Nú hefur verið staðfest að 717 eru látnir eftir troðning í Mina í nágrenni helgu borgarinnar Mekka í Sádi-Arabíu í morgun. Rúmlega 800 til viðbótar eru slasaðir.
Um tvær milljónir manna eru á svæðinu í pílagrímsferð. Að sögn yfirvalda í Sádi-Arabíu eru 1,4 milljónir útlendingar. Í dag er fyrsti dagur Eid al-Adha hátíðarinnar, sem markar endalok hajj, pílagrímsmánuðarins. Pílagrímar koma til Mina til þess að kasta steinum í einn þriggja veggja sem tákna Satan, og grýta þannig djöfulinn, sem er hluti af hajj. Í janúar árið 2006 létust 364 pílagrímar í troðningi í þessum táknræna gjörningi. Árið 1990 létust tæplega 1.500 manns í troðningi í göngum á leið til Mekka.
Reuters greinir frá því að yfirvöld í Sádi-Arabíu hafi reynt að koma í veg fyrir að hörmungar sem áður hafa átt sér stað gætu endurtekið sig. Yfir hundrað þúsund lögreglumenn starfi á svæðinu og eiga að geta dreift miklum mannfjölda ef of þröngt er orðið.
Fleiri en 220 sjúkrabílar og fjögur þúsund björgunarmenn eru á staðnum, en fólk hefur haldið áfram að streyma á staðinn.
Stjórnvöld í Íran hafa greint frá því að 43 íranskir ríkisborgarar hafi látist í troðningnum, og hafa sakað stjórnvöld í Sádi-Arabíu um að að hafa gert mistök í öryggismálum. Tveimur leiðum að veggjunum þar sem steinum er kastað í djöfulinn hafi verið lokað af óþekktum ástæðum og því hafi aðeins þrjár leiðir verið færar, sem hafi valdið slysinu. Eina útskýringin sé léleg stjórnun og skortur á öryggisráðstöfunum.
Fréttin var uppfærð eftir því sem upplýsingar um fjölda látinna og slasaðra breyttust.