Þingflokkar Samfylkingarinnar, Flokks fólksins, Pírata og Viðreisnar ætla að leggja sameiginlega fram frumvarp til að bregðast við stöðu þeirra tæplega 300 einstaklinga sem nú stendur til að senda úr landi með fjöldabrottvísun.
Í tilkynningu frá þeim segir að flokkarnir leggi til að nýtt ákvæði verði sett til bráðabirgða sem felur í sér að dráttur á málsmeðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd, sem varð vegna heimsfaraldurs COVID-19, verði ekki talinn á ábyrgð umsækjendanna sjálfra og því skuli taka umsóknir þeirra til efnislegrar meðferðar hafi þeir verið hér í 12 mánuði eða lengur. „Þingflokkarnir leggja einnig til að umsækjendur sem sóttu um vernd á meðan heimsfaraldur COVID-19 stóð sem hæst og hafa verið hér á landi í 18 mánuði eða lengur, fái dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.“
Frumvarpið er í yfirlestri verður dreift á Alþingi á mánudaginn.
Ekki samstaða innan ríkisstjórnar
Í síðustu viku var greint frá því á forsíðu Fréttablaðsins að flóðbylgja brottvísana þeirra sem sótt hafa hér um vernd sé framundan. Alls telur hópurinn tæplega 300 manns. Stærstur hluti þeirra á að fara til Grikklands. Í hópnum eru meðal annars börn.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sagði í Kastljósi á þriðjudag að samstaða ríkti innan ríkisstjórnarinnar um að framkvæma brottvísun fólksins, reglur væru skýrar og engar breytingar væru fyrirsjáanlegar á þeirri ákvörðun. Hann sagði það rétt að sérstakar aðstæður væru uppi varðandi þennan hóp. Skilyrði hefðu verði um að það í móttökuríkjum að flóttamenn sem ætti að senda þangað hefðu undirgengist COVID-próf eða bólusetningu. Margir flóttamenn hefðu neitað að gera það og því hefði brottvísun þeirra tafist á meðan að slíkar reglur voru í gildi. „Nú eru þessar reglur að hverfa í þessum ríkjum og þá kemur þetta til framkvæmda.“
Hann sagði enn fremur að horfa þyrfti til þess tíma sem hópurinn hefði dvalið hérlendis og hverjar aðstæður væru í móttökulandinu, en þar hefur sérstaklega verið gagnrýnt að til standi að senda stóran hluta hópsins til Grikklands, en mannúðarsamtök hafa ítrekað sagt að aðstæður flóttafólks þar séu með öllu óboðlegar.
Guðmundur Ingi sagði að fleiri ráðherrar hafi gert athugasemdir við vegferð Jóns á ríkisstjórnarfundinum en vildi ekki segja hverjir það voru. Þeir þyrftu sjálfir að greina frá því.
Vilja búa til almenna lausn fyrir hópinn
Í tilkynningu stjórnarandstöðuflokkanna fjögurra segir að fjöldabrottvísunin sem hefur verið í undirbúningi af hálfu íslenskra stjórnvalda sé ekki lagaleg nauðsyn, heldur yrði slík framkvæmd pólitísk ákvörðun stjórnvalda. „Með framlagningu þessa frumvarps leggja flutningsmenn til almenna lausn fyrir þennan tiltekna hóp fólks á flótta, einstaka aðgerð líkt og nauðsynlegt hefur verið að gera í fjölmörgum öðrum málum vegna heimsfaraldursins. Flutningsmenn telja óásættanlegt að tafir sem tengjast heimsfaraldrinum verði taldar á ábyrgð umsækjenda sjálfra, enda var það ekki markmið núgildandi laga, heldur framkvæmd sem stjórnvöld hafa tekið upp.“
Flutningsmenn frumvarpsins telja að með því sé verið að bregðast við fyrirætlunum stjórnvalda um að brottvísa einstaklingum og fjölskyldum sem hafa verið hér í lengri tíma vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem uppi hafa verið í heiminum vegna heimsfaraldursins. „Í þeim aðstæðum, líkt og mörgum öðrum þarf sértækar aðgerðir og því eru lögð til bráðabirgðaákvæði sem eingöngu ná til þess hóps sem hér hefur dvalið um langt skeið vegna heimsfaraldursins. Óvenjumargir umsækjendur um alþjóðlega vernd hafa vegna faraldursins dvalið hér á landi um lengri tíma, þar á meðal börn og einstaklingar í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sem hafa vegna tímans byggt upp tengsl við landið. Það er nauðsynlegt að bregðast strax við þessum aðstæðum og tryggja það að við sendum ekki fólk, sem þarf á vernd að halda, af landi brott og í aðstæður þar sem öryggi þess og heilsu er ógnað.“
Fordæmi fyrir svona frumvarpi
Fordæmi eru fyrir því að stjórnmálaflokkar leggi fram frumvarp til að koma í veg fyrir brottvísanir. Í september 2017, skömmu eftir að ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar féll en áður en kosið var að nýju, átti tveimur stúlkum úr landi, þeim Haniye Maleki, þá ellefu ára og ríkisfangslaus, og Mary Iserien, þá átta ára frá Nígeríu.
Formenn sex flokka á þingi: Vinstri grænna, Viðreisnar, Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Framsóknarflokks og þingflokksformaður Pírata lögðu fram frumvarp um breytingar á lögum um útlendinga sem heimiluðu þeim og öðrum börnum að vera á Íslandi. Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins var Katrín Jakobsdóttir, nú forsætisráðherra. Í
Allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem voru viðstaddir atkvæðagreiðsluna kusu gegn frumvarpinu. Alls 38 þingmenn úr hinum sex flokkunum sem voru á þingi á þeim tíma samþykktu það hins vegar. Haniye og Mary fengu að vera og breytingarnar höfðu áhrif á stöðu tugi barna í hópi umsækjenda um alþjóðlega vernd.