Framtíð kapítalisma sem efnahagskerfis ekki björt frammi fyrir áskorunum nútímans

Ari Trausti Guðmundsson fráfarandi þingmaður VG segist verja ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur „sem framsækna á mörgum sviðum“ þótt honum sjálfum, sem sósíalista, þyki margt ógert til að ná auknum jöfnuði og jafnrétti.

Ari Trausti Guðmundsson þingmaður VG í Suðurkjördæmi.
Ari Trausti Guðmundsson þingmaður VG í Suðurkjördæmi.
Auglýsing

„Alþingi er afar mikilvæg stofnun og þar vanda menn sig oftar en ekki. Lykillinn þar er hlutlægni ásamt virðing fyrir staðreyndum,“ segir Ari Trausti Guðmundsson þingmaður Vinstri grænna. Hann er einn af þeim allnokkru sem ljóst er að munu hverfa af þingi núna í lok kjörtímabils, en Kjarninn ákvað að heyra í nokkrum fráfarandi þingmönnum og fá sýn þeirra á kjörtímabilið og stöðuna í stjórnmálum núna í aðdraganda kosninga.

Ari Trausti var landsþekktur jarðvísindamaður áður en hann var kjörinn á þing fyrir VG í Suðurkjördæmi árið 2016. Hann segir að þegar hann kom fyrst til starfa við Austurvöll hafi hann talið sig vita töluvert mikið um stjórnmál og starfshætti þingsins, en það hafi þó tekið hann eitt til tvö ár að komast vel inn í starfið.

„Það kom mér ekki á óvart en vinnuálagið gerði það að sumu leyti. Vinnusamur og vandvikur þingmaður vinnur mjög langar vinnuvikur og hléin eru götuð með fundum og verkefnum. Það er meira að segja hringt í mann eldsnemma morguns – kannski einhver áhugamaðurinn um orkumál eða sorpförgun. Og alls konar persónulegar beiðnir detta inn sem þingmaður getur ekki leyst samkvæmt stjórnsýslulögum og þingsköpum nema í fáum tilvikum,“ segir Ari Trausti, í skriflegu svari sem hann veitti Kjarnanum.

Hann segir það eina sem faraldurinn hafi létt á varðaði þingstörfin hafi verið ferðalög á vegum Alþingis. „Þau eru raunar langoftast stutt og snaggaraleg og langmest samsuða úr fundum. Margt annað, fundir og þingmál, bara jókst að vöxtum,“ segir Ari Trausti.

Ari Trausti segir að góð vinna sé unnin í þinginu. „Ég minni oft á að um það bil 2/3 þingmála sem koma til afgreiðslu líða í gegn eftir mikla vinnu „á grænu“, það er án mótatkvæða eða með öllum greiddum atkvæðum.“ Einnig nefnir hann „gríðarlega gott og reynt starfsfólk Alþingis sem gegnir höfuðhlutverki í samfélagsdramanu sem springur þar út.“

Meira gefandi að vera í stjórn en stjórnarandstöðu

Ari Trausti prófaði að vera í stjórnarandstöðu frá 2016 til 2017 er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar var við völd og nú hefur hann verið þingmaður í stjórnarmeirihluta undanfarin fjögur ár. Þetta segir hann ólíkar stöður og bætir við að það sé ólíkt meira gefandi að vera hluti af löggjafanum en ekki sífellt með gagnrýnisgleraugun á nefinu í aðhalds- og eftirlitsskyni.“

Hann segist verja ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur „sem framsækna á mörgum sviðum enda þótt sumt hafi verið látið kyrrt liggja eða ekki náðist nothæft samkomulag um.“

Auglýsing

„Í samsteypustjórnarlandi eru málamiðlanir lykillinn að sæmilega stöðugu, pólitísku ástandi. En verandi sósíalisti tel ég margt eftir að gera til að ná nægum jöfnuði og jafnrétti til að Ísland teljist norrænt þingræðis- og velferðarríki með borgaralegt lýðræði og kapítalískt hagkerfi. Sem efnahagskerfi raunar á kapítalisminn sér ekki bjarta framtíð frammi fyrir vaxandi ójöfnuði og loftslagsbreytingum,“ segir Ari Trausti og bætir við að breiðara lýðræði og hringrásarhagkerfi með samfélagslegri deilingu gæða sé að teiknast upp um leið og öfgahyggja og popúlismi sé að eflast.

„Næstu áratugir verða mjög spennandi og afdrifaríkir í pólitískum skilningi,“ segir Ari Trausti.

Bjartir tímar í Suðurkjördæmi

Ari Trausti segir að kjördæmið sem hann situr á þingi fyrir, Suðurkjördæmi, sé ekki bara stórt heldur sé það í raun þrjú býsna ólík svæði, Suðurnesin, meginhluti Suðurlands með Eyjum og svo svæðið austan Mýrdalssands alla leið til Hafnar.

„Landsbyggðaþingmaður verður að reyna að sinna málefnum kjördæmisins en hann er líka þingmaður allra annarra kjördæma. Það fer eftir þingmálum,“ segir Ari Trausti og segist geta nefnt mörg mál sem tekist hafi að þoka í rétta átt í kjördæminu, stundum með samstíga átaki allra tíu þingmanna þess.

Hann segist þess viss að Suðurkjördæmi eigi ágæta framtíð í vændum, „takist vel til með nýsköpun, menntunar- og búsetuskilyrði, samgöngur og skilgreiningar á þolmörkum náttúru og samfélaga á svæðinu“ og bætir við að sjálfbærni setji skorður við ójafnvægi og stanslausum vexti.“

Óskrifaðir kaflar taka við

Ari Trausti er elsti núverandi þingmaðurinn og segist oft spurður að því hvað taki við núna eftir þingmennskuna. Hann segir vinnuþrekið gott og skrokkinn og kollinn vel í lagi.

„Ég held áfram þar sem frá var horfið 2016, bæti við bókum, tvær að koma úr prentun þessa dagana, fræði fólk í fjölmiðlum og fyrirlestrum, stunda leiðsögn úti við og mín jarðvísindi eftir því sem mig langar til og sinni fjölskyldunni nær og oftar en ég náði að gera meðan á þingsetunni stóð. Síðast ekki síst kalla fjöllin, jöklarnir og heimskautaslóðir á mig, svo ég tali nú ekki um borgir og ferðalönd, og þá einkum og sér í lagi fyrir okkur hjónin saman. Mitt líf hefur verið kaflaskipt alla tíð og þegar þessum merka og litríka kafla í samfélagsþjónustu er lokið taka við þeir óskrifuðu,“ segir Ari Trausti.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Einkarekstur í forgrunni – Umhverfisstefna Sjálfstæðisflokksins
Kjarninn 19. september 2021
Magnús Gottfreðsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.
Segir gæði vísindastarfs á Landspítala hafa hrakað á síðustu árum
Prófessor við læknadeild Háskóla Íslands segir að öfugþróun hafi átt sér stað í vísindastarfi á Landspítala eftir að hann var gerður að háskólasjúkrahúsi árið 2000, og að ekkert skilgreint fjármagn hafi fengist til að sinna því.
Kjarninn 19. september 2021
Jean-Rémi Chareyre
VG og loftslagsmálin: Að hugsa lengra en þjóðarnefið nær
Kjarninn 19. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd í aðdraganda alþingiskosninganna 2021 – Hluti I
Kjarninn 19. september 2021
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Meira úr sama flokkiInnlent