Likudbandalag Benjamíns Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, vann sigur í þingkosningunum sem fram fóru þar í landi í gær. Kosningasigurinn kom á óvart, enda höfðu kannanir bent til þess að mjög mjótt yrði á munum milli Likud og Sionista.
Þegar næstum öll atkvæðin hafa verið talin er Likud með 30 sæti af 120 í þinginu, en Sionistabandalagið 24 sæti.
Netanjahú ætlar að mynda nýja ríkisstjórn með minni flokkum á ísraelska þinginu á næstu tveimur til þremur vikum. Þetta verður fjórða kjörtímabil hans sem forsætisráðherra landsins, og hann mun því verða sá forsætisráðherra landsins sem hefur setið lengst í embætti.
Í tilkynningu flokksins til fjölmiðla kemur fram að forsætisráðherrann hafi nú þegar rætt við formenn flokka sem honum hugnast að vinna með í ríkisstjórn.Það gæti þó reynst erfitt að mynda ríkisstjórnina. Hún þarf að hafa 61 sæti í þinginu.
Á síðasta spretti kosningabaráttunnar, þegar útlit var fyrir að Netanjahú og Likud gætu tapað, lofaði forsætisráðherrann ýmsu. Meðal þess sem hann lofaði voru þúsundir nýrra heimila á landtökusvæðum, og hann lofaði því að hann myndi ekki styðja sjálfstætt ríki Palestínu. Sionistabandalagið hefur stutt tveggja ríkja lausn og lofaði að reyna að bæta samskipti við alþjóðasamfélagið og Palestínumenn.