Gert er ráð fyrir að breytt skipun stjórnarráðsins, sem felur í sér tilfærslu málaflokka milli ráðuneyta og fjölgun þeirra úr tíu í tólf, kosti 505 milljónir króna á næsta ári.
Í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar um fjárlagafrumvarpið, sem samanstendur af nefndarmönnum stjórnarflokkanna þriggja, er gerð tillaga um að samsvarandi upphæð verði ráðstafað úr ríkissjóði á árinu 2022 vegna þessa kostnaðar til viðbótar við það sem rekstur stjórnarráðsins kostaði áður.
Þegar endurnýjað samstarf Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks var kynnt greindu formenn flokkanna frá því að þeir ætluðu að fjölga ráðherrum í tólf. Þeir hafa aldrei verið fleiri hérlendis.
Auk þess voru málaflokkar færðir til og kynnt að heiti ráðuneyta myndu breytast. Í stað atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, félagsmálaráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis koma félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, innviðaráðuneyti, matvælaráðuneyti, menningar- og viðskiptaráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.
Ráðuneytisstjóri, ritari, bílstjóri
Samkvæmt forsendum fjármála- og efnahagsráðuneytis nemur árlegur launakostnaður ásamt launatengdum gjöldum vegna stofnunar nýs ráðuneytis um 130 milljónum króna vegna ráðuneytisstjóra, ritara, bílstjóra og þriggja almennra starfsmanna. Annar rekstrarkostnaður er áætlaður um 40 milljónir króna á ári fyrir hvort ráðuneyti.
Í nefndarálitinu segir að .ar sem ekki liggi fyrir á þessu stigi endanlegt innra skipulag nýrra ráðuneyta, tilfærsla núverandi starfsmanna og breyttar starfsáherslur, meðal annars í tengslum við stefnumál ríkisstjórnarinnar samkvæmt stjórnarsáttmála, sé óvissa um í hvaða mæli ráða þarf til starfa aukið starfslið. „Að samanlögðu má telja að heildarkostnaður við stofnun tveggja nýrra ráðuneyta gæti numið um 505 m.kr. fyrsta árið, en þar af færast 450 m.kr. á þennan málaflokk.“
Laun ráðherra og aðstoðarmanna verða 771 milljón
Það sem upp á vantar fellur til vegna reksturs ríkisstjórnar Íslands. Undir þann lið falla launagreiðslur ráðherra og aðstoðarmanna þeirra.
Hann var áætlaður 714,9 milljónir króna á næsta ári samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi, sem er um fimm prósent meiri kostnaður en áætlun vegna ársins 2021 gerir ráð fyrir, en þá á reksturinn að kosta 681,3 milljónir króna.
Í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar er gerð tillaga um að útgjöld vegna þessa liðar verði hækkuð um 56,3 milljónir króna. Ástæðan er sögð fjölgun ráðherra og aðstoðarmanna í samræmi við skipan nýrrar ríkisstjórnar í lok nóvember, þegar ráðherrum var fjölgað um einn í tólf og aðstoðarmönnum um tvo.
Alls má ríkisstjórnin því ráða 27 aðstoðarmenn sem stendur en fyrir utan þá tvo sem hver ráðherra hefur getur ríkisstjórnin sjálf ráðið þrjá, þar á meðal einn upplýsingafulltrúa.
Því mun kostnaður vegna launagreiðslna til ráðherra og aðstoðarmanna þeirra verða 771,2 milljónir króna á næsta ári.