Lífeyrissjóður verslunarmanna, Gildi, Capital World Invsestors og RWC Asset Management hafa skuldbundið sig til að kaupa um það bil tíu prósent af öllu útgefnu hlutafé Íslandsbanka í hlutafjárútboði bankans sem hófst í morgun.
Þetta kemur fram í útboðslýsingu bankans, sem birtist fyrr í dag. Hlutafjárútboðið hófst kl. 9 í morgun og mun það standa til hádegis þriðjudaginn 15. júní. Bankinn getur selt allt að 35 prósent af hlutafé sínu á 71 til 79 krónur á hlut, samkvæmt tilkynningu á útboðsvef bankans.
Miðpunktur hins leiðandi verðbils er að virði bankans sé 150 milljarðar króna, en eigið fé bankans er 185 milljarðar króna. Því eru 0,81 krónur af hlutafé fyrir hverja krónu af eigin fé.
Af þeim allt að 636 milljónum hluta sem ríkið getur selt hefur Capital World Investors skuldbundið sig til að kaupa 77 milljónir hluta og RWC Asset Management LLP 31 milljónir hluta. Sömuleiðis ætla Gildi Lífeyrissjóður og Lífeyrissjóður verslunarmanna hvorir um sig að kaupa 46 milljónir hluta. Samanlagt hafa þessir fjórir fjárfestar því skuldbundið sig í að kaupa um það bil 10 prósent af hlutafé bankans.
Áætlað er að það náist að selja fyrir 42,6 milljarða króna út frá útboðinu, að því gefnu að útboðsverð verði í miðpunktinum á verðbilinu og að fjöldi hlutabréfa sem seld verði sé á milli 25 prósent og 31,8 prósent af útgefnum hlutum í bankanum og að heimild til að selja fleiri hlutabréf sé ekki nýtt. Áætluð þóknun af sölunni nemur 1,4 milljörðum króna og því er búist við að ríkið fái um 41,3 milljarða króna fyrir útboðið.
Allt hlutafé sem selt verður í útboðinu er sölutryggt. Í íslenskri samantekt á útboðslýsingunni segir: „Fáist ekki kaupendur samkvæmt framangreindu verða hlutir seldir til söluráðgjafanna og sérhver þeirra hefur samþykkt að útvega kaupendur í samræmi við neðangreint. Takist það ekki, hefur hver söluráðgjafi samþykkt að kaupa af seljanda, eftir atvikum, hlutfall hlutanna sem seldir verða eins og þeir eru tilgreindir í neðangreindu yfirliti.“ Yfirlitið má sjá á mynd hér að ofan.