Talið er að hátt í 24 milljónir bandarískra sjónvarpsáhorfenda hafi horft á beina útsendingu á FOX sjónvarpsstöðinni frá úrslitaleik HM kvenna sem fram fór í gær. Kvennalið Bandaríkjanna tryggði sér þar sinn fyrsta heimsmeistaratitil frá árinu 1999 eftir æsispennandi 5-2 sigur á móti sterku liði Japana, en úrslitaleikurinn fór fram í Vancouver í Kanada. Fréttamiðillinn Quartz fjallar um málið.
Áhorfið á leikinn hjá FOX er töluvert meira en áhorfið á úrslitaleikinn á HM karla sem fram fór í Brasilíu í fyrra, þegar Argentínumenn og Þjóðverjar áttust við. Þá horfðu um 17 milljónir sjónvarpsáhorfendur á leikinn, í beinni útsendingu á bandarísku sjónvarpsstöðinni ABC, þar sem Þjóðverjar komu sáu og sigruðu.
Þá er talið að um níu milljónir spænskumælandi Bandaríkjamanna hafi horft á leikinn á sjónvarpsstöðinni Univision, þar sem útsendingin var á spænsku. Úrslitaleikur kvenna í gær var sömuleiðis sendur út á spænsku í Bandaríkjunum á sjónvarpsstöðinni Telemundo, en áhorfstölur þar hafa enn ekki verið gefnar út.
Auk þess að slá áhorfinu hjá bandarískri sjónvarpsstöð á úrslitaleik karla á HM 2014 ref fyrir rass, sló úrslitaleikur kvenna á HM nokkur áhorfsmet.
Aldrei áður hafa fleiri horft á landsleik bandarísks landsliðs í fótbolta, en fyrra metið var sett í fyrra þegar karlalandslið Bandaríkjanna og Portúgal áttust við á HM 2014 í Brasilíu. Og þá gæti áhorfið á leikinn reynst meira en meðaláhorf á úrslitarimmu Cleveland Cavaliers og Golden State Warriors í NBA körfuboltanum, en þar horfðu að meðaltali 20 milljónir sjónvarpsáhorfenda á hvern leik liðanna, sem urðu sex alls.
Áhorfið á leikinn skýrist auðvitað af velgengni kvennalandsliðs Bandaríkjanna í fótbolta, en áhorfið er sömuleiðis til marks um uppgang knattspyrnunnar í landinu, þar sem íþróttin berst um áhorf við rótgrónar íþróttagreinar eins og ruðning, körfubolta, hafnabolta, íshokkí, tennis og golf.
Þá er áhorfið ekki síður til marks um sívaxandi áhuga á íþróttum kvenna í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir mikla karlrembu, launamismunun og þá staðreynd að sjónvarpsstöðvarnar sýni íþróttum kvenna litla sem enga athygli, fer áhugi á íþróttaiðkun þeirra vaxandi bæði í Bandaríkjunum og víða um heim.