu einnig að skattlagningin væri mikilvægt skref í að þróun skattlagningar, þar sem starfsemi fyrirtækja væri í auknum mæli að færast yfir á netið. Þá sögðu þeir líka að yfirstandandi kreppa hefði aukið ójöfnuð og að fyrirtækin þyrftu að leggja sitt af mörkum til að sporna gegn honum.
Í bréfinu voru undirboð í skattamálum einnig fordæmd, en samkvæmt ráðherrunum myndu þau einungis draga úr skatttekjum, jöfnuði og getu hins opinbera til að veita grunnþjónustu.
Ráðherrarnir, fyrir utan fjármálaráðherra Spánar, hitta kollega sína í Bretlandi, Bandaríkjunum, Kanada og Japan á fundi G7-ríkjanna í London í dag þar sem skattlagningin verður til umræðu. Í áðurnefndri yfirlýsingu stendur að alheimsskatturinn sé „innan seilingar,“ en samkvæmt umfjöllun Guardian um málið myndi samkomulag á fundinum í London verða mikilvægt skref í átt að stærra samkomulagi sem gæti náðst á fundi G20-ríkjanna á Ítalíu í næsta mánuði.
Kjarninn hefur áður fjallað um mögulegan alheimsskatt á fyrirtæki, en Janet Yellen, fjármálaráðherra Bandaríkjanna sagði á fundi G20 ríkjanna fyrr í vor að Bandaríkin myndu ekki lengur vera griðarstaður fyrir netfyrirtæki sem væru á flótta undan skattlagningu.
Samkvæmt heimildum Guardian hefur Rishi Sunak, fjármálaráðherra Bretlands, einnig færst nær hugmyndinni um alheimsskatt á síðustu dögum ef hægt yrði að auka skattlagningu á bandarískum tæknifyrirtækjum í Bretlandi.