Flugfélagið Play Air hefur aldrei flutt jafn marga farþega og í síðasta mánuði en fjöldinn nam 110 þúsundum í mánuðinum. Fjöldi farþega sem flogið hafa með flugfélaginu hefur vaxið í hverjum mánuði það sem af er ári en í júní flugu 88 þúsund með Play. Flugfélagið tók sína sjöttu þotu í notkun í síðasta mánuði en í flota félagsins eru nú þrjár Airbus A321neo og þrjár Airbus A320neo vélar í rekstri. Stefnt er að því að bæta fjórum þotum í flota félagsins í vetur sem mun færa fjölda Airbus þota í flota félagsins upp í tíu vorið 2023.
Flugfélagið tók til starfa í júlí á síðasta ári og flutti samtals um rúmlega 101 þúsund farþega á fyrstu sex starfsmánuðum félagsins. Því flugu fleiri með hinu nýja flugfélagi í síðasta mánuði heldur en á síðasta ári. Á síðasta ári var sætanýting Play rúm 53 prósent en sætanýting félagsins hefur vaxið jafnt og þétt á þessu ári. Í júlí var sætanýtingin 88 prósent, samanborið við 79 prósent í júní, og hefur hún aldrei verið eins góð.
Icelandair nálgast sömu umsvif og fyrir faraldur
Sætanýting Icelandair var einnig góð í júlí, 89 prósent. Í tilkynningu frá Icelandair kemur fram að hún hafi aldrei verið hærri í júlímánuði. Í mánuðinum flutti Icelandair 504 þúsund farþega í millilandaflugi og er það í fyrsta sinn frá því í fyrir kórónuveirufaraldur sem farþegafjöldi félagsins í einum mánuði fer yfir hálfa milljón. Fjöldi farþega í millilandaflugi í júní var 407 þúsund.
Icelandair kemst þar af leiðandi nálægt því að ná sömu farþegatölum og fyrir faraldur en farþegafjöldinn í júlí síðastliðnum var 89 prósent af því sem hann var í sama mánuði árið 2019. Í júlí á síðasta ári flutti flugfélagið aftur á móti 195 þúsund farþega í millilandaflugi.
Í tilkynningu frá Icelandair er haft eftir Boga Nils Bogasyni forstjóra að góð sætanýting sé eftirtektarverð. „Eftirspurn er og hefur verið mikil og ljóst er að mikil uppsöfnuð ferðaþörf er til staðar,“ segir Bogi Nils.
Framkvæmdir við nýja austurálmu standa yfir á Keflavíkurflugvelli
Nýjar farþegatölur frá Keflavíkurflugvelli, gefnar út af Isavia, sýna einnig fram á bata í ferðaþjónustunni. Í júlí síðastliðnum fóru rúmlega 852 þúsund farþegar um flugvöllinn og voru það fleiri farþegar en fóru um flugvöllinn í sama mánuði árið 2019.
Í tilkynningu Isavia er haft eftir Guðmundi Daða Rúnarssyni að nú sé mikilvægt að halda áfram þeirri góðu vinnu sem unnin hafi verið í uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli til að mæta eftirspurninni sem fari vaxandi.
„Framkvæmdir hafa staðið yfir á Keflavíkurflugvelli meðal annars vegna byggingu 1200 metra akbrautar fyrir flugvélar og byggingar á nýrri austurálmu sem er rúmlega 20.000 fermetrar að stærð sem mun bæta upplifun farþega og flugfélaga frá 2024. Á sama tíma hafa bæði Icelandair og Play tilkynnt stækkun flugflota á næstu misserum og því mikil þörf á að framkvæmdir á flugvellinum haldi áfram,“ segir í tilkynningunni.