Smári McCarthy fráfarandi þingmaður Pírata segir liðið kjörtímabil hafa einkennst af því breiða stjórnarmynstri frá vinstri til hægri sem er ráðandi. Fá tækifæri hafi verið til þess að ræða um alvöru pólitík. „Þetta hefur verið pínu frústrerandi tímabil, því þessi ríkisstjórn sem núna hefur verið við völd í fjögur ár, reyndi svo mikið að mála sig upp sem lausn allra vandamála,“ segir Smári í samtali við Kjarnann.
Núna á fyrstu metrum kosningabaráttunnar segir Smári, sem ákvað rétt eins og tveir aðrir þingmenn Pírata að gefa ekki kost á sér til endurkjörs, að ótrúlega lítið hafi í raun gerst á kjörtímabilinu. Talað hafi verið um Hálendisþjóðgarð og miklar umbætur á heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og velferðarkerfinu almennt í upphafi kjörtímabils.
„COVID er búið að flækja málin helling og það er alveg hægt að gefa fólki séns fyrir það, en ef það hefði verið lagt af stað í meiri og stærri og alvarlegri aðgerðir í upphafi værum við kannski í betri stöðu núna,“ segir Smári.
Hann telur samsetningu ríkisstjórnarinnar rót vandans. „Flokkarnir voru að þvælast fyrir hvorum öðrum, hægrimennskan of mikið til hægri fyrir VG og vinstrimennskan of mikið til vinstri fyrir Sjálfstæðisflokkinn og nettó niðurstaðan varð bara núll.“
„Það er ekki þar með sagt að ekkert hafi gerst, en ótrúlega lítið. Það segir manni að þetta tiltekna stjórnarform hafi kannski verið jafnglatað og margir sögðu að það myndi verða,“ segir Smári. Hann segir að á kjörtímabilinu hafi lítið talað um pólitík en þeim mun meira vísað til þess að mál væru í „ferli,“ „vinnslu“ og heilt yfir ætti bara að treysta ríkisstjórninni fyrir hlutunum.
Lítið ráðrúm hafi á sama tíma verið til umræðna um af hverju verið væri að gera hlutina á tiltekna vegu. „Ríkisfjármálin eru ennþá í rauninni bara í örmum Thatcherisma þrátt fyrir að það konsept sé úrelt alls staðar annars staðar. Það má aldrei tala um þessa hluti af neinni alvöru,“ segir Smári.
Hann kveðst ánægður með framlag samflokksmanna sinna á þingi undanfarin fjögur ár. „Ef maður lítur bara á pjúra tölfræði náðum við að koma ótrúlega mörgu í gegn miðað við flesta aðra þingflokka. Ég er mjög stoltur af okkar árangri, við gerðum margt, ekki bara í að koma okkar eigin málum í gegn heldur líka við að móta mál ríkisstjórnarinnar og hafa góð og jákvæð áhrif. Hins vegar er þó ekki hægt að segja að þau hafi verið neitt rosalega samvinnuþýð og oft var maður að hamast og hamast til þess að reyna að koma í gegn ótrúlega augljósum og auðveldum og jákvæðum breytingum sem var enginn hljómgrunnur fyrir vegna þess að þau höfðu ekki verið samþykkt inni í ráðuneyti. Það var yfirleitt viðkvæðið,“ segir Smári, sem er hugsi yfir því viðmóti.
„Á ýmsum augnablikum kom fram góð hugmynd frá okkur eða jafnvel öðrum, jafnvel stjórnarþingmanni, og þá þurfti að bera það undir sérfræðingana í ráðuneytinu til að það mætti framkvæma það. Eins og Alþingi hafi ekki sjálfstætt vald til að setja lög,“ segir þingmaðurinn.
Vonast til þess að langtímahugsun móti kosningabaráttuna í stað galinna loforða
Komandi kosningabarátta leggst vel í Smára. „Við erum að skipta út þremur af okkar þingflokki og það er ekki sjálfgefið að það sé auðvelt, en við erum allir að fara frá viljandi og lítum svo á að okkar tími sé búinn, við viljum fara að gera aðra hluti og hleypa öðru fólki að. Það fólk sem er að koma inn fyrir okkur og fylla efstu sætin á okkar listum er allt hávandað fólk sem hefur eitthvað til brunns að bera. Ég held að Píratar muni standa sig helvíti vel núna á næstunni og kosningabaráttan er aðeins byrjuð að litast af því að við erum með gott fólk í brúnni,“ segir Smári.
Hann kveðst þó ekki alveg átta sig á því hvað nákvæmlega kosningarnar muni snúast um. „Það er ákveðin hefð fyrir því að einhverjir flokkar komi fram með einhverskonar sprengjur og lofi einhverju sem er annað hvort algjörlega galið eða algjörlega óraunhæft að standa við og það yfirleitt er tilfellið svo þegar upp er staðið, en það hefur ekkert stórt svona móment komið ennþá.“
Smári vonast raunar til þess að sleppa alfarið við slík móment. „Ég persónulega er að vona að þessi kosningabarátta fari að snúast um einhver lykilatriði í því hvernig við ætlum að reka þetta samfélag í staðinn fyrir að flokkar lofi fasteignalánum með svona miklum afslætti eða lofi upp í ermina á sér um hvað skuli gera fyrir heilbrigðiskerfið á næstu tveimur árum.
Hvað um að við horfum aðeins lengra, 30-40 ár inn í framtíðina og segjum hvernig samfélag við viljum vera þá og hvað við þurfum að gera á næstu fjórum árum til að það sé raunhæft, til þess að leggja grunninn að því,“ segir Smári.
Hvað um að við horfum aðeins lengra, 30-40 ár inn í framtíðina og segjum hvernig samfélag við viljum vera þá og hvað við þurfum að gera á næstu fjórum árum til að það sé raunhæft, til þess að leggja grunninn að því,“ segir Smári.
Píratar „stöðugur fasti í íslenskri pólitík“
Nýleg könnun Prósents fyrir Fréttablaðið mældi Pírata með 13,3 prósent fylgi og mælist flokkurinn þar, rétt eins og víða annarsstaðar, sem næst stærsta stjórnmálaafl landsins. Smári segir Pírata á svipuðum stað og síðustu tvö til þrjú ár, en að þeir stefni að því að spýta í lófana og stækka.
„Við erum að gera eitthvað sem er að virka og við erum orðin nokkuð stöðugur fasti í íslenskri pólitík, allavega í bili. Nú er bara að nýta stöðuna eins og við getum og vona að það mæti nógu mikið af kjósendum okkar á kjörstað. Það er það erfiða hjá okkur, við mælumst alltaf betur í könnunum en það sem kemur upp úr kjörkössunum,“ segir Smári.
Ætlar að láta reyna á eigið hugvit
Spurður út í það hvað taki nú við, hjá ungum manni sem setið hefur á þingi í hálfan áratug, segist Smári vera með nokkrar hugmyndir. Hann segir það hafa farið í taugarnar á sér undanfarin ár að miðað við mikla umræðu um loftslagsbreytingar og viðbrögð við þeim sé lítið um að fólk reyni að gera eitthvað uppbyggilegt hvað loftslagsmál varðar.
Smári segist vera með „ákveðna hugmynd“ að verkefni sem hann ætli sér að hleypa af stokkunum og muni geta tjáð sig meira um síðar. „Ég er ekki bara að fara í einhverja fancy stöðu einhversstaðar heldur er ég að fara að reyna á mitt eigið hugvit,“ segir Píratinn að lokum.