Hótelkeðjan Flugleiðahótel (Icelandair Hótel), sem rekur níu heilsárshótel með jafn mörgum veitingastöðum, hefur lagt til að Alþingi geri þá breytingu á frumvarpi um styrki til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma að rekstraraðilar sem reki marga veitingastaði á sömu kennitölunni geti sótt um þessa nýjustu veirustyrki ríkisins fyrir hvern og einn veitingastað sem er með útgefið rekstrarleyfi.
Þetta kemur fram í umsögn hótelkeðjunnar um frumvarpið, sem send var inn til Alþingis fyrir helgi. Í umsögninni segir einnig að frumvarpið, sem lagt var fram af Bjarna Benediktssyni fjármála- og efnahagsráðherra þann 18. janúar síðastliðinn, taki „ekki tillit til þeirra aðila sem eru með fleiri en einn veitingastað í rekstri undir sömu kennitölu“ og að stjórnendur Flugleiðahótela telji það „skjóta skökku við að ekki sé hægt að sækja um styrk fyrir hvert útgefið rekstrarleyfi í stað styrks á hverja kennitölu.“
Frumvarpið felur í sér að rekstraraðilar í veitingageiranum geti fengið styrki vegna tekjufalls á síðustu mánuðum síðasta árs og þeim fyrstu á þessu ári, allt að þremur milljónum króna á mánuði á hvern rekstraraðila.
Stuðningsúrræði hugsað til að halda smáum rekstraraðilum á floti
Icelandair Hótel eru ekki fyrsti aðilinn til að vekja máls á því að þetta veiruúrræði stjórnvalda gagnist minni rekstraraðilum betur en þeim sem stærri eru. Viðskiptaráð Íslands benti til dæmis á það í umsögn sinni að stærri rekstraraðilar gætu ekki fengið rekstrarstyrk í sambærilegu hlutfalli við tap vegna takmarkana á starfsemi þeirra og þeir minni, eins og frumvarpið væri skrifað.
Samkvæmt minnisblaði frá fjármálaráðuneytinu sem sent var til efnahags- og viðskiptanefndar þann 27. janúar er þó ljóst að það er með ráðum gert, en ráðuneytið bendir á að fjárhæðarmörkum í frumvarpinu sé einmitt ætlað að beina stuðningi ríkisins frekar til smærri en stærri rekstraraðila.
Ráðuneytið benti á að þrír af hverjum fjórum launagreiðendum á Íslandi væru með fjóra launamenn eða færri og hlutfallið væri hærra ef miðað væri við stöðugildi, því um fimmtungur launamanna væri ekki í fullu starfi. Það hlutfall væri svo enn hærra í veitingarekstri – og vísaði ráðuneytið til nýlegrar skýrslu KPMG þar sem fram kom að 79 prósent starfsmanna veitingahúsa væru í hlutastarfi.
Stór fyrirtæki hafi kost á bankalánum öfugt við þau minni
„Ráðuneytið telur því að með því að miða hámark styrks við fimm stöðugildi nýtist úrræðið vel meirihluta fyrirtækja í veitingarekstri,“ segir í minnisblaði ráðuneytisins.
Þar segir einnig að meiri þörf sé á því að styðja við minni rekstraraðila en þá stærri, þar sem þeir hafi síður en stærri rekstraraðilar aðgang að annarri fyrirgreiðslu til að mæta lausafjárvanda, eins og til dæmis bankalánum.
Frumvarpið um styrki til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma bíður þess að verða tekið til 3. umræðu á þingi.