Erlendir ferðamenn í ágúst voru 153.400 talsins. Það sem af er ári hafa 699.810 manns farið um Keflavíkurflugvöll, sem er 23,5 prósent aukning milli ára frá áramótum frá því sem var á sama tímabili í fyrra. Þótt enn sé þriðjungur eftir af árinu eru ferðamenn þegar orðnir fleiri en þeir voru allt árið 2012. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ferðamannastofu.
Tilkynningin í heild sinni:
„Þótt enn sé þriðjungur eftir af árinu eru erlendir ferðamenn orðnir fleiri en árið 2012, fyrir aðeins tveimur árum. Þeir voru 153.400 í nýliðnum ágúst, samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, sem gerir tæplega 700 þúsund ferðamenn frá áramótum.
Aukningin í ágúst nemur 16,4% milli ára. Vart þarf að taka fram að aldrei hafa jafn margir ferðamenn verið hér í ágúst og nú og raunar aldrei fleiri í einum mánuði frá upphafi.
Bandaríkjamenn og Þjóðverjar fjölmennir
Bandaríkjamenn voru líkt og undanfarna mánuði fjölmennastir eða 14,7% af heildarfjölda ferðamanna í ágúst en fast á eftir fylgja Þjóðverjar með 12,6% af heild. Skáru þessar tvær þjóðir sig nokkuð úr en næst komu Frakkar (9,8%), Bretar (7,3%), Ítalir (5,1%) og Spánverjar 4,7%. Samtals voru 10 fjölmennustu þjóðernin með 69% af heildarfjölda ferðamanna.
Af einstaka þjóðernum fjölgaði Bandaríkjamönnum, Frökkum, Kanamönnum, Kínverjum, Ítölum og Spánverjum mest. Þessar sex þjóðir voru með um helming af fjölgun ferðamanna í ágúst.
Tvívegis álíka fjölgun í ágúst
Ferðamenn voru ríflega þrisvar sinnum fleiri í ágúst í ár en þeir mældust í sama mánuði árið 2002, þegar talningar Ferðamálastofu hófust. Fjölgun hefur verið öll ár á þessu tímabili, að árinu 2010 frátöldu, og tvívegis hefur þeim fjölgað álíka á milli ára en nú, þ.e. í ágúst 2003 og 2007. Sex sinnum á þessu tímabili hefur fjölgunin verið yfir 10% á milli ára.
Þegar einstök markaðssvæði eru skoðuð má sjá góða fjölgun frá öllum svæðum. Bandaríkjamönnum hefur fjölgað mest en þeir hafa hátt í þrefaldast. Bretar og þeir sem taldir eru sameiginlega undir „Annað“ hafa u.þ.b. tvöfaldast. Líkt og undanfarin ár eru ferðamenn frá Mið- og Suður Evrópu fjölmennastir í ágúst og þeim hefur fjölgað um 50% frá 2010. Norðurlandabúum hefur fjölgað sínu minnst frá frá árinu 2010, eða um 17%.
546 þúsund ferðamenn frá áramótum
Það sem af er ári hafa tæplega 700 þúsund farið frá landinu um Keflavíkurflugvell, nánar tiltekið 699.810 eða um 133 þúsund fleiri en á sama tímabili í fyrra. Um er að ræða 23,5% aukningu ferðamanna milli ára frá áramótum í samanburði við sama tímabil í fyrra. Veruleg aukning hefur verið frá flestum mörkuðum; N-Ameríkönum og Bretum hefur fjölgað mest, hvorum um sig um u.þ.b. 35%, Mið- og S-Evrópubúum um 15%, og ferðamönnum frá öðrum mörkuðum um 30%. Norðurlandabúum hefur hins vegar ekki fjölgað í sama mæli eða um 8,6%.
Ferðir Íslendinga utan
Um 37 þúsund Íslendingar fóru utan í ágúst síðastliðnum, nokkru færri en í júlí og nánast jafn margir og í ágúst í fyrra. Frá áramótum hafa 261 þúsund Íslendingar farið utan eða 8,7% fleiri en á sama tímabili árið 2013."