Meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis leggur til að því verði frestað að setja inn í lög ákvæði þess efnis að Fjarskiptastofa fái heimild til að leggja stjórnvaldssekt á fyrirtæki sem nemi allt að 4 prósentum af heildarveltu þeirra, ef stofnunin telur þau ekki hafa afhent „réttar, fullnægjandi og uppfærðar upplýsingar“ um m.a. eigendur, stjórnarmenn, framkvæmdastjóra og eftirlits- og stjórnkerfi innan fjarskiptafyrirtækis.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nefndaráliti meirihlutans um stjórnarfrumvarp um breytingu á lögum um fjarskipti, lögum um Fjarskiptastofu og lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Meirihlutinn leggur til að umrætt sektarákvæði „komi til frekari skoðunar við undirbúning framlagningar eða þinglega meðferð frumvarps til heildarlaga um fjarskipti,“ sem til stendur að ráðast í.
Stærstu fjarskiptafyrirtæki landsins, Síminn, Sýn og Nova, höfðu gagnrýnt þessa nýju fyrirhuguðu sektarheimild nokkuð harðlega í umsögnum sínum um málið, eins og Kjarninn sagði frá í desember. Samtök atvinnulífsins, Viðskiptaráð og Samtök iðnaðarins lögðust einnig gegn sektarheimildinni í sameiginlegri umsögn sinni um málið og sögðu hagsmunasamtökin þrjú að órökstutt væri af hverju miðað væri við allt að 4 prósent af heildarveltu, auk þess sem orðalag sektarákvæðisins væri óskýrt.
Samkeppniseftirlitið jákvætt
Sektarheimildin í því formi sem hún var lögð til var hins vegar það sem Samkeppniseftirlitinu þótti einna jákvæðast við frumvarpið. Benti stofnunin á það í umsögn sinni að sektarheimildir hefðu hingað til hámarkast af 10 milljón króna stjórnvaldssektum í garð brotlegra fyrirtækja, eftir því sem eftirlitið kæmist næst. Samkeppniseftirlitið var hlynnt því að sektir myndu taka mið af efnahagslegum styrkleika fyrirtækja.
„Sektarheimildir eftirlitsstjórnvalda sem hlutfall af veltu þess fyrirtækis er gerist brotlegt við viðkomandi lög og reglur, eru til þess fallnar að hafa almenn og sértæk varnaðaráhrif á viðkomandi markaði og auka þar með hlítingu fyrirtækja vegna viðkomandi reglna sem löggjafinn hefur ákveðið. Með sambærilegum hætti eru sektarheimildir með tiltölulega lágu hámarksþaki, eins og í tilviki Fjarskiptastofu, ekki til þess fallnar að hafa slík áhrif,“ sagði í umsögn Samkeppniseftirlitsins.
Nefndin bendir á að dagsektarheimild sé til staðar
Í nefndaráliti meirihlutans segir að á fundum nefndarinnar hafi komið fram „mikil gagnrýni á orðalag og efni ákvæðisins“ og að bent hafi verið á að í greinargerð með frumvarpinu væri fjárhæð stjórnvaldssekta „hvergi rökstudd en ljóst væri að fjárhæð sektanna sem hlutfall af heildarveltu síðasta rekstrarárs gæti verið óhóflega há.“
Þá rekur meirihluti nefndarinnar að fram hafi komið hjá þeim sem komu á fundi nefndarinnar að stjórnvaldssektir væru „refsikennd viðurlög“ og því yrði að „gera ríkar kröfur um skýrleika slíkra ákvæða en ljóst væri að það hvenær upplýsingar væru fullnægjandi eða réttar væri háð mati hverju sinni.“
Nefndin segir að einnig hafi verið bent á það af fundargestum að stjórnvaldssektir væru ekki hefðbundin eftirlitsúrræði og eðlilegra væri að „leggja á dagsektir til að knýja á um þær upplýsingar sem óskað er eftir fremur en stjórnvaldssektir“. Nefndin bendir síðan á að heimild til álagningar dagsekta sé þegar til staðar í lögum um Fjarskiptastofu, sem samþykkt voru á þingi í fyrra.