Á lokametrum kosningabaráttunnar hafa flokkarnir flestir aukið nokkuð við auglýsingakaup sín á samfélagsmiðlunum Facebook og Instagram. Sjálfstæðisflokkurinn og Flokkur fólksins hafa varið mestu til auglýsinga á miðlunum tveimur þegar horft er til daganna 14.-20. september.
Á þessum sjö dögum greiddi Sjálfstæðisflokkurinn alls rúmlega 1,6 milljón króna í auglýsingar á miðlunum í gegnum hinar ýmsu síður sem flokkurinn, kjördæmafélög hans og frambjóðendur halda úti og Flokkur fólksins tæplega einni og hálfri milljón króna. Samkvæmt upplýsingum úr auglýsingabanka Facebook varði flokkurinn 357 þúsund krónum í auglýsingar þann 19. september.
Samfylkingin varði á þessu sjö daga tímabili rúmlega 1,1 milljón á miðlunum tveimur sem eru í eigu Facebook-samsteypunnar, Framsókn rúmlega milljón og Miðflokkurinn hátt í milljón, en aðrir flokkar lægri upphæðum í að koma sínum áherslum inn á skjái kjósenda.
Miðflokkurinn með 3,4 milljóna útgjöld á 30 dögum
Þegar horft er á undanfarinn mánuð, eða dagana 22. ágúst til 20. september, hefur Miðflokkurinn varið meira fé en allir aðrir flokkar til auglýsinga á miðlunum tveimur, rúmlega 3,4 milljónum króna. Flokkur fólksins kemur næstur með rúmar þrjár milljónir og Sjálfstæðisflokkurinn er skráður greiðandi auglýsinga í auglýsingabanka Facebook fyrir alls um 2,8 milljónir á þessu tímabili.
Athygli vekur að Miðflokkurinn er með margfalt fleiri auglýsingar en flestir aðrir flokkar í auglýsingasafni Facebook þessa dagana, eða alls tæplega fimmhundruð. Margar þeirra eru einfaldar myndir með merki flokksins og slagorðum eða öðrum skilaboðum frá flokknum.
Framsóknarflokkurinn og kjördæmafélög flokksins hafa svo keypt auglýsingar á Facebook fyrir rúmar tvær milljónir króna og að auki eru oddvitar flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur búnir að kaupa auglýsinga fyrir meira en 600 þúsund krónur til viðbótar.
Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra er þar mun umsvifameiri en Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, en hann hefur greitt Facebook 519 þúsund krónur fyrir birtingar á þessum 30 dögum á meðan að Lilja hefur varið rúmum hundrað þúsund krónum. Ásmundur Einar er í sérflokki þegar kemur að útgjöldum einstakra frambjóðenda vegna auglýsinga á Facebook undanfarinn mánuð, en hann er að sækjast eftir þingsæti í Reykjavíkurkjördæmi norður, þar sem Framsókn á engan þingmann í dag.
Aðrir flokkar eru með minni útgjöld undanfarna 30 daga en virðast þó flestir vera að setja töluvert fé í auglýsingar á Facebook og Instagram núna á lokametrum kosningabaráttunnar.