Fjögur stærstu almenningshlutafélög heimsins eru öll kínversk samkvæmt nýjum lista Forbes yfir stærstu almenningshlutafélög heims. Stærsta félag heims, þegar horft er til eigna, er kínverski iðnaðar- og verslunar bankinn, ICBC, en heildareignir hans eru metnar á 3.322 milljarða Bandaríkjadala. Starfsmenn eru ríflega 420 þúsund, aðallega í Asíu, en einnig á helstu markaðssvæðum alþjóðlegra fjármálafyrirtækja.
Annað stærsta félag heims er kínverski framkvæmdabankinn, CCB, en heildareignir hans eru metnar á 2.698 milljarða Bandaríkjadala. Í þriðja sæti eru kínverski landbúnaðar bankinn, ABC, með eignir upp á 2.574 milljarða Bandaríkjadala og í fjórða sæti er Banki Kína, BC, með eignir upp á 2.458 milljarða Bandaríkjadala.
Öll félögin eru að langmestu leyti í eigu kínverska ríkisins, en alþjóðlegir fjárfestingasjóðir eiga einnig hluta í þeim.