Flugmaðurinn sem var inni í flugstjórnarklefa Germanwings þotunnar sem hrapaði í frönsku ölpunum í fyrradag brotlenti vélinni viljandi. Þetta segir saksóknari í Marseille, sem fer með rannsókn á flugslysinu.
Í morgun bárust fréttir af því að annar flugmannanna hefði verið læstur úti úr flugstjórnarklefanum áður en vélin hrapaði. Þetta hefur nú verið staðfest, sem og það að maðurinn sem var læstur úti var flugstjórinn. Hann heyrist á upptökum úr flugrita reyna að brjóta niður dyrnar að klefanum og kalla á flugmanninn, án árangurs. Flugmaðurinn sem brotlenti vélinni sagði ekki orð allan þann tíma. Þó heyrist andardráttur hans á upptökunni og hann er sagður hafa verið með meðvitund allt þangað til vélin skall á fjallinu. „Tilgangurinn var að eyðileggja þessa vél,“ segir saksóknarinn.
Saksóknarinn vill ekki fullyrða að um sjálfsmorð hafi að ræða. „Hann hafði enga ástæðu til að slökkva á samskiptum við aðrar flugvélar. Við heyrðum óp mínútum áður en vélin hrapaði.“
Flugmaðurinn var þýskur, hét Andreas Lubitz, og var ekki þekktur sem hryðjuverkamaður eða neitt slíkt, að sögn saksóknarans.