Meira en helmingur þeirra sem eiga snjallsíma halda í hann á meðan þeir sofa. Þetta er niðurstaða rannsóknar sem gerð var á snjallsímahegðun í sjö löndum. Alls tóku meira en 7.000 manns þátt. Fleiri mundu jafnframt bjarga símanum í eldsvoða áður en þeir hæfu leit að heimiliskettinum, eða 54 prósent þeirra sem tóku þátt.
Könnunin var gerð á internetninu meðal íbúa í Bandaríkjunum, Bretlandi, Kína, Spáni, Mexíkó og Indlandi af KRC Research fyrir Motorola-raftækjaframleiðandann sem meðal annars framleiðir síma. AFP-fréttastofan greinir frá rannsókninni.
Meðal þess sem kemur fram í niðurstöðunum var að 60 prósent þeirra sem tóku þátt sögðust sofa með snjallsímann í höndunum. Hæsta hlutfall þeirra var í Indlandi þar sem 74 prósent fólks sagðist sofa með símann og í Kína þar sem 70 prósent svöruðu svona.
Hæsta hlutfall þeirra sem taka símann sinn með á klósettið var í Kína og Brasilíu en séu öll löndin tekin með sögðust 57 prósent hafa símann við höndina er þeir tefla við páfan. Þá sagðist einn sjötti baða sig með símann sinn á sér.
Samband fólks við snjallsímann virðist einnig vera nánara en maður skildi ætla, enda segast 22 prósent svarenda frekar vilja sleppa kynlífi yfir helgi í stað þess að hafa ekki aðgang að símanum sínum. Þá segja 40 prósent snjallsímaeigenda símanum sínum leyndarmál sem þau gæfu ekki upp gagnvart bestu vinum sínum.
Snjallsímarnir eru hins vegar ekki fullkomnir. Meirihluti fólks, 74 prósent, þykir til dæmis síminn pirra sig þegar hann truflar á óheppilegum augnablikum. Og þeir sem segjast ánægðir með snjallsímann sinn voru aðeins 34 prósent svarenda.