Sultarólin herðist í olíuiðnaðinum í Noregi. Í gær þriðjudag tilkynnti risinn í olíuiðnaðinum, Statoil, um að fyrirtækið hyggist segja upp 1.100-1.500 starfsmönnum fyrir árslok 2016. Til viðbótar áætlar Statoil að fækka verktökum um ríflega 500. Allt að 2.000 starfsmenn munu því missa vinnuna hjá Statoil á næsta eina og hálfa árinu. Ástæðan fyrir uppsögnunum eru minnkandi umsvif vegna lækkandi olíuverðs. Miklu góðæri undangenginna ára virðist því lokið og spár benda til að mjög muni hægja á hagvexti næstu 2-3 árin. Auðvitað er þetta alls enginn heimsendir fyrir norska hagkerfið sem stendur mjög sterkt með skuldlausan ríkissjóð og bólginn olíusjóð. Fáar þjóðir eru í betri stöðu til að takast á við erfiða tíma en Noregur.
Tæknifólk missir vinnuna
Uppsagnirnar nú ná til tækni- og verkfræðinga en 12.000 slíkir starfa hjá Statoil. Fyrirtækið hyggst ná þessari fækkun starfsmanna með því að ráða ekki í störf þeirra starfsmanna sem fara á eftirlaun en auk þess munu talsverður fjöldi starfsmanna einfaldlega fá uppsagnarbréf. Þessar aðgerðir koma sér einna verst fyrir nýútskrifað tæknifólk í Stavanger og Bergen og í nágrenni.
Ekki neyðarástand
Þótt núna sé erfitt fyrir nýútskrifaða verkfræðinga að fá vinnu við olíuiðnaðinn í Noregi er ekki þar sem sagt að staðan sé þannig í öllum atvinnugreinum. Norska krónan hefur veikst undanfarið og það hefur hjálpað öðrum útflutningsgreinum að vaxa. Þá hefur aukinn hagvöxtur í Evrópu aukið spurn eftir vörum frá Noregi. Greinendur á markaði í Noregi spá að atvinnuleysi muni aukast en fæstir spá því að það aukist umtalsvert á landsvísu. Líklegra er að vinnuaflið færist til annarra atvinnugreina sem njóta góðs af veikari norskri krónu.