Þýski íþróttavörurisinn Adidas er í vandræðum. Sala á Adidas-vörum hefur dregist saman í Norður-Ameríku síðastliðinn þrjú ár og efasemdir eru byrjaðar að skjóta rótum á meðal fjárfesta fyrirtækisins vegna slakrar frammistöðu stjórnar Adidas, að því er fram kemur í umfjöllun The Wall Street Journal. Hlutabréf í þýska íþróttavörurisanum féllu um hátt í fjörutíu prósent á síðasta ári.
Adidas var lengi vel einn helsti keppinautur bandaríska íþróttavörurisans Nike, en á síðasta ári skaut fyrirtækið Under Armour Adidas ref fyrir rass, og skellti sér upp í annað sætið á eftir Nike.
En hvað veldur falli Adidas? Fréttavefurinn Business Insider tók saman fjórar ástæður fyrir hrapi þýska sportvörurisans.
1. Fyrirtækið missti tengsl við viðskiptavini sína í Ameríku
Í umfjöllun Business Insider er haft eftir eiganda tískukeðjunnar Nohble í New York, sem sérhæfir sig í götutísku, að Adidas hafi hætt að hlusta á ráðgjöf söluaðila um hvernig tískuvörur væru líklegar til vinsælda í Bandaríkjunum.
Samkvæmt umfjöllun The Wall Street Journal reynir nú Adidas að hleypa „bandarískum áhrifum“ inn í vörurnar sínar. „Hugarfar í Bandaríkjunum er töluvert frábrugðið því þýska,“ er haft eftir Mark King, forstjóra Adidas í Norður-Ameríku, í umfjöllun The Wall Street Journal. „Í því fellst uppljómunin.“
2. Adidas tapaði stórum samningum til Nike
Á níunda áratugnum tók Adidas þá afdrifaríku ákvörðun að ganga ekki til samninga við ungan efnilegan körfuboltamann, sem ákvað þá að skrifa undir samning við helsta keppinaut þýska sportvörurisans, Nike. Ungi körfuboltamaðurinn hét þá og heitir enn Michael Jordan. Samkvæmt umfjöllun The Wall Street Journal fannst forsvarsmönnum Adidas Jordan vera of lágvaxinn til að hann gæti orðið vinsæll á meðal körfuboltaáhugamanna.
Þrjátíu árum síðar aflar Jordan vörumerkið enn milljarða dala tekna fyrir Nike árlega, jafnvel þó Michael Jordan hafi hætt að hafa körfubolta að atvinnu fyrir meira en tíu árum síðan.
Þar að auki er Nike með mun fleiri bandaríska íþróttamenn en Adidas á sínum snærum.
3. Afgreiðslutími Adidas er allt of hægur
Meðal afgreiðslutími Adidas frá hönnun til búðar er um átján mánuðir, sem gerir fyrirtækinu nær ókleyft að tappa inn á tísku hvers tíma því viðbragðstíminn er svo hægur, að því er fram kemur í umfjöllun The Wall Street Journal.
Adidas vinnur nú hörðum höndum að því að stytta afgreiðslutímann.
4. Adidas borgaði allt of mikið fyrir Reebok
Þýski íþróttavörurisinn greiddi 3,8 milljarða Bandaríkjadala fyrir íþróttavörumerkið Reebok árið 2005. „Um leið og við fórum að skoða tölurnar, þá uppgötvuðum við að rekstur Reebok var ekki góður og að við höfðum greitt of mikið,“ segir fyrrverandi stjórnarmaður hjá Adidas í samtali við The Wall Street Journal.
Rekstur Reebok var í járnum þegar Adidas ákvað að kaupa íþróttavörufyrirtækið, sem helst er þekkt fyrir að bjóða upp á körfuboltaskó á níundaáratugnum sem hægt var að blása upp. Þá var fyrirtækið lengi vel einn helsti styrktaraðili enska knattspyrnuliðsins Bolton Wanderers.
Kaupin reyndust Adidas afar þungbær og sköðuðu fyrirtækið.