Ekki er verið að nota næturakstur Strætó, sem hófst aftur um helgar í júlí, eins mikið og vonir stóðu til, samkvæmt kynningu sem stjórnarmenn í Strætó bs. fengu frá fyrirtækinu á stjórnarfundi í síðustu viku.
Í kynningunni kom fram að á bilinu 300-340 farþegar hefðu verið að nýta sér aksturinn á hverju kvöldi fyrstu fjórar helgarnar sem næturstrætó keyrði, eða um 14-16 manns að meðaltali í hverja næturferð sem ekin er.
Strætó segir í samantekt um næturaksturinn að notkunin hafi verið „þokkaleg, en undir væntingum miðað við óskir um endurvakningu næturleiða“, en nokkuð ákall var uppi um það að Strætó myndi hefja akstur að næturlagi á ný um helgar eftir að skemmtanalíf færðist í samt horf við afléttingu samkomutakmarkana vegna kórónuveirufaraldursins.
Í fundargerð stjórnar Strætó segir að staðan á næturakstri verði „endurmetin“ í september, en þegar ákvörðun var tekin um að hefja næturaksturinn að nýju var það gert í tilraunaskyni fram til loka september.
Fram hefur komið í máli Jóhannesar S. Rúnarssonar framkvæmdastjóra Strætó að framtíð næturakstursins sé háð því að fólk noti þjónustuna.
Leiðin í Hafnarfjörð mest notuð
Í næturakstrinum keyrir Strætó alls sjö leiðir frá miðborginni, sex þeirra eru með þrjár brottfarir og ein með fjórar. Samkvæmt því sem fram kemur í samantekt Strætó er leiðin sem liggur í Hafnarfjörð mest notuð, en sú sem liggur vestur í bæ og út á Seltjarnanes minnst notuð.
Þetta mun vera svipað notkunarmynstur og var áður þegar næturleiðir Strætó keyrðu, en akstri næturstrætó var hætt þegar kórónuveirufaraldurinn skall á í upphafi árs 2020 og allt skemmtanalíf lagðist af.
Í kynningu Strætó segir að allt hafi gengið vel í tengslum við aksturinn og að ekki hafi heyrst af neinum teljandi vandræðum. Auk þess segir að búast megi við „meiri notkun þegar sumarleyfum lýkur og atvinnulífið og skólar fari á fullt“ og þess einnig getið að notkunin á næturstrætó þessar fyrstu helgar ætti að vera að létta eitthvað á leigubílavandræðum úr miðborginni, sem borið hefur töluvert á í sumar.