Lundúnir, höfuðborg Bretlands, er í stöðugum vexti og um miðjan febrúar mun íbúafjöldi borgarinnar ná 8,6 milljónum sem er mesti fjöldi frá árinu 1939. Hinn vaxandi hópur borgarbúa gerir síauknar kröfur um fjölbreytta og hentuga ferðamáta til að koma sér á milli staða. Borgaryfirvöld hafa komið til móts við bæði borgarbúa og ferðamenn með því að bjóða upp á margar öflugar leiðir til ferðalaga innan borgarinnar. Þar má nefna bætt strætókerfi, víðfemt lestarkerfi bæði neðan- og ofanjarðar, ásamt aukinni þjónustu við hjólafólk – en nú í vikunni var kynnt áætlun um mikla fjölgun hjólavega í borginni.
Strætó eitt af einkennum borgarinnar
Þeir sem heimsóttu Lundúnir fyrir aldamótin síðustu muna vel eftir hinum sjarmerandi Routemaster strætisvagni sem hefur verið eitt af einkennum borgarinnar ásamt rauða símaklefanum og svarta leigubílnum (Hackney carriage). Hoppa mátti upp í vagninn að aftan og út aftur þegar hentaði. Eftir að Routmaster vagninn hvarf af götum borgarinnar árið 2005 voru ýmsar tegundir tvegga hæða vagna sem þjónuðu íbúum borgarinnar, en enginn þeirra með hurð að aftan sem bauð upp á það frelsi að komast inn og út án afskipta vagnstjórans.
Nýr Routemaster strætó á götuna
Þegar Boris Johnson bauð sig fram til borgarstjóra í Lundúnum árið 2008 lofaði hann að efla strætósamgöngur ásamt því að halda hönnunarsamkeppni um nýjan vagn til að þjóna borgarbúum enn betur. Úr því var bætt þegar hinn nýji Routemaster vagn, hannaður af hinu þekkta Heatherwick Studio, var tekinn í notkun árið 2012. Nú er það stefna borgaryfirvalda að vagninn sé nýttur á sem flestum leiðum, en nokkur mismunandi fyrirtæki sjá um akstur strætisvagna í borginni.
Nýi Routemaster vagninn er með hurð að framan og um sig miðjan, líkt og hefðbundnir vagnar, en þar að auki er hann með hurð að aftan líkt og gamli vagninn sem opin er á mörgum leiðum. Vel þykir hafa tekist til með vagninn sem býr yfir loftkælingu, vandaðri vínrauðri innréttingu og gulllitum handföngum. Þó hefur verið kvartað yfir því að loftkælingin sé ekki nægilega góð á heitum sumardögum, en í eldri vögnunum gátu farþegar opnað og lokað gluggum að vild.
Hinn gamli og nýi Routemaster.
Risa hjólahraðbraut á milli borgarhluta
Síðasta áratuginn hefur það færst í aukana í Lundúnum að fólk hjóli í og úr vinnu. Um 170 þúsund stakar ferðir eru hjólaðar daglega innan borgarmarkanna samkvæmt Peter Hendy samgöngustjóra London. Þetta þykir afar hentugur ferðamáti þó slysatíðni sé enn sem komið er hærri en góðu hófi gegnir og er þar helst um að kenna að göturnar eru almennt ekki hannaðar fyrir reiðhjól.
Borgaryfirvöld hafa sett fram stefnumótun fyrir notkun reiðhjóla í borginni og sjá hjólreiðamenn nú fram á bjartari tíma því í vikunni var kynnt framkvæmdaáætlun fyrir sérstaka hjólavegi. Byggð verður eins konar hjólahraðbraut, sem mun ná frá vesturhluta borgarinnar yfir í austurhlutann. Samtals verður vegurinn tæpir 30 kílómetrar og verður því ein lengsta hraðbraut fyrir hjól í Evrópu. Einnig verður gerður hjólavegur sem tengir norðurhlutann við þann syðri, frá King’s Cross lestarstöðinni að Elephant and Castle stöðinni.
Hjólreiðamaður í Lundúnum. Borgaryfirvöld hyggjast koma til móts við þann sívaxandi fjölda sem notast við reiðhjól til að komast ferða sinna í borginni.
Bláu Boris hjólin
Árið 2010 voru hinn svokölluðu Boris hjól kynnt til sögunnar til að auka fjölbreytni í samgöngumálum, en formlega nefnist þjónustan „Barclays Cycle Hire“. Gælunafnið er að sjálfsögðu í höfuðið á borgarstjóranum sem sjálfur er mikill hjólagarpur. Notendum býðst að nota greiðslukort til að leigja hjól í sólarhring, en hafa einnig möguleika á að skrá sig í langtímaleigu þar sem hver notandi fær eigin lykil.
Verkefnið er samstarf borgaryfirvalda og Barclays bankans, sem er stærsti styrktaraðili þess fram á mitt þetta ár. Opnast þá hugsanlegt tækifæri fyrir íslenska banka til að vekja aftur athygli á sér erlendis líkt og til dæmis var gert með maraþonhlaup í Skandinavíu á árunum fyrir bankahrun.
Elsta neðanjarðarlestakerfi í heimi
Það er sennilega ekki ofsögum sagt að neðanjarðarlestakerfið, eða the Tube, sé öflugasti hlekkurinn í samgönguneti borgarinnar. Árið 2013 var því fagnað að 150 ár voru liðin frá því að kerfið var tekið í notkun, það fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Á þeim tíma hefur leiðarkerfið þróast mikið og eru nú 270 stöðvar á 11 leiðum. Miðasala er nú orðið að mestu leyti í gegnum hin rafrænu Oyster kort, en einnig stendur farþegum til boða að nota snertilaus greiðslukort og greiða þannig beint fyrir farið.
Farið verður út í mikla fjárfestingu á næstu árum og hafa meðal annars verið kynntir nýjir vagnar sem munu þjóna fjórum leiðum. Reiknað er með að nýju vagnarnir verði fyrst teknir í notkun á Piccadilly línunni á árinu 2022, en hún tengir meðal annars Heathrow flugvöll við borgina. Þá er rétt að nefna að síðustu ár og áratugi hafa mörg af hverfum borgarinnar sem gengið hafa í gegnum endurnýjun og uppbyggingu notið góðs af DLR- og Overground lestunum sem keyra að mestu ofanjarðar. Í öllu því framkvæmdaferli sem nú stendur yfir hafa samgönguyfirvöld lagt áherslu á góða upplýsingamiðlun til almennings á vef Transport for London (TfL), með tölvupósti og á félagsmiðlum.
Neðanjarðarlestarkerfið í Lundúnum er það fyrsta sinnar tegundar í heiminum.
Óvinir einkabílsins?
Borgaryfirvöld hafa lagt mikið upp úr því að takmarka bílaumferð innan Lundúna. Rukkað er svokallað „Congestion Charge“ gjald fyrir bíla frá klukkan 7 til 18 sem í grunninn er um 2.300 krónur (11.5 pund) og er það fyrir þá sem vilja keyra innan aðal gjaldsvæðis borgarinnar. Þá fellur stór hluti borgarinnar jafnfram undir hið svokallaða „Low Emission Zone“ sem ætlað er að draga úr mengun með því að takmarka umferð stórra díselknúinna farartækja. Kostnaður við bílastæði er einnig nokkuð hár í samanburði við til dæmis Reykjavík, en í almenn stæði kostar klukkutíminn 800 krónur (4 pund).
Nú geta þeir borgarbúar sem vilja hafa aðgang að bíl við og við einnig gerst meðlimir í bílaklúbbum (sem dæmi má nefna Zipcar, Carplus og City Car Club) þar sem hægt er að leigja bíl í nágrenni við heimili eða vinnustað. Kostnaður við leigu á bíl er frá um 1.000 krónum (5 pund) á klukkutíma og fer þá eftir stærð bílsins og hvort bíllinn er tekin á leigu á virkum degi eða um helgi. Að sama skapi nýta margir sér hefðbundna leigubílaþjónustu í bland við hina nýju Uber bíla, sem panta má og greiða auðveldlega í gegnum snjallsíma.
Fjölbreyttir fararkostir
Það er því nokkuð ljóst að allir ættu að geta fundið sér fararkost við hæfi í borginni sem nú nálgast aftur metíbúafjölda ársins 1939. Að lokum má samt ekki gleyma því að ansi víða má komast um borgina á tveimur jafnfljótum – þegar þreytan segir til sín er svo lítið mál að hoppa inn um bakhurðina á strætó eða næla sér í blátt Boris hjól til að komast á áfangastað.