Fleiri sem segjast ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn á síðustu tíu dögum vilja sjá Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri grænna, sem forsætisráðherra eftir komandi kosningar sem fram fara næstkomandi laugardag en Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins.
Alls segjast 45,2 prósent þeirra vilja sjá Katrínu halda forsætisráðherrastólnum eftir kosningar en 44,2 prósent nefna Bjarna, sem hefur verið formaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 2009. Þá segjast 6,7 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokk að þeir vilji Sigurð Inga Jóhannsson, formann Framsóknarflokksins, sem næsta forsætisráðherra.
Þetta kemur fram í könnun Íslensku kosningarannsóknarinnar (ÍSKOS) á því hvern kjósendur vilji helst sjá sem forsætisráðherra Íslands eftir kosningarnar. Byggt er á svörum síðustu tíu daga. Í dag var birt nýtt niðurbrot á svörum þátttakenda við þeirri spurningu þar sem þau eru skilyrt á stuðning við flokk. Þar kemur ofangreint skýrt fram.
Umtalsverður hluti kjósenda Pírata (43,4 prósent), Framsóknarflokks (41 prósent), Samfylkingar (33,1 prósent) og Viðreisnar (30,1 prósent) vilja líka sjá Katrínu sem næsta forsætisráðherra frekar en formenn þeirra flokka en þar er hlutfallið ekki jafn hátt og stuðningur við hana er á meðal kjósenda Sjálfstæðisflokks.
Tólf prósent vilja Bjarna sem forsætisráðherra
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 21,5 prósent fylgi í nýjustu kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar og er áfram sem áður stærsti flokkur landsins samkvæmt könnunum. Samt sem áður nefna einungis 12,2 prósent þátttakenda í könnuninni síðustu tíu daga Bjarna Benediktsson sem þann formann sem þeir vilja að verði forsætisráðherra eftir kosningar. Því blasti við að ekki einu sinni allir kjósendur Sjálfstæðisflokks styddu formann flokksins í forsætisráðherrastarfið. Það hversu margir kjósendur Sjálfstæðisflokksins, sem hefur ætið skilgreint sig til hægri í stjórnmálum, vilja fá leiðtoga flokks sem er einna mest til vinstri í íslenska stjórnmálalitrofinu sem næsta forsætisráðherra vekur þó athygli.
Nær allir kjósendur Vinstri grænna, alls 96,8 prósent, vilja sjá Katrínu Jakobsdóttur sem næsta forsætisráðherra, en alls hafa tæplega 41 prósent þátttakenda í rannsókninni síðasta tíu daga nefna Katrínu sem þann stjórnmálamann sem þeir vilja í stjórnarráðið.
Einu kjósendur flokks sem eru jafn einhuga á bakvið stuðning við sinn formann í forsætisráðherraembættið og kjósendur Vinstri grænna eru, eru kjósendur Miðflokksins. Þeir sjá nánast engan annan en Sigmund Davíð Gunnlaugsson sem manninn til að leiða næstu ríkisstjórn, en 85,9 prósent þeirra nefna hann. Litlar sem engar líkur eru þó á því að þeir fái þá ósk sína uppfyllta þar sem Miðflokkurinn mælist með einungis sex prósent fylgi í nýjustu kosningaspánni sem dugar honum vart til að gera kröfu um forsætisráðherraembættið eftir komandi kosningar.