Þau eru afar fjölbreytt starfsheitin og annars konar titlar þess fólks sem er á framboðslistum til sveitarstjórnarkosninga sem fram fara í dag. Sem dæmi eru 249 frambjóðendur kennarar, 213 bændur bjóða fram krafta sína og tíu tamningamenn. 72 lögfræðingar og lögmenn eru í kjöri og 23 húsmæður. Sömuleiðis eiga 23 núverandi eða fyrrverandi alþingismenn sæti á listunum.
Aðeins einn hornleikari er í framboði. Það er hann Helgi Þ. Svavarsson, sem er á lista Vinstri grænna á Akureyri. Það verður að teljast ólíklegt að hann nái kjöri. Það hefur ekkert með hornið hans að gera eða hvernig hann leikur á það heldur þá staðreynd að hann skipar 17. sæti listans. En aðeins ellefu sæti eru í boði í bæjarstjórninni og munu þau skiptast á milli þeirra lista sem koma inn mönnum.
Einn frambjóðandi titlar sig fjósamann og annar skiltakall. Þá er ein fjöllistakona í framboði og ein frú. Sjö fangaverðir eru á lista og fimm ljósmæður. Fuglaathugandi skipar sæti á lista Vinstri grænna í Árborg og tveir plötusnúðar bjóða sig fram – annar í Hveragerði og hinn í Hafnarfirði.
Mest er fjölbreytnin eflaust á Kattalistanum sem býður fram á Akureyri undir forystu Snorra Ásmundssonar listamanns. Með honum á lista eru markþjálfi, tónlistarmaður, rithöfundur, listakona, húsmóðir, málari og svo auðvitað: Kattakona.
Viðskeytið „stjóri“ er í starfsheiti 672 frambjóðenda. Mögulega eru hlutfallslega flestir stjórnendur á Kjósarlistanum. Sjö skipa listann, þar af þrír framkvæmdastjórar, einn hótelstjóri og einn deildarstjóri. Sá sjötti er lögfræðingur og sá sjöundi múrari.
Hlutfallslega er bændur flestir á Tjörneslistanum því helmingur þeirra sem bjóða sig fram stunda búskap. Tíu eru á listanum og í hópnum eru tvær húsmæður sem er einnig hátt hlutfall þeirrar stéttar miðað við önnur framboð. Sjálfkjörið verður í Tjörneshreppi í þetta sinn því aðeins einn listi er í framboði.
Lögmenn og lögfræðingar eru hlutfallslega flestir á listum Sjálfstæðisflokksins. Tuttugu slíkir, af þeim 72 sem gefa kost á sér, skipa lista flokksins víðsvegar um landið. Til samanburðar þá eru aðeins þrír lögfræðingar og lögmenn í framboði fyrir Vinstri græn.
Sextán læknar, þar af fjórir dýralæknar, eru í kjöri. Mun fleiri hjúkrunarfræðingar eru á framboðslistunum eða 49. Þá eru fjölmargir námsmenn í framboði eða samtals 232. Nám þeirra er alls konar. Einn stundar nám í húsgagnasmíði, annar í búfræði og nokkrir eru í hjúkrunarfræði. Þá er nemi í landslagsarkitektúr á lista í Bolungarvík, flugnemi á lista í Garðabæ, þjóðfræðinemi í framboði fyrir Vinstri græn í Hafnarfirði og nemi í almannatengslum fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík.
Rúmlega sextíu „konur“ eiga sæti á listum. Það er að segja manneskjur sem hafa orðið „kona“ í starfsheiti sínu: Fjöllistakona, afgreiðslukona, sjúkraflutningakona, hágreiðslukona, fyrrverandi alþingiskona, knattspyrnukona, söngkona, verkakona, listakona, lögreglukona, glerlistakona, athafnakona, stjórnarkona, fiskvinnslukona og leikkona. Að ógleymdri afrekskonu í Crossfit. Sú er engin önnur en Katrín Tanja Davíðsdóttir sem tvisvar hefur sigrað á heimsleikunum í crossfit. Katrín skipar 16. sætið hjá sjálfstæðismönnum í Reykjavík. Ein göldrótt tónlistarkona er svo í framboði fyrir Pírata í Reykjavík.
Fimm frambjóðendur eru einhvers konar „stýrur“. Á listunum er skólastýra, framkvæmdastýra, kynningarstýra og sérkennslustýra og auk þess ein bæjarstýra en þann titil ber Íris Róbertsdóttir sem setið hefur við stjórnartaumana í Vestmannaeyjum síðustu fjögur árin.
„Stjórarnir“ eru mun fleiri eða 672 talsins enda orðið algengt í starfsheitum fólks af öllum kynjum. Einn viðburðastjóri er í framboði og einn upplifunarstjóri. Svo eru 20 skipstjórar á listum og auðvitað fjölmargir framkvæmdastjórar auk teymisstjóra og skólastjóra svo dæmi séu nefnd.
559 „fræðingar“ bjóða fram krafta sína, þar af fjórir skógfræðingar og svo vill til að þeir eru flestir ofarlega á þeim listum sem þeir bjóða sig fram fyrir.
Alls konar sérfræðingar í umhverfinu
Umhverfismálin hafa verið áberandi í samfélagsumræðunni og stjórnmálum síðustu ár. Loftslagsógnin vofir yfir og orkuskipti eru m.a. sú leið sem feta á út úr þeim vanda. Skiptar skoðanir eru svo hvort virkja þurfi meira til orkuskipta og því víst að náttúruvernd og orkumál verða fyrirferðarmikil í pólitíkinni á næstu misserum, áfram sem hingað til. Þeir sem bera þekkingu á þessum málaflokki í starfsheiti sínu eru m.a. tveir sérfræðingar hjá Umhverfisstofnun, annar er í framboði fyrir Vinstri græn á Akureyri og hinn fyrir Samfylkinguna í Reykjavík. Þá er umhverfisverkfræðingur á lista Framsóknarflokksins í Garðabæ og annar slíkur í framboði fyrir VG í Reykjavík. Umhverfis- og auðlindafræðingur býður sig fram fyrir Samfylkinguna í Mosfellsbæ og umhverfis- og orkufræðingur fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Múlaþingi. Umhverfisskipulagsfræðingur er á lista Framsóknar í Árborg og varaformaður Ungra umhverfissinna skipar 14. sæti á lista Samfylkingarinnar í sama sveitarfélagi.
Fólk náttúrunnar
Náttúran sjálf er svo í starfstitli fimm frambjóðenda. Náttúrufræðingur er á Vopnafjarðarlistanum og annar slíkur er í framboði fyrir Vinstri græn í Múlaþingi. Náttúru- og landfræðingur skipar annað sæti á lista VG í Fjarðabyggð og náttúrulandafræðingur fer fram fyrir Pírata í Akureyrarbæ. Náttúruvársérfræðingur er svo í kjöri fyrir Samfylkinguna í Kópavogi.
Svo má geta þess að tvær Stellur eru í framboði. Viðskiptafræðingurinn Stella Stefánsdóttir skipar 8. sæti á lista sjálfstæðismanna í Garðabæ og Kolbrún Stella Indriðaþóttir, einnig viðskiptafræðingur en líka bóndi, er á lista Framsóknarflokksins í Húnaþingi vestra.
Nöfn framboðanna eru svo einnig skemmtilega ólík og alls konar.
Byggðalistinn, Bæjarlistinn, Íbúalistinn, Nýtt afl og Ný sýn eru þeirra á meðal.
Í sveitarstjórnarmálunum eru flokkslínurnar oft ekki jafn skýrar og í landspólitíkinni og bera nöfn lista þess glögglega merki: Framsókn og frjálsir, Framsókn og aðrir framfarasinnar, Framsókn og félagshyggjufólk og listi Framsóknarfélags Grindavíkur. Í þessum svipaða anda eru svo Framfaralistinn, Framboðslisti um framsýni og fyrirhyggju og Listi framfarasinna.
Þá bjóða VG og óháðir fram, Sjálfstæðismenn og óháðir, Sjálfstæðismenn og aðrir lýðræðissinnar, Samfylking og óháðir, Samfylkingin og annað félagshyggjufólk, Miðflokkurinn og óháðir, Miðflokkurinn og sjálfstæðir og Píratar og óháðir.
Mörg framboð vilja kenna sig við sitt sveitarfélag með einhverjum hætti og fara ýmsar leiðir að því:
Okkar Hveragerði, Saman í sveit, Vinir Kópavogs, Vinir Mosfellsbæjar, Áfram Árborg, Strandabandalagið, Strandarlistinn, Ströndungur og Fyrir Heimaey eru dæmi þar um.
Frumlegheitin eru svo enn meiri hjá nokkrum framboðum:
Gerum þetta saman (Blönduós) Kattalistinn (Akureyri), Máttur meyja og manna (Bolungarvík), Rödd unga fólksins (Grindavík), Gróska, Allra (Mýrdalshreppur), Listi samfélagsins, Umbót, Bein leið, Öflugt samfélag, Umhyggja – umhverfi – uppbygging og ekki má gleyma Kex framboði í Sveitarfélaginu Hornafirði. Slagorð þess nýja framboðs er: „Við viljum að allir íbúar hafi rödd, þess vegna er Kex við öll.“
Í dag verða kjörnar 64 sveitarstjórnir. Í tveimur sveitarfélögum kom aðeins fram einn framboðslisti og fara því engar kosningar þar fram því frambjóðendur teljast sjálfkjörnir. Í þrettán sveitarfélögum kom ekki fram neinn framboðslisti og þar verða því haldnar svokallaðar óbundnar kosningar, persónukjör. Allir með lögheimili á staðnum og eru á kosningaaldri eru framboði nema þeir skorist sérstaklega undan því og hafi til þess gildar ástæður. Í þeim sveitarfélögum þar sem persónukjör fer fram eru yfir 3.000 manns því „í framboði“. Á þeim 179 listum sem boðnir voru fram á landinu öllu eiga svo yfir 6.000 manns sæti. Það er því dágott hlutfall íbúa landsins sem er í kjöri með einum eða öðrum hætti.